Tvö mál til framfara
'}}

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Við Íslend­ing­ar kom­umst sæmi­lega klakk­laust í gegn­um liðið ár, þótt ekki blési byrlega á köfl­um. Sam­drátt­ur í efna­hags­líf­inu var minni­hátt­ar og flest bend­ir til að hag­vöxt­ur geti náð sér aft­ur á strik á þessu og næsta ári. Til að svo verði þurfa stjórn­völd að halda rétt á spil­un­um.

Staðan er í flestu sterk. Verðbólga er lít­il, stýri­vext­ir hafa ekki verið lægri. Er­lend staða þjóðarbús­ins er góð og rík­is­sjóður stend­ur vel. Á fyrstu níu mánuðum nýliðins árs var liðlega 111 millj­arða af­gang­ur af vöru- og þjón­ustu­jöfnuði – yfir 20 millj­örðum meira en á sama tíma 2018.

Kaup­mátt­ur launa held­ur áfram að hækka en frá 2012 hef­ur hann hækkað um 36%. Á hverju ein­asta ári frá 2011 hef­ur kaup­mátt­ur launa hækkað – mest árið 2016 þegar hækk­un­in var 9,5%. Lífs­kjara­rann­sókn Hag­stof­unn­ar leiðir í ljós að hvergi á Norður­lönd­un­um er ójöfnuður minni en á Íslandi. Sam­kvæmt Gini-stuðlin­um var jöfnuður hvergi meiri í Evr­ópu en á Íslandi árið 2018 fyr­ir utan Slóvakíu.

En það eru blikk­andi viðvör­un­ar­ljós.

Sam­kvæmt vinnu­markaðsrann­sókn Hag­stof­unn­ar voru 8.200 ein­stak­ling­ar án at­vinnu í nóv­em­ber síðastliðnum. Þetta þýðir að at­vinnu­leysi var 4,3%. Um 1.500 fleiri voru án at­vinnu í nóv­em­ber en í sama mánuði ári áður og um 3.800 fleiri sé miðað við nóv­em­ber 2017. Þá var hlut­fall at­vinnu­lausra nær helm­ingi lægra. Slaki á vinnu­markaðinum er aug­ljós en fátt sær­ir ís­lenska þjóðarsál meira en at­vinnu­leysi.

Þrátt fyr­ir að stýri­vext­ir Seðlabank­ans séu í sögu­legu lág­marki hef­ur sú vaxta­lækk­un ekki náð að seytla um all­an fjár­mála­markaðinn. Ein skýr­ing­in er sú hve fjár­mála­markaður­inn er óhag­kvæm­ur, ekki síst vegna sér­ís­lenskra eig­in­fjár­krafna og skatt­lagn­ing­ar sem eru langt um­fram það sem þekk­ist í helstu viðskipta­lönd­um. Þótt búið sé að ákveða að lækka banka­skatt­inn í skref­um frá og með kom­andi ári, er ljóst að fjár­mála­kerfið er illa sam­keppn­is­fært. Lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki gjalda þessa í fé­lagi við heim­il­in.

Viðvör­un­ar­ljós­in er fleiri. Á liðnu ári dróst at­vinnu­vega­fjár­fest­ing sam­an, annað árið í röð. Fjár­fest­ing hins op­in­bera minnkaði einnig á síðasta ári. Mik­il aukn­ing í íbúðafjár­fest­ingu kom á móti en eins og kem­ur fram í þjóðhags­spá Hag­stof­unn­ar í nóv­em­ber eru vís­bend­ing­ar um að farið sé að hægja á bygg­ing­ar­geir­an­um.

Ekk­ert sam­fé­lag nær að tryggja og auka lífs­kjör til lengri tíma án fjár­fest­inga. Án fjár­fest­inga fyr­ir­tækja verða ekki til störf. Það er ekki síst vegna þessa sem nauðsyn­legt er að stjórn­völd hugi að því með hvaða hætti hægt er að örva fjár­fest­ingu í at­vinnu­líf­inu og á al­menn­um íbúðamarkaði.

Vaxtaum­hverfi skipt­ir þar miklu en ekki síður aðgengi að láns- og áhættu­fé. Í Pen­inga­mál­um Seðlabank­ans í nóv­em­ber er bent á að aðgengi fyr­ir­tækja að láns­fé virðist þrengra en það var. Lík­lega megi rekja það að ein­hverju leyti til breyttra aðstæðna í þjóðarbú­inu en gæti einnig verið vegna erfiðari lausa­fjár­stöðu sumra fjár­mála­stofn­ana. Hinar sér­ís­lensku kröf­ur og álög­ur.

Meðal ann­ars með hliðsjón af of­an­greind­um staðreynd­um er mér um­hugað um að koma tveim­ur laga­frum­vörp­um í gegn­um Alþingi. Hvort um sig vinn­ur gegn sam­drætti í efna­hags­líf­inu, örv­ar fjár­fest­ingu en byggja um leið und­ir fjár­hags­legt sjálf­stæði ein­stak­linga.

End­ur­greiðsla virðis­auka­skatts

Fyrra frum­varpið er ein­falt. Lagt er til að virðis­auka­skatt­ur af vinnu við bygg­ingu eða viðhald íbúðar­hús­næðis verði end­ur­greidd­ur að fullu. Ætla má að bygg­ing­ar­kostnaður íbúða lækki um allt að 3% nái frum­varpið fram að ganga. Samiðn – sam­band iðnfé­laga – hef­ur fagnað frum­varp­inu og seg­ir í um­sögn að breyt­ing­in hafi já­kvæð áhrif á fé­lags­menn Samiðnar: „Hins veg­ar tel­ur Samiðn mik­il­vægt að um­rædd breyt­ing taki einnig til frí­stunda­húsa og tel­ur eng­in rök hníga í þá veru að und­anþiggja frí­stunda­hús frá þess­ari breyt­ingu.“ Þingið hlýt­ur að taka þessa ábend­ingu iðnaðarmanna til skoðunar en í grein­ar­gerð með frum­varp­inu kem­ur fram að sterk rök séu fyr­ir því að end­ur­greiðslan taki einnig til frí­stunda­húsa.

Rík­is­skatt­stjóri bend­ir á hið aug­ljósa í um­sögn sinni: Mik­il­væg­ur hvati dul­inn­ar (svartr­ar) at­vinnu­starf­semi er „að kaup­end­ur þjón­ustu telji sig geta sparað fjár­muni með því að semja við selj­anda um að virðis­auka­skatt­ur verði ekki inn­heimt­ur. Með fullri end­ur­greiðslu virðis­auka­skatts vegna vinnu manna við bygg­ingu, end­ur­bæt­ur og viðhald á íbúðar­hús­næði sé sá hvati ekki til staðar að því er þessa starf­semi varðar og því góðar lík­ur á að skatt­skil muni batna.“

Full end­ur­greiðsla á virðis­auka­skatti vegna vinnu á bygg­ing­arstað er dæmi um hvernig rík­is­valdið get­ur með ein­föld­um hætti stuðlað að heil­brigðari vinnu­markaði, bætt skatt­skil (trygg­inga­gjald, tekju­skatt o.s.frv.) og lækkað bygg­inga­kostnað ein­stak­linga. Það hagn­ast all­ir, ekki síst rík­is­sjóður þegar til lengri tíma er litið.

Skatta­afslátt­ur og hluta­bréf

Síðara frum­varpið snýr að því að styrkja ís­lensk­an hluta­bréfa­markað, gera hann skil­virk­ari og þar með auka aðgengi fyr­ir­tækja að nauðsyn­legu áhættu­fé. Um leið er skotið enn einni stoðinni und­ir eigna­mynd­un launa­fólks. Nái frum­varpið fram að ganga verður ein­stak­ling­um veitt heim­ild, með ákveðnum tak­mörk­un­um, til að draga frá tekju­skatti kaup á skráðum hluta­bréf­um og hlut­deild­ar­skír­tein­um verðbréfa- og hluta­bréfa­sjóðs sem eru skráð á skipu­leg­an verðbréfa­markað eða fjár­festa ein­göngu í skráðum hluta­bréf­um.

Hluta­bréfa­markaður­inn er mik­il­væg upp­spretta fjár­magns og veit­ir fyr­ir­tækj­um aðgang að nauðsyn­legu áhættu­fé. Skil­virk­ur hluta­bréfa­markaður er óaðskilj­an­leg­ur hluti öfl­ugs efna­hags­lífs. Sterk­ur markaður þar sem fyr­ir­tæki hafa greiðan aðgang að fjár­magni til fjár­fest­ing­ar og vaxt­ar á að vera keppikefli stjórn­valda ekki síður en að byggja upp skil­virk­an og sam­keppn­is­hæf­an fjár­mála­markað í heild sinni.

Auðvitað trygg­ir skatta­afslátt­ur til ein­stak­linga ekki einn og sér öfl­ug­an hluta­bréfa­markað. Með því að þátt­tak­end­um fjölg­ar verður hluta­bréfa­markaður­inn dýpri, verðmynd­un­in eðli­legri og markaður­inn þar með heil­brigðari. Það sem skipt­ir kannski mestu: Það er verið að styrkja fjár­hags­legt sjálf­stæði ein­stak­linga og gera þeim kleift að taka þátt í at­vinnu­rekstri. Þannig eru hags­mun­ir al­menn­ings og at­vinnu­lífs­ins sam­tvinnaðir. Áhugi og þar með þekk­ing á at­vinnu­líf­inu og stöðu hag­kerf­is­ins, eykst.

Með því að inn­leiða skatta­afslátt vegna hluta­bréfa­kaupa vinna all­ir. Ekki aðeins þeir sem nýta sér mögu­leik­ana sem í af­slætt­in­um fel­ast held­ur einnig þeir sem annaðhvort vilja ekki eða eiga þess ekki kost að kaupa hluta­bréf. Það græða all­ir þegar at­vinnu­lífið efl­ist.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. janúar 2020.