Bráðræði og Ráðleysa
'}}

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Í kring­um alda­mót­in 1800 var sagt að Reykja­vík byrjaði í Bráðræði og endaði í Ráðleysu. Var þá vísað til ystu húsa bæj­ar­ins, sem hétu þess­um nöfn­um og stóðu hvort í sín­um enda bæj­ar­ins. Nú, ríf­lega tveim­ur öld­um síðar, mætti enn taka í sama streng. Verk­efni borg­ar­inn­ar byrja gjarn­an af bráðræði – og enda gjarn­an í ráðleysu.

Þeir tekju­stofn­ar Reykja­vík­ur sem lög gera ráð fyr­ir eru nær full­nýtt­ir. Borg­in inn­heimt­ir hæsta lög­leyfða út­svar, fast­eigna­skatt­ar á at­vinnu­hús­næði eru í há­marki og krónu­tala fast­eigna­gjalda fer hækk­andi ár­lega, sam­hliða sí­hækk­andi fast­eigna­mati. Tekjutusk­an er und­in til fulls, sam­hliða stór­auk­inni skuld­setn­ingu.

Rekstr­ar­kostnaður borg­ar­inn­ar hef­ur auk­ist um 16% á fyrstu tveim­ur árum þessa kjör­tíma­bils. Skuld­ir halda áfram að aukast og verða 64 millj­örðum hærri árið 2022 en lagt var upp með fyr­ir kosn­ing­ar. Kostnaður við fram­kvæmd­ir fer reglu­lega fram úr áætl­un­um.

Meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar er stór­huga hvað varðar fram­kvæmd­ir og fjár­fest­ing­ar. Árs­reikn­ing­ur Reykja­vík­ur­borg­ar sýn­ir þó glöggt að eng­inn af­gang­ur er af venju­bundn­um rekstri sem staðið get­ur und­ir slík­um fjár­fest­ing­um – ekki án frek­ari eigna­sölu eða stór­kost­legr­ar skuld­setn­ing­ar. Veru­lega skort­ir á ábyrgð, ráðdeild og aga í rekstri borg­ar­inn­ar.

Við af­greiðslu fjár­hags­áætl­un­ar lagði und­ir­rituð til út­svars­lækk­un í Reykja­vík. Hana mætti hæg­lega fjár­magna með arðgreiðslum frá Orku­veitu Reykja­vík­ur. Eins lagði ann­ar full­trúi Sjálf­stæðis­flokks til lækk­un fast­eigna­skatta á at­vinnu­hús­næði. Báðum til­lög­um var ein­róma hafnað af meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar. Eng­inn vilji er til skatta­lækk­ana í Reykja­vík.

Borg­ar­kerfið verður að und­ir­gang­ast til­tekt. Við þurf­um minni yf­ir­bygg­ingu og skipu­lega niður­greiðslu skulda. Við þurf­um öfl­ugri grunnþjón­ustu og svig­rúm til lækk­un­ar skatta á fólk og fyr­ir­tæki. Við verðum að sýna ábyrgð og ráðdeild þegar sýslað er með fjár­muni borg­ar­búa. Þá fyrst mun draga úr bráðræði og ráðleysu inn­an borg­ar­mark­anna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. desember 2019.