Jón Gunnarsson ritari Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður:
Tækifæri okkar í uppbyggingu verðmætasköpunar, sköpun nýrra og fjölbreyttari starfa í tengslum við öfluga byggðaþróun eru mikil. En stefnu- og aðgerðarleysi okkar í raforkumálum ásamt heimatilbúnum erfiðleikum við uppbyggingu dreifikerfis raforku, gerir það að verkum að fjölmörg tækifæri fara forgörðum eða eiga mjög erfitt uppdráttar.
Áþreifanlegustu tækifærin liggja m.a. í eflingu hefðbundinnar matvælaframleiðslu og nýjunga á því sviði. Þá liggja mikil tækifæri í tengslum við uppbyggingu gagnavera á Íslandi. Það þarf aðallega tvennt til að koma svo að háleitar hugmyndir um uppbyggingu á þessu sviði geti orðið að veruleika þ.e. efling dreifikerfis raforku og aukin framleiðsla rafmagns. Næstu skref okkar í uppbyggingu verðmætasköpunar eiga að vera á umhverfisvænum forsendum. Græn orkusækin stefna sem miðar að aukinni fjölbreytni í verðmætasköpun, aukið útflutningsverðmæti og fjölbreyttari störf er það sem við eigum að leggja áherslu á.
Það er einnig nauðsynlegt að huga að aukinni vernd á mörgum okkar náttúruperlum og víðerni. En það er mikilvægt að sú stefna taki tillit til þeirra þátta sem hér eru nefndir. Umræðan sem við tökum á þessum vettvangi verður að vera yfirveguð og taka tillit til heildarhagsmuna þjóðarinnar. Þeir felast m.a. í nýtingu auðlinda sem skapa grunn fyrir okkar framtíðarsýn í atvinnumálum. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í dag er augljóslega það, að ekki er hægt að fylgja eftir þeirri stefnu sem hér hefur verið nefnd, því svar andstæðinga þessara sjónarmiða hvað auðlindanýtingu varðar er jafnan nei.
Við stöndum nú frammi fyrir því að raforkan er ekki til staðar og flutningskerfi raforku er langt frá því að geta stutt við þessa uppbyggingu sem ætti fyrst og fremst að eiga sér stað á landsbyggðinni. Það grandaleysi sem ríkt hefur í málaflokknum er í raun árás á landsbyggðina. Þar hefur víðast fækkað tækifærum í hefðbundnum greinum og því verður að skapa ný tækifæri. Regluverk okkar, pólitísk óvissa og ómálefnaleg umræða þvælist fyrir skynseminni. Á meðan blæðir byggðum landsins og fjölmörg tækifæri ganga okkur úr greipum. Við verðum að girða okkur í brók í þessum málaflokki. Það gerist ekki með stofnun hálendisþjóðgarðs sem ekki tekur tillit til annarra þátta.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. nóvember 2019.