Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:
Elliðaárdalurinn er eitt víðfeðmasta og vinsælasta útivistarsvæði borgarinnar. Hann býður upp á skjólsæld, gróðursæld og víðfemt og fjölbreytilegt skóglendi, ummerki um stórbrotna jarðsögu, laxveiðiá í miðri borg, er vettvangur örlagaþrunginna atburða og hefur að geyma ýmsar sögulegar minjar. Þar er elsta og merkasta sögusafn Reykjavíkur, Árbæjarsafnið, sem er einu minjar borgarinnar um híbýli og búskaparhætti á tímum gömlu torfbæjanna.
Auk þess eru þar gamlir steinbæir og sögufræg timburhús frá 19. aldar byggingarsögu Reykjavíkur. Í dalnum er auk alls þessa að finna Rafveitusafnið og elstu stórvirkjun Íslandssögunnar.
Ósannindi um friðun
Hingað til hefur þessi grein verið upptalning á staðreyndum, ekki matsatriðum. En nú ætla ég að leggja það mat á þessar staðreyndir að Elliðaárdalinn hefði átt að friða fyrir löngu. Þegar því máli var hreyft á síðasta ári héldu nokkrir málsvarar núverandi borgarstjórnarmeirihluta því fram að ekki þyrfti að friða dalinn því hann væri friðaður. Þetta er alrangt. Hverfisvernd í deiliskipulagi er ekki friðlýsing. Friðlýsing byggist á náttúruverndarlögum og er unnin í samvinnu við umhverfisráðuneyti.
Hvers vegna vilja sumir friðlýsa Elliðaárdalinn og hvers vegna vilja aðrir slá ryki í augu borgarbúa með ósannindum um að dalurinn sé friðaður?
Jú, þeir sem vilja friðlýsa dalinn vilja vernda hann fyrir ágangi nýrra bygginga og umferðar. Það yrði óafturkræft umhverfisslys ef gengið yrði á dalinn með umfangsmiklum byggingum með tilheyrandi hávaða- og ljósamengun.
Hvers vegna ósannindi?
Þeir sem segja hér ósatt vilja hins vegar vernda núverandi borgarstjórnarmeirihluta og ákvarðanir hans um að selja einkaaðila lóð undir 12.500 fermetra mannvirki sem eiga að verða gróðurhvelfingar og veitingarekstur. Þar er gert ráð fyrir byggingum að grunnfleti 4.500 fermetrar. Auk þessarar lóðar ætlar meirihlutinn að úthluta þremur öðrum lóðum undir ýmiss konar starfsemi á svæðinu og bílastæði fyrir hundruð ökutækja. Ekki er ljóst hvort lóðaverðið kemur til með að svara kostnaði borgarinnar við að gera svæðið lóðarhæft og málsvarar meirihlutans hafa viðurkennt að þeir hafi ekki hugmynd um það hver á endanum ætli að fjármagna þetta tröllaukna túristafyrirtæki. Svona er staðan og svolítið hæpin fyrir þá sem reyndu að telja okkur trú um þau ósannindi að dalurinn væri friðaður.
Farið gegn fagaðilum í umhverfismálum
Í nóvember sl. breytti borgarstjórnarmeirihlutinn deiliskipulagi norðan Stekkjarbakka til að uppfylla vilyrði fyrir fyrrnefndum stórframkvæmdum á svæðinu. Auk þess felldi borgarstjórnarmeirihlutinn tillögu minnihlutans um að Reykvíkingar fengju að verja dalinn sinn með almennum kosningum um þessa skipulagsbreytingu. Umverfisstofa ríkisins hefur mælst gegn þessari aðför að dalnum með margvíslegum röksemdum. Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, hefur eftirfarandi að segja um aðförina að dalnum: „Stjórn Landverndar telur að með þeim breytingum sem áformaðar eru sé verið að ganga á afar vinsælt og skjólsælt útivistarsvæði með fjölbreyttu lífríki og áhugaverðum menningarminjum.“ Minnihlutinn í borgarstjórn leggst alfarið gegn þessum áformum og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins berjast nú hetjulegri baráttu gegn þessum áformum, með undirskriftasöfnun meðal borgarbúa.
Verjum Elliðaárdalinn
Kæru Reykvíkingar! Með þetta í huga hvet ég ykkur öll til að taka þátt í undirskriftasöfnun Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins og leggjast þannig á sveif með þeim sem vilja vernda dalinn gegn óábyrgu náttúruspillandi og menningarspillandi gróðafyrirtæki borgarstjórnarmeirihlutans og óþekktra auðjöfra þeirra.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. febrúar 2020.