Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:
Reykjavíkurborg rekur 63 leikskóla. Í lögum um leikskóla kemur fram að hann sé fyrsta skólastigið en þar er kveðið á um að tveir af hverjum þremur starfsmönnum skuli vera menntaðir leikskólakennarar. Leikskólar gegna mikilvægu hlutverki í menntun barnanna okkar.
Í nóvember 2019 var starfandi í borgarreknum leikskólum Reykjavíkurborgar 351 leikskólakennari í 301 stöðugildi en heildarfjöldi stöðugilda er um 1400. Það er því aðeins 301 stöðugildi leikskólakennara á þessum 63 leikskólum sem Reykjavíkurborg rekur eða um 4,7 stöðugildi á hverjum leikskóla. Það gefur augaleið að það er ekki í samræmi við lögin.
100 deildir án leikskólakennara
Leikskóladeildir í nóvember 2019 voru hjá Reykjavíkurborg 284, þar af voru 184 deildir með starfandi leikskólakennurum en 100 deildir án leikskólakennara. Þessar tölur eru sláandi og það er ljóst að gríðarleg vinna er fram undan. Til þess að uppfylla lögin, sem kveða á um það að 2/3 hlutar starfsmanna skuli vera menntaðir leikskólakennarar þá þurfa að vera 933 leikskólakennara starfandi á leikskólum Reykjavíkur. Það er því augljóst að mikið vantar upp á að ná því að uppfylla þessa lagaskyldu. Til hvers eru þessi lög ef það er hægt að þverbrjóta þau í stærsta sveitarfélagi landsins án þess að það séu nokkur viðurlög við því?
Leikskólar án fagfólks
Einn 5 deilda leikskóli er ekki með neinn starfandi leikskólakennara utan leikskólastjóra og í fjórum leikskólum er aðeins 1 og 1,3 stöðugildi leikskólakennara. Í sjö leikskólum starfa 2 leikskólakennarar utan leikskólastjóra. Er hægt að kalla leikskóla án leikskólakennara eitthvað annað en gæsluvelli?
Lausn
Mannekla er stóra vandamálið sem leikskólar Reykjavíkur glíma við, að skerða þjónustu er ekki lausn á þeim vanda. Við verðum að auðvelda þeim sem vilja fara í námið að klára það og styðja þá mun betur en nú er gert. Hvernig er þetta í öðrum bæjarfélögum, hvernig stendur á því að í Þorlákshöfn er hlutfall leikskólakennara 100%, á Akureyri 51%, á Akranesi er það 44% og á Seltjarnarnesi er það 40%? Af hverju er staðan ekki betri hjá stærsta sveitarfélagi landsins?
Það má búast við því að í haust hverfi svo einhver fjöldi af þessum 351 leikskólakennara yfir á önnur skólastig ef ekki verður blásið til stórsóknar í leikskólum Reykjavíkur. Það gerist vegna þess að nú geta leikskólakennarar, líkt og aðrir kennarar, flakkað á milli skólastiga. En hvernig á að bregðast við þessari þróun?
Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að byrja á því að styrkja fólkið okkar enn frekar til þess að stunda námið. Í öðru lagi þarf að horfa til þeirra sveitarfélaga sem eru að gera betur en við og draga lærdóm af þeim, t.d. með því að horfa á hvernig þau að verja fjármunum til leikskólanna. Í þriðja lagi eigum við að nýta þær skýrslur og kannanir sem hafa verið gerðar og fjalla um þennan mikla vanda. Það er allt hluti af því að leysa þennan vanda ásamt því að móta fjölskyldustefnu.
Fjölskyldustefna er lykill að lausn
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú lagt það til að Reykjavíkurborg móti sér fjölskyldustefnu, líkt og hefur verið gert í mörgum sveitarfélögum landsins. Stefnan er mjög mikilvæg og getur ekki aðeins tekið á málefnum fjölskyldunnar af meiri festu heldur mun hún einnig tryggja afkomu barna og hagsmuni þeirra. Þá mun hún efla forvarnir og fræðslu fyrir fjölskyldur, tryggja að öll börn eigi kost á að taka þátt í skipulögðu frístundastarfi, auka stuðning við umönnun og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og tryggja velferð barna.
Hættum að tala og brettum upp ermar, gerum það sem þarf að gera til þess að byrja að snúa hjólinu í rétta átt. Þannig fáum við fagfólkið okkar aftur til okkar og aukum nýliðun í stétt leikskólakennara.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 23. janúar 2020.