Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Við Íslendingar komumst sæmilega klakklaust í gegnum liðið ár, þótt ekki blési byrlega á köflum. Samdráttur í efnahagslífinu var minniháttar og flest bendir til að hagvöxtur geti náð sér aftur á strik á þessu og næsta ári. Til að svo verði þurfa stjórnvöld að halda rétt á spilunum.
Staðan er í flestu sterk. Verðbólga er lítil, stýrivextir hafa ekki verið lægri. Erlend staða þjóðarbúsins er góð og ríkissjóður stendur vel. Á fyrstu níu mánuðum nýliðins árs var liðlega 111 milljarða afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði – yfir 20 milljörðum meira en á sama tíma 2018.
Kaupmáttur launa heldur áfram að hækka en frá 2012 hefur hann hækkað um 36%. Á hverju einasta ári frá 2011 hefur kaupmáttur launa hækkað – mest árið 2016 þegar hækkunin var 9,5%. Lífskjararannsókn Hagstofunnar leiðir í ljós að hvergi á Norðurlöndunum er ójöfnuður minni en á Íslandi. Samkvæmt Gini-stuðlinum var jöfnuður hvergi meiri í Evrópu en á Íslandi árið 2018 fyrir utan Slóvakíu.
En það eru blikkandi viðvörunarljós.
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar voru 8.200 einstaklingar án atvinnu í nóvember síðastliðnum. Þetta þýðir að atvinnuleysi var 4,3%. Um 1.500 fleiri voru án atvinnu í nóvember en í sama mánuði ári áður og um 3.800 fleiri sé miðað við nóvember 2017. Þá var hlutfall atvinnulausra nær helmingi lægra. Slaki á vinnumarkaðinum er augljós en fátt særir íslenska þjóðarsál meira en atvinnuleysi.
Þrátt fyrir að stýrivextir Seðlabankans séu í sögulegu lágmarki hefur sú vaxtalækkun ekki náð að seytla um allan fjármálamarkaðinn. Ein skýringin er sú hve fjármálamarkaðurinn er óhagkvæmur, ekki síst vegna séríslenskra eiginfjárkrafna og skattlagningar sem eru langt umfram það sem þekkist í helstu viðskiptalöndum. Þótt búið sé að ákveða að lækka bankaskattinn í skrefum frá og með komandi ári, er ljóst að fjármálakerfið er illa samkeppnisfært. Lítil og meðalstór fyrirtæki gjalda þessa í félagi við heimilin.
Viðvörunarljósin er fleiri. Á liðnu ári dróst atvinnuvegafjárfesting saman, annað árið í röð. Fjárfesting hins opinbera minnkaði einnig á síðasta ári. Mikil aukning í íbúðafjárfestingu kom á móti en eins og kemur fram í þjóðhagsspá Hagstofunnar í nóvember eru vísbendingar um að farið sé að hægja á byggingargeiranum.
Ekkert samfélag nær að tryggja og auka lífskjör til lengri tíma án fjárfestinga. Án fjárfestinga fyrirtækja verða ekki til störf. Það er ekki síst vegna þessa sem nauðsynlegt er að stjórnvöld hugi að því með hvaða hætti hægt er að örva fjárfestingu í atvinnulífinu og á almennum íbúðamarkaði.
Vaxtaumhverfi skiptir þar miklu en ekki síður aðgengi að láns- og áhættufé. Í Peningamálum Seðlabankans í nóvember er bent á að aðgengi fyrirtækja að lánsfé virðist þrengra en það var. Líklega megi rekja það að einhverju leyti til breyttra aðstæðna í þjóðarbúinu en gæti einnig verið vegna erfiðari lausafjárstöðu sumra fjármálastofnana. Hinar séríslensku kröfur og álögur.
Meðal annars með hliðsjón af ofangreindum staðreyndum er mér umhugað um að koma tveimur lagafrumvörpum í gegnum Alþingi. Hvort um sig vinnur gegn samdrætti í efnahagslífinu, örvar fjárfestingu en byggja um leið undir fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga.
Endurgreiðsla virðisaukaskatts
Fyrra frumvarpið er einfalt. Lagt er til að virðisaukaskattur af vinnu við byggingu eða viðhald íbúðarhúsnæðis verði endurgreiddur að fullu. Ætla má að byggingarkostnaður íbúða lækki um allt að 3% nái frumvarpið fram að ganga. Samiðn – samband iðnfélaga – hefur fagnað frumvarpinu og segir í umsögn að breytingin hafi jákvæð áhrif á félagsmenn Samiðnar: „Hins vegar telur Samiðn mikilvægt að umrædd breyting taki einnig til frístundahúsa og telur engin rök hníga í þá veru að undanþiggja frístundahús frá þessari breytingu.“ Þingið hlýtur að taka þessa ábendingu iðnaðarmanna til skoðunar en í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að sterk rök séu fyrir því að endurgreiðslan taki einnig til frístundahúsa.
Ríkisskattstjóri bendir á hið augljósa í umsögn sinni: Mikilvægur hvati dulinnar (svartrar) atvinnustarfsemi er „að kaupendur þjónustu telji sig geta sparað fjármuni með því að semja við seljanda um að virðisaukaskattur verði ekki innheimtur. Með fullri endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna við byggingu, endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði sé sá hvati ekki til staðar að því er þessa starfsemi varðar og því góðar líkur á að skattskil muni batna.“
Full endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað er dæmi um hvernig ríkisvaldið getur með einföldum hætti stuðlað að heilbrigðari vinnumarkaði, bætt skattskil (tryggingagjald, tekjuskatt o.s.frv.) og lækkað byggingakostnað einstaklinga. Það hagnast allir, ekki síst ríkissjóður þegar til lengri tíma er litið.
Skattaafsláttur og hlutabréf
Síðara frumvarpið snýr að því að styrkja íslenskan hlutabréfamarkað, gera hann skilvirkari og þar með auka aðgengi fyrirtækja að nauðsynlegu áhættufé. Um leið er skotið enn einni stoðinni undir eignamyndun launafólks. Nái frumvarpið fram að ganga verður einstaklingum veitt heimild, með ákveðnum takmörkunum, til að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og hlutabréfasjóðs sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað eða fjárfesta eingöngu í skráðum hlutabréfum.
Hlutabréfamarkaðurinn er mikilvæg uppspretta fjármagns og veitir fyrirtækjum aðgang að nauðsynlegu áhættufé. Skilvirkur hlutabréfamarkaður er óaðskiljanlegur hluti öflugs efnahagslífs. Sterkur markaður þar sem fyrirtæki hafa greiðan aðgang að fjármagni til fjárfestingar og vaxtar á að vera keppikefli stjórnvalda ekki síður en að byggja upp skilvirkan og samkeppnishæfan fjármálamarkað í heild sinni.
Auðvitað tryggir skattaafsláttur til einstaklinga ekki einn og sér öflugan hlutabréfamarkað. Með því að þátttakendum fjölgar verður hlutabréfamarkaðurinn dýpri, verðmyndunin eðlilegri og markaðurinn þar með heilbrigðari. Það sem skiptir kannski mestu: Það er verið að styrkja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og gera þeim kleift að taka þátt í atvinnurekstri. Þannig eru hagsmunir almennings og atvinnulífsins samtvinnaðir. Áhugi og þar með þekking á atvinnulífinu og stöðu hagkerfisins, eykst.
Með því að innleiða skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa vinna allir. Ekki aðeins þeir sem nýta sér möguleikana sem í afslættinum felast heldur einnig þeir sem annaðhvort vilja ekki eða eiga þess ekki kost að kaupa hlutabréf. Það græða allir þegar atvinnulífið eflist.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. janúar 2020.