„Þetta er mikið framfaraskref, fyrir bæði neytendur og framleiðendur. Lögin stuðla að skilvirkara, einfaldara og aðgengilegra eftirlitskerfi fyrir matvælakeðjuna,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á lögum sem stuðla að einföldun regluverks og auknu matvælaöryggi ásamt bættri neytendavernd.
Þetta kemur fram í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins - sjá hér.
Meðal þess sem er tiltekið í nýju lögunum er að fella brott tiltekna lagabálka og sameina í lög um matvæli auk þess að innleiða reglugerð tengda EES-samningnum sem snýr að því að samræma og einfalda eftirlitskerfi fyrir matvælakeðjuna.
Unnið hefur verið að einföldun regluverks í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu síðustu misserin og eru nýju lögin liður í þeirri vinnu. Vinna við framgang aðgerðaáætlunarinnar er í forgangi í ráðuneytinu.