Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Fréttir bárust af því á dögunum að íslenskt fyrirtæki hefði á erlendri grundu orðið uppvíst að meintum lögbrotum. Sögð var saga spillingar, mútubrota og peningaþvættis sem náði þvert yfir landamæri margra landa. Miðpunkturinn reyndist fátæk þjóð Namibíumanna sem virðast ef rétt reynist hafa orðið af arðbærri nýtingu fiskveiðiauðlindar sinnar sem við Íslendingar höfðum áður aðstoðað þau við að ná tökum á með öflugu fiskveiðistjórnunarkerfi.
Það er óhætt að segja að þessi frásögn hefur vakið óhug og þar af leiðandi hörð viðbrögð á meðal fólks, og það með réttu. Mér brá, fann fyrir mikilli reiði en að mestu sorg yfir því að svona vinnubrögð gætu verið viðhöfð af íslensku fyrirtæki.
Strax varð ljóst að rannsaka þyrfti þessi meintu brot fyrirtækisins ítarlega af þar til bærum yfirvöldum hér á landi enda ná íslensk lög yfir brot af þessu tagi þó þau hafi verið framin erlendis. Okkar eftirlitsstofnunum og yfirvöldum er vel treystandi til þess að ná böndum yfir þessi mál og verður þeim tryggt fjármagn til að mæta auknu álagi.
Það er heldur ekki langt síðan Alþingi fjallaði um mútubrot, að bera fé á innlenda eða erlenda opinbera starfsmenn, þegar þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, lagði fram frumvarp um að hækka hámarksrefsingu fyrir mútubrot úr fjórum árum í fimm. Ég viðurkenni að mér fannst þessi umræða á þinginu á sínum tíma fjarstæðukennd – mútubrot voru fjarlægt ágreiningsefni. Stuttu síðar kom þó í ljós að svo virðist ekki vera, því miður.
En í allri umræðu um þessi meintu brot, hvort sem það er í þingsal eða á kaffistofum landsins, verður að muna að við búum og viljum búa í réttarríki en það kallar fram þá grundvallarreglu að menn teljast saklausir uns sekt er sönnuð. Til þess þarf styrkar stoðir yfirvalda sem sjá um rannsókn, eftir atvikum ákæru- og dómsvald. Ekki er ráðlegt að breyta þingsalnum í dómsal, það er lexía sem við eigum að vera búin að læra. Við þurfum að treysta stoðum réttarríkisins til að rannsaka málið og komast að upplýstri niðurstöðu.
Þá verður að varast að tala ekki Ísland almennt niður á alþjóðavettvangi, kalla það spillingarbæli og tala um að hér þrífist spilling. Alþjóðlegur samanburður sýnir að svo er ekki, það þýðir samt ekki að við getum lokað augunum fyrir þeirri hættu að hér geti slík brot átt sér stað. En það er á okkar ábyrgð að tala máli lands og þjóðar. Við eigum að sjálfsögðu að halda uppi virkum vörnum gegn spillingu og peningaþvætti hér á landi og í alþjóðlegu samstarfi.
Ríkisstjórnin vinnur einnig að því að auka traust á íslensku atvinnulífi, meðal annars með því að leita til Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna til að unnin verði úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir, þar á meðal í þróunarlöndunum. Þá verður gagnsæi aukið í rekstri stærra óskráðra fyrirtækja og stórra sjávarútvegsfyrirtækja. Æskilegt væri einnig að sjá fleiri sjávarútvegsfyrirtæki skráð á markað með þeim reglum og gegnsæi sem því fylgir ásamt þeim ávinningi sem fengist með því að almenningur geti fjárfest með sparnaði sínum í grunnatvinnuvegi þjóðarinnar.
Mútur og spilling er alþjóðlegt vandamál sem verður að uppræta. Ísland tekur þátt í því verkefni af fullum þunga. Það er óboðlegt og ólöglegt að íslensk fyrirtæki fari fram með þeim hætti í sínum viðskiptum og ábendingar um slíkt þarf að rannsaka ofan í kjölinn, eftir atvikum ákæra og dæma í samræmi við lög. Lögbrot verða ekki liðin.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2019.