Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:
Einkaframtakið er víða leiðandi í framþróun skólastarfs. Sjálfstætt reknir skólar hafa auðgað skólaflóruna og fjölgað valkostum fyrir fjölskyldur. Um það verður ekki deilt. Þeir hafa kynnt til leiks nýstárlega hugmyndafræði og nýjar framsæknar skólastefnur. Þeir hafa veitt foreldrum fleiri valkosti um áherslur í uppeldi og menntun barna sinna. Þeir hafa tryggt fjölskyldum meira frelsi og meira val.
Ísland er eftirbátur nágrannaþjóða hvað varðar einkarekstur í skólakerfinu. Hérlendis eru aðeins 15% allra leikskólabarna í sjálfstætt starfandi leikskólum og einungis 2,3% allra grunnskólabarna í sjálfstætt starfandi grunnskólum. Árangur íslenskra barna í PISA könnunum hefur valdið vonbrigðum.
Í Hollandi er löng hefð fyrir einkareknum skólum en um 70% allra grunnskólabarna sækja þar nám í sjálfstæðum skólum. Sjálfstæðir skólar í Hollandi hafa víða vakið athygli fyrir framúrskarandi menntun og góðan rekstur. Skólarnir keppa um nemendur og hvatinn til framfara er mikill. Holland mælist meðal efstu þjóða í PISA könnunum, jafnvel ofar en fyrirheitna landið Finnland. Hollenska skólakerfið er gott dæmi þess að aukið valfrelsi og meiri samkeppni í skólamálum skilar árangri.
Rekstrarumhverfi sjálfstæðra skóla hérlendis er erfitt. Opinber framlög til sjálfstæðra skóla eru almennt takmörkuð við 75% af framlögum til opinberra skóla. Innheimta skólagjalda bætir ekki upp þennan fjárhagslega mismun. Auk þess getur innheimta skólagjalda gert nemendahópinn einsleitan, enda ekki öllum kleift að greiða með börnum sínum skólagjöld. Börn efnameiri foreldra eiga nú aukin tækifæri til velja milli ólíkra skóla hérlendis. Þannig ýtir núverandi fyrirkomulag, sem síður styður við einkarekstur í skólakerfinu, enn frekar undir stéttaskiptingu meðal barna.
Eftir sem áður leggur undirrituð til að Reykjavíkurborg tryggi jöfn opinber framlög með hverju barni í skólakerfinu, óháð rekstrarformi þess skóla sem um ræðir. Þannig kæmust sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólar hjá innheimtu skólagjalda – og tryggja mætti öllum börnum jöfn tækifæri til þeirrar menntunar sem býðst í borginni, óháð efnahag foreldra. Það er hvoru tveggja - réttlætismál og framfaramál.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. desember 2019.