Fjölgar störfum á landsbyggðinni
'}}

„Þessi áætlun  er afrakstur vinnu sem ég setti af stað sl. haust og var unnið að útfærslu hennar í samráði við forstöðumenn þeirra stofnana sem að því koma. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem slík áætlun er unnin og fjármögnuð með þessum hætti og ég bind vonir við að afrakstur hennar verði til þess að efla þjónustu hins opinbera á landsbyggðinni og um leið styrkja atvinnulífið á landsbyggðinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt,“ sagði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í dag þegar hann kynnti áætlun sem miðar að því að fjölga starfsmönnum stofnana á hans málefnasviði á landsbyggðinni.

Skv. áætluninni mun störfum fjölga um samtals 36 á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum hjá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun. Bæði Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun munu á næstu þremur árum ráða í nýjar stöður tengdar fiskeldi annað hvort á Austurlandi eða á Vestfjörðum.

Áætlunin var unnin í samráði við forstöðumenn þeirra stofnanna sem átakið nær til og undirritað af sömu aðilum. Í áætluninni eru bæði sameiginlegar áherslur og tölusett markmið en sérstakur stýrihópur ráðuneytisins og forstöðumanna stofnana hefur verið falið að tryggja framkvæmd hennar og verður árangur hennar metinn árlega.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun ráðstafa 50 milljónum króna af verkefnafé ráðuneytisins til þessa verkefnis á árinu 2020.

Þær aðgerðir sem stofnanirnar munu vinna með ráðuneytinu eru eftirfarandi:

  • Stofnanir ráðuneytisins og MATÍS ohf. munu leitast við að ná fram hagræði í rekstri með að starfsstöðvar verði í sama húsnæði.
  • Stofnanir ráðuneytisins og MATÍS ohf. munu bjóða starfsmönnum upp á aukinn sveigjanleika varðandi starfsstöðvar. Störf sem ekki eru staðbundin verði að jafnaði auglýst með valmöguleika um staðsetningu á fleiri en einni starfsstöð að gættum markmiðum um eflingu starfsstöðva á landsbyggðinni.
  • Stofnanir ráðuneytisins og MATÍS ohf. munu leitast við að efla samstarf við Háskólann á Akureyri og háskólasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni.
  • Reglulega verði kannað hvort starfsmenn hafi áhuga á því að skipta um starfsstöð og þannig stutt við markmið um eflingu starfstöðva á landsbyggðinni.
  • Í árslok 2024 verði 10% auglýstra starfa án staðsetningar til samræmis við byggðaáætlun.
  • Hafrannsóknastofnun mun á næstu þremur árum ráða í nýjar stöður tengdar fiskeldi á Austurlandi og á Vestfjörðum.
  • Matvælastofnun mun koma á fót sérstakri starfseiningu um fiskeldi innan stofnunarinnar. Stofnunin mun á næstu þremur árum ráða í ný störf á því sviði á Austurlandi og á Vestfjörðum.
  • MATÍS ohf. mun vinna eftir þeirri stefnu sem félagið hefur sett sér um aukið samstarf við einstök fyrirtæki í matvælaframleiðslu sem getur orðið til að auka starfsemi félagsins á landsbyggðinni.
  • Innan fimm ára fjölgi störfum hjá stofnunum ráðuneytisins úr 6 í 14 á Austurlandi úr 41 í 57 á Norðurlandi og úr 10 í 22 á Vestfjörðum. Það gerist einkum með starfsmannaveltu og nýju störfum. Stofnanir ráðuneytisins styðja við markmið ráðherra um fjölgun starfa á landsbyggðinni og munu leggja sig fram um að þau náist.
  • Ráðuneytið mun horfa til þess við forgangsröðun fjármuna og mótun áherslna í fjárveitingarbréfum að stutt sé við aðgerðir samkvæmt áætlun þessari.
  • Í töflu hér á eftir eru sett fram töluleg markmið um fjölda starfa stofnana ráðuneytisins á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Horft verði til þess að fjölgun starfa þar verði ekki á kostnað annarra landshluta utan höfuðborgarsvæðisins.

Töluleg markmið um störf Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Fiskistofu á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum 2019-2025:

Svæði 2019 2021 2023 2025
Austurland 6 10 12 14
Norðurland 41 47 52 57
Vestfirðir 10 17 20 22

 

Sjá nánar í frétt á vef ráðuneytisins hér.