Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Sérstakt ákall um aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum var samþykkt á fundi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á fundi stofnunarinnar í París í síðustu viku. Átján aðildarríki standa að ákallinu, þar á meðal Ísland.
Ég sat í pallborði á fundinum og greindi þar meðal annars frá breyttu verklagi lögreglu á Íslandi, mikilvægi þess að skoða kerfið út frá upplifun brotaþola auk þess sem ég fjallaði um nýleg lagaákvæði varðandi ofbeldi í nánum samböndum.
Alþingi hefur samþykkt heildstæða aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem nær til ársins 2022. Markmið hennar er að vinna að forvörnum og fræðslu. Henni er auk þess ætlað að bæta viðbrögð og málsmeðferð í réttarvörslukerfinu og vinna að valdeflingu þolenda með þverfaglegt starf að leiðarljósi.
Það hefur mikil vakning átt sér stað á þessu sviði á undanförnum árum. Unnið hefur verið að umbótum á löggjöf, bættu verklagi við meðferð þessara mála innan réttarvörslukerfisins, aukinni vernd fyrir þolendur, einfaldari meðferð nálgunarbanns og auknum skilningi á þörfum þolenda brotanna. Þá hafa verið stofnaðar sérstakar ráðgjafarmiðstöðvar, Bjarkahlíð og Bjarmahlíð, fyrir þolendur heimilisofbeldis. Þangað geta þolendur leitað til að sækja sér ráðgjöf og aðstoð sér að kostnaðarlausu. Sú starfsemi er afar mikilvæg, ekki aðeins fyrir þolendurna sjálfa heldur einnig sem úrræði fyrir lögreglu til að hjálpa þolendum. Þeir fá þar lögfræðiaðstoð og einnig aðstoð til að vinna úr afleiðingum ofbeldisins.
Á ráðstefnunni veittu önnur ríki þessu mikilvæga skrefi okkar í að opna ráðgjafarmiðstöðvar mikla athygli og sérstaklega var fjallað um þörf annarra landa á að stíga þessi skref.
Það er mikilvægt að lögreglan, sem oftast mætir fyrst á vettvang, hafi sérþekkingu á afleiðingum heimilisofbeldis til að geta mætt þolendum brotanna af skilningi og nærgætni á vettvangi. Menntun lögreglumanna þarf því að fela í sér kunnáttu á eðli og einkennum þessara brota og afleiðingum þeirra á þolendurna. Þá er mikilvægt að tryggja endurmenntun lögreglumanna til að stuðla að færni þeirra og hæfni til að fást við þennan viðkvæma málaflokk. Við höfum séð gríðarlegar framfarir síðustu ár hjá lögreglunni varðandi meðhöndlum heimilisofbeldisbrota og ljóst af umræðu við önnur ríki að þar stöndum við framarlega í samanburði.
Þýðingarmikið er að hafa sérstakt ákvæði í hegningarlögum sem lýsir ofbeldi í nánu sambandi refsivert. Slíkt ákvæði var sett í hegningarlög árið 2016. Með því voru þau skilaboð gefin til samfélagsins að ofbeldi í nánum samböndum yrði ekki liðið og að slík brot væru ekki einkamál aðilanna. Þetta eru viðkvæm brot sem varða manneskjur og því er mikilvægt að kerfið okkar hafi burði til að taka á þeim málum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. febrúar 2020.