Örn Þórðarson borgarfulltrúi:
Það liggur fyrir okkur í borgarstjórn þessa dagana að afgreiða fjárhagsáætlun fyrir rekstur borgarinnar árið 2020. Rútínuverk fyrir marga en nýstárlegt og framandlegt verkefni fyrir aðra. Vinnulag er nokkuð flókið og sker sig frá öðru sem afgreitt er í borgarstjórn. Fjármál borgarinnar á næsta ári þarf að ræða tvisvar í borgarstjórn. Það þarf að vanda mjög til verka og fara nákvæmlega eftir lögum sem um þau mál gilda. Þegar búið er að samþykkja fjárhagsáætlunina er hún síðan bindandi fyrir starfsmenn sveitarfélagsins og sveitarstjórnina sjálfa, eins og segir í lögum. Það má ekki færa bókhaldið jafnóðum eða gera stöðugar breytingar á áætluninni.
Ábyrgð í næstu kosningum
En af hverju þarf þetta að vera svona flókið? Fjárhagsáætlun á að gefa glögga mynd af rekstri, tekjuöflum og ráðstöfun fjármuna á komandi ári. Áætluninni er þannig ætlað að vera eitt mikilvægasta stjórntæki borgarstjórnar og upplýsingaskjal um stefnu og forgangsröðun á verkefnum hennar. Þá þarf að hafa festu og reglu. Ef frjálslega er farið með áætlunina og stöðugt verið að gera uppfærslur og breytingar gerir það okkur borgarfulltrúum erfitt fyrir með að fylgjast með og veita aðhald. En mikilvægari ástæða er að með þessu agaða vinnulagi er betur tryggt að almenningur eða borgarbúar geti fylgst með í hvaða tilvikum borgarstjórn er að bregðast og getur þá látið hana sæta ábyrgð. Í næstu kosningum.
Mikilvægt fyrir kjósendur að geta fylgst með
Þessari grein er ekki ætlað að fjalla um lausatök í rekstri og fjármálastjórn í Reykjavíkurborg, það hefur áður verið gert, oft og af mörgum. Enda tilefnin ærin og mörg síðustu árin. Hún á að benda á mikilvægi þess að sýna aga og festu í stjórnun borgarinnar. Mikilvægi þess að veita skýrar og glöggar fjármálalegar upplýsingar um rekstur og stöðu borgarinnar og að sýna hvort stjórnendur hafi haldið sig innan síns eigin fjárhagsramma og hvort stjórnsýslan eða meðferð peninga hafi verið ásættanleg. Það er áríðandi viðfangsefni fyrir kjörna fulltrúa, starfsfólk borgarinnar og þá sem sinna opinberu eftirliti með stjórnsýslu og fjármálum sveitarfélaga. Á þessu hafa verið mikil vanhöld síðustu ár.
Mikilvægast er þó hlutverk kjósenda að fylgjast með hvernig okkur takist til og veita þannig borgastjórn nauðsynlegt aðhald. Öll viljum við gera vel þegar við förum með almannafé. Vonandi.
Í fjárhagsáætlun borgarinnar sem nú liggur fyrir er allt of mikið horft til lántöku og aukinnar skuldsetningar. Og allt of lítið til hagræðingar, lækkunar rekstrarkostnaðar, lækkana á gjaldskrám og sköttum. Það er allavega okkar skoðun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Það hefði mátt gera svo miklu betur.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember 2019.