„Það er löngu tímabært að ráðast í breytingar til að bæta aðbúnað fanga og að raunveruleg betrun eigi sér stað í fangelsum landsins. Stór hluti fanga hefur lent í áföllum, meirihluti glímir við vímuefnavanda og endurkomutíðni í fangelsi er allt of há,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra en hún hefur samþykkt aðgerðaráætlun um aðgerðir í heilbrigðismálum í fangelsum og úrræði vegna vímuefnavanda fanga. Aðgerðaráætlunin var einnig samþykkt af heilbrigðisráðherra.
Aðgerðaráætlunin felur í sér þrjár meginaðgerðir, þ.e. eflingu heilbrigðisþjónustu, skilgreiningu verklags og ábyrgðar í innri starfsemi fangelsanna vegna breytinga á heilbrigðisþjónustu og þarfagreiningu og aðgerðaráætlun til að sporna við dreifingu og neyslu vímugjafa á Litla Hrauni.
Vinna við gerð aðgerðaráætlunarinnar hefur staðið frá 5. júlí sl., þegar þáverandi dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, skipaði starfshóp til að taka til skoðunar heilbrigðisþjónustu í fangelsum, einkum geðheilbrigðisþjónustu og úrræði vegna vímuefnavanda og vinna drög að aðgerðaráætlun.