Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Mútur og spilling er alþjóðlegt vandamál sem grefur undan heilbrigðum viðskiptum milli landa, stendur í vegi fyrir framþróun, stuðlar að fátækt og óréttlæti. Með mútum maka hinir spilltu krókinn á kostnað almennings og virða að vettugi almenn mannréttindi og leikreglur heiðarlegra viðskipta og stjórnsýslu.
Árlegur kostnaður vegna alþjóðlegrar spillingar er talinn nema 3,6 trilljónum dollara. Þetta er töluvert hærri fjárhæð en öll landsframleiðsla Bretlands. Með nokkurri einföldun má halda því fram að spilling éti upp alla landsframleiðslu eins stærsta efnahagskerfis heims á hverju ári og gott betur.
Spilling er margvísleg, s.s. mútugreiðslur, fjársvik, peningaþvætti, skattsvik og klíkuskapur. En hver svo sem birtingarmynd spillingarinnar er eru fórnarlömb alltaf til staðar og oftast fólk sem verst stendur. Spilling grefur undan stofnunum samfélaga, leiðir til minni velmegunar og brýtur niður samfélagslega innviði s.s. heilbrigðisþjónustu, skóla, samgöngur og fjarskipti.
Brugðist í baráttunni
Transparency International, stofnun sem berst gegn spillingu, hefur frá árinu 1995 fylgst með spillingu ríkja og gefið út Spillingarvísitöluna (Corruption Perceptions Index) sem er byggð á áliti sérfræðinga og einstaklinga í atvinnulífinu. Vísitalan, sem nær til 180 landa og er frá 0 (gjörspillt) upp í 100 (óspillt), þykir gefa góða vísbendingu um ástand í hverju landi og einnig um alþjóðlega þróun.
Á síðasta ári var Danmörk talið óspilltasta land heims og Nýja-Sjáland kom þar fast á eftir. Ísland var í 14.-16. sæti ásamt Austurríki og Hong Kong. Belgía, Eistland, Írland og Japan voru þar fyrir neðan. Frakkland og Bandaríkin voru neðar. Portúgal var í 30. sæti og Kýpur í 38. sæti, svo dæmi séu tekin. Staðan á Spáni, Ítalíu og Möltu var enn verri. Ungverjaland og Grikkland „slefa“ rétt yfir meðaltal heimsins sem er aðeins 43 stig.
Spilltustu ríki heims eru Norður-Kórea, Jemen, Suður-Súdan, Sýrland og Sómalía, eins og sést á meðfylgjandi töflu.
Rúmlega tvö af hverjum þremur ríkjum heims eru undir 50 stigum. Sérfræðingar Transparency International benda á að með nokkrum undantekningum, hafi flest ríki brugðist í baráttunni við spillingu á undanförnum árum. Öllum má hins vegar vera ljóst að beint samhengi er á milli stjórnarfars og spillingar. Ekki þarf annað en líta yfir meðfylgjandi töflu til að átta sig á því samhengi.
Spilling í bakgarðinum
En jafnvel þau ríki sem minnst eru spillt og talin til fyrirmyndar þurfa að verjast spillingu í eigin bakgarði. Á síðasta ári var upplýst að stærsti banki Danmerkur – Danske Bank – hefði tekið þátt í umfangsmiklu peningaþvætti í Eistlandi 2007 til 2015. Líklegt er talið að um þúsundir milljarða króna hafi verið þvættar í gegnum bankann.
Fyrirtæki í Ástralíu hafa verið staðinn að því að beita mútugreiðslum til að tryggja viðskipti. Þýsk stórfyrirtæki hafa orðið uppvís af óheiðarlegum viðskiptaháttum í Asíu, Afríku og Austur-Evrópu. Hið sama á við um fyrirtæki á Ítalíu, Frakklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Virðulegir bankar í Sviss, Bretlandi og Þýskalandi hafa tengst peningaþvætti rússneskra glæpamanna. Alþjóðleg lyfjafyrirtæki og tæknirisar hafa lagst svo lágt að beita mútum til að tryggja viðskipti og réttindi í fátækum löndum.
Viðskiptasiðferði sem byggist á spillingu og mútum viðheldur rotnu stjórnkerfi í mörgum fátækum löndum heims, tryggir að spillingarpésar haldi völdum og vinnur gegn því að fátækur almenningur geti brotist úr örbirgð til bjargálna.
Áfall og kjaftshögg
Upplýsingar um starfsemi Samherja í Namibíu og meintar mútugreiðslur, sem komu fram í fréttaskýringaþættinum Kveik í síðustu viku, voru líkt og kjaftshögg fyrir íslenska þjóðarsál. Ásakanir sem Samherji og forráðamenn fyrirtækisins sitja undir eru alvarlegar. Ekki aðeins fyrir fyrirtækið heldur íslenskt viðskiptalíf.
Ég hygg að óhætt sé að halda því fram að langflestir Íslendingar hafi staðið í þeirri trú að íslensk fyrirtæki stundi heiðarleg viðskipti, ekki aðeins hér heima heldur um allan heim. Fréttir um annað eru því áfall. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að Samherjamálið, svokallaða, sé rannsakað ofan í kjölinn og allar upplýsingar dregnar upp á borð – ekkert undanskilið. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa lýst því yfir að viðeigandi stofnunum – héraðssaksóknara og skattrannsóknastjóra – verði tryggt fjármagn og svigrúm sem þarf til að sinna þeirri rannsókn. Fyrir Samherja, starfsfólk og viðskiptavini skiptir öllu að rannsóknin gangi fljótt og vel fyrir sig – að málið allt verði upplýst.
Eins og búast mátti við var freistingin of mikil fyrir suma stjórnmálamenn sem sáu tækifæri til að fella pólitískar keilur. Stóryrðin voru látin fjúka og leikreglur réttarríkisins flæktust ekki mikið fyrir. Hvernig slíkir stjórnmálamenn fara með völd er annað mál.
Í andsvörum á þingi í síðustu viku við ótrúlegum gífuryrðum formanns Samfylkingarinnar um Ísland sem spillingarbæli sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að sýn okkar Íslendinga á það í hvers konar landi við byggjum réðist ekki af einstökum málum heldur hvernig tekið væri á þeim: „Hvort við tökum þau alvarlega, hvort stjórnvöld bregðast við, hvort við höfum stofnanir til að taka á málum, rannsaka, ákæra, dæma þar sem það á við.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur verið skýr: Það verður „ekki liðið að íslensk fyrirtæki brjóti lög og reglur“. Í umræðum á Alþingi benti forsætisráðherra réttilega á að þegar „íslensk fyrirtæki starfa í öðrum löndum bera þau ekki aðeins ábyrgð á sínu eigin orðspori. Þau bera ábyrgð á orðspori heils samfélags“.
Sanngjörn krafa
Aðeins með samvinnu þjóða næst raunverulegur árangur í baráttunni gegn alþjóðlegri óværu. Ísland hefur tekið fullan þátt í slíkri samvinnu og stjórnvöld og Alþingi látið hendur standa fram úr ermum í baráttunni gegn peningaþvætti og spillingu hvers konar. Á síðasta ári voru t.d. sett ný ítarleg lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og fyrir nokkrum mánuðum voru samþykkt lög um raunverulega eigendur fyrirtækja. Refsirammi vegna mútugreiðslna til innlendra eða erlendra opinberra starfsmanna var þyngdur í tíð Sigríðar Á. Andersen sem dómsmálaráðherra. Forsætisráðherra mælti nýlega fyrir frumvarpi til laga um vernd uppljóstrara. Ísland er m.a. aðili að alþjóðlegum sáttmála OECD um mútur í alþjóðaviðskiptum og tekur þátt í störfum Financial Action Task Force (FATF), alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í gildi er sérstök aðgerðaráætlun stjórnvalda og verið er að undirbúa innleiðingu svokallaðrar fjórðu peningaþvættistilskipunar. Vinnan heldur áfram og ljóst er að verkefnið er viðvarandi.
Íslendingar hafa ekki góða reynslu af því þegar stjórnmálamenn gera tilraunir til að færa ákæruvald og dómsvald inn í þingsal. Það er eðlileg og sanngjörn krafa að tekið sé hart á efnahagsbrotum og ekki síst mútugreiðslum og annarri spillingu. En við þurfum sem samfélag að standa vörð um réttarríkið og tryggja að við höfum burði til að rannsaka mál og upplýsa, ákæra þegar efni standa til og dæma þá brotlegu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. nóvember 2019.