Sigríður Á. Andersen formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Staða eins dómara við Hæstarétt var auglýst á dögunum. Átta lögfræðingar sóttu um stöðuna. Lögum samkvæmt var nefnd falið að fjalla um hæfni umsækjendanna. Nefndin lauk störfum sínum í síðustu viku með þeirri niðurstöðu að þrír umsækjenda væru allir jafn hæfir til þess að gegna embættinu og hæfari en aðrir umsækjendur.
Reikniforrit látið ráða
Nú vill til að ég þekki störf þessarar nefndar og ekki bara af afspurn. Í maí 2017 skilaði þessi sama stjórnsýslunefnd mér umsögn um 32 umsækjendur um stöður fimmtán dómara við Landsrétt. Komst nefndin að þeirri makalausu niðurstöðu að nákvæmlega fimmtán umsækjendur væru hæfari en hinir. Hvorki fleiri né færri. Við lögbundna rannsókn mína á vinnubrögðum nefndarinnar, til undirbúnings tillögugerð minni til Alþingis, komst ég að því að hún hafði gefið umsækjendum einkunn á bilinu 1-10 og falið tölvuforriti að raða upp umsækjendum. Dró nefndin svo þá ályktun af útreikningnum að þeir fimmtán sem forritið raðaði upp efst væru allir jafnhæfir og þótti „ekki rétt að raða þeim sérstaklega innbyrðis í sæti“, eins og segir í ályktarorði. Þó var ljóst að nokkru munaði á einkunnum þess í fyrsta sæti og þess í fimmtánda, nákvæmlega 1,87. Munur á einkunn þess í fimmtánda og sextánda var hins vegar ekki nema 0,03. Nefndin taldi það þó ekki gefa tilefni til þess að álykta að þeir tveir umsækjendur væru jafn hæfir.
Nýr tónn sleginn
Í nýjustu umsögn nefndarinnar kveður við annan tón en í umsögninni um embættin við Landsrétt. Nú er það mat nefndarinnar að þrír umsækjendur standi öðrum framar. Nefndin telur ekki efni til að gera upp á milli þeirra þriggja og tekur fram að „eðli máls samkvæmt er samanburður á verðleikum þeirra flókinn“. Því telji nefndin ekki efni til að gera greinarmun á þeim. Til að renna stoðum undir þessa niðurstöðu nefndarinnar er tekið fram að þremenningarnir eigi öll það sammerkt „að hafa á löngum og farsælum starfsferli getið sér góðs orðspors í störfum sem hafa gert kröfu um víðtæka þekkingu laga á fjölmörgum réttarsviðum; öll þrjú í þeim mæli að ekki verður greint á milli“. Þetta er nokkurn veginn sama orðalag og kom fram í rökstuðningi mínum að tillögu til Alþingis í Landsréttarmálinu þegar ég gerði tillögu um fjóra dómara með meiri dómarareynslu en aðrir fjórir sem tölvuforrit nefndarinnar hafði raðað meðal fimmtán hæfustu. Það er athyglisvert að alls er vikið að því fjórum sinnum í þessari nýjustu umsögn að ekki sé tilefni til þess að gera upp á milli hæfni þessara þriggja umsækjenda til þess að gegna embætti hæstaréttardómara.
Umsækjendur hafa áður verið metnir
Síst af öllum verð ég til þess að gera athugasemd við þessa nýjustu niðurstöðu nefndarinnar. Ég tel réttmætt að ætla að þessir þrír einstaklingar, sem allir eru dómarar við Landsrétt, séu í sjálfu sér mjög hæf og geti gegnt dómaraembætti við Hæstarétt með sóma. Ég bendi þó á að þrátt fyrir margendurtekin ummæli í umsögninni „um að gera ekki upp á milli þessara þriggja umsækjenda“ þá hefur nefndin reyndar þegar gert það. Nefnilega í umsögn sinni í maí 2017. Þá voru þessum sömu umsækjendum gefnar einkunnir og munaði þar 1,05 á þeim sem efstur var af þeim og þeirri sem neðst var. Þá var fjórði umsækjandinn um stöðuna nú, en sem er ekki metinn meðal hæfustu, með 0,20 hærri einkunn en einn af þremenningunum sem metnir eru hæfastir nú. Það er töluvert meiri munur en sá 0,03 munur sem var á Landsréttarumsækjendunum í fimmtánda og sextánda sæti en voru þá ekki taldir sambærilega hæfir.
Ég fæ ekki annað séð en að nefndin hafi með þessari nýju umsögn alfarið hafnað sínum eigin vinnubrögðum sem hún viðhafði í Landsréttarmálinu. Ég fagna því. Um leið má ljóst vera að nefndin hefur líka hafnað fyrri niðurstöðu sinni um hæfni þessara tilteknu umsækjenda. Niðurstaða hennar nú um hæfni umsækjendanna er ekki í samræmi við niðurstöðu hennar í Landsréttarmálinu. Það sannar bara það sem ég hef haldið fram. Mat á hæfni umsækjenda eru ekki raunvísindi heldur að nokkru leyti huglægt mat sem margir áþreifanlegir og óáþreifanlegir þættir hafa áhrif á.
Með nýjustu umsögn sinni hafnar nefndin líka niðurstöðu Hæstaréttar um hæfnismatið við skipun í Landsrétt. Í dómum Hæstaréttar í desember 2017 í málum tveggja umsækjenda um stöðu Landsréttardómara sem ég gerði ekki tillögu um við Alþingi kom fram að dómnefndin hefði framkvæmt „mat sitt í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 4. gr. a laga nr. 15/1998 og reglur sem um dómnefndina gilda“. Eins og kunnugt er var ég hvorki sammála forsendum né niðurstöðu þessara dóma.
Óumbeðin greiðasemi
Fyrr á þessu ári lýsti einn nefndarmaður í Morgunblaðinu hversu mikið niðurstaða nefndarinnar í Landsréttarmálinu hefði komið honum á óvart. Hans eigin niðurstaða. Niðurstaðan var þó látin standa því nefndin hafði ákveðið fyrirfram að láta reikniforrit velja bara fimmtán umsækjendur eftir annars ágæta skoðun nefndarinnar á hæfi allra umsækjenda. Þessar upplýsingar lágu ekki fyrir í bótamálunum sem rekin hafa verið fyrir dómstólum vegna skipunar Landsréttardómara. Þá kom fram í fréttum að annar nefndarmaður hefði lýst því sem greiðasemi við mig að nefndin lagði einungis til fimmtán umsækjendur sem hæfasta til embættanna. Þá þyrfti ég ekki að ómaka mig á því að velja umsækjendur. Ómálefnalegri vinnubrögð við mat á hæfni umsækjenda er vart hægt að hugsa sér. Ég fagna því að nefndin sýnir ekki núverandi ráðherra sömu greiðvikni.
Þeir höggva sem hlífa skyldu
Landsréttarmálið leiddi í ljós brotalöm við skipun dómara sem hefur viðgengist í áratugi. Ég lét það ekki átölulaust. Það er ánægjulegt að hæfnisnefndin, sem vissulega gegnir mikilvægu hlutverki í aðdraganda skipunar, sé nú að láta af vinnubrögðum sem m.a. umboðsmaður Alþings hefur um árabil gagnrýnt og ég hafði fulla ástæðu til að reyna að bæta úr. Mér hefði fundist meiri bragur á því að nefndin kæmi hreinna fram og viðurkenndi mistök sín í Landsréttarmálinu og tæki þannig þátt í málefnalegri umræðu um fyrirkomulag við skipan dómara. Trúlega er lítil von til þess. Þess í stað virðast nefndarmenn og þeir dómarar sem kváðu upp dóma í desember 2017 byggða á óforsvaranlegri niðurstöðu nefndarinnar horfa í gaupnir sér á meðan reynt er að vega að íslenskri stjórnskipan og Hæstarétti á erlendri grundu. Nýjasta umsögn nefndarinnar er þó skref í átt að betrun. Íslensk stjórnvöld hljóta að koma því á framfæri í málaferlunum í Strassborg.
Greinin biritst í Morgunblaðinu 16. desember 2019.