Örn Þórðarson borgarfulltrúi:
Að hlusta ekki á borgarbúa eða láta sér í léttu rúmi liggja skoðanir þeirra er réttur þeirra sem fara með meirihluta í borgarstjórn. Líki kjósendum ekki ákvarðanir þeirra er lítið við því að gera. Nema helst í næstu kosningum. Meirihlutinn þarf ekkert að hlusta á kjósendur, það er þeirra pólitík.
En borgarstjórn þarf hins vegar að hlusta á ábendingar, athugasemdir og ráðleggingar frá opinberum eftirlitsstofnunum sem hafa það hlutverk að fylgjast með að störf sveitarfélagsins séu í samræmi við lög og reglur sem um þau gilda. Slíkar athugasemdir berast allt of oft á borð borgarstjórnar. Og allt of oft er ábendingum þessum svarað með hroka, skætingi og útúrsnúningi.
Útúrsnúningar og skætingur
Nýjustu dæmin eru þegar lögreglan bendir á að skipulag á hringtorgi er ekki í samræmi við umferðarlög þá er því svarað út í hött, að torgið sé ekki hringtorg þó að það liggi í hring. Svona svör eru engum til sóma.
Þegar Vinnueftirlitið bendir á að merkingar á salernum í stjórnsýsluhúsnæði borgarinnar séu ekki samkvæmt reglum og lögum er því svarað að eftirlit stofnunarinnar gangi í berhögg við samfélagslega þróun og til vitnis um viðhorf afturhalds og fortíðar. Vinnueftirlitið hefur með vinnuverndarmál að gera. Svona skætingur er óþarfur.
Þegar bent er á að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sé enn í haust að gera athugasemdir við að margítrekuðum spurningum hennar í tengslum við framkvæmdir við Braggann hafi ekki enn þá verið svarað né heldur útskýrt hvort ráðist hafi verið í úrbætur á verkferlum hjá borginni, sem klárlega misfórust við framkvæmdina. Þá er gripið til útúrsnúninga, talað um grundvallarmisskilning og vindhögg. Athugasemdir frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga ber að taka alvarlega, í stað þess að sýna þeim lítilsvirðingu.
Enginn yfir lög hafinn
Þetta eru aðeins örfá og nýjustu dæmin um hofmóð borgarstjórnar. Þó að Reykjavíkurborg sé stórt sveitarfélag þarf borgarstjórn ekki að vera stór upp á sig. Á landinu eru 72 sveitarfélög, sem taka hlutverk sitt alvarlega, rækja skyldur sínar af vandvirkni og vilja fara að lögum. Reykjavík á ekki að skera sig úr þessum hópi. Það að vera í pólitík setur engan yfir lög og reglur. Ég kann ekki við svona hofmóð. Mér leiðast útúrsnúningar, skætingur og hroki.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember 2019.