Óhætt er að segja að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi gert víðreist síðustu daga en í gær tóku þingmennirnir daginn snemma og heimsóttu fjölmörg fyrirtæki og stofnanir á Akureyri. Í hádeginu í gær sótti fjölmenni hádegisfund þingflokksins í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Sömuleiðis var hádegisfundur þingflokksins á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum í dag mjög vel sóttur.
Þingmennirnir hafa gefið umræðum við fundargesti góðan tíma og rætt hefur m.a. verið um samgöngur, heilsugæslu, eflingu iðnnáms og ofanflóðavarnir, svo nokkur atriði séu nefnd. Móttökur hafa alls staðar verið með besta móti og gestrisni mikil. Kaffi, mjólk, nýbakaðar kleinur, súpur af öllum toga, kótilettur í raspi og grænar baunir. Allt hefur þetta runnið ljúflega niður með hressilegu spjalli um þjóðmálin.
Í kvöld hélt þingflokkurinn opinn fund á Höfn í Hornafirði og hófst þar með yfirreiðin um Suðurkjördæmi. Staðirnir sem þingflokkurinn heimsótti í Norðausturkjördæmi á tveimur dögum voru Siglufjörður, Dalvík, Akureyri, Húsavík, Þórshöfn, Kópasker, Raufarhöfn, Egilsstaðir, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Neskaupstaður, Seyðisfjörður, Breiðdalsvík og Djúpivogur. Einnig var gert stutt stopp á bænum Borgum í Svalbarðshreppi þar sem sæmdarhjónin Vigdís og Eiríkur búa ásamt syni þeirra Sigurði en þau hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn dyggilega alla tíð.