Aukin samkeppni og lægra vöruverð
'}}

„Neytendur eiga að njóta aukinnar samkeppni í formi vöruúrvals og lægra vöruverðs. Það gerum við með því að einfalda allt regluverk um úthlutun tollkvóta þannig að það sé sanngjarnara og til hagsbóta fyrir alla hlutaðeigandi,” segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem í gær mælti á Alþingi fyrir frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum og tollalögum.

Frumvarpinu er ætlað að einfalda og skýra reglur um úthlutun tollkvóta og breyta aðferðafræði úthlutunar þannig að dregið verði úr kostnaði þeirra sem fá úthlutað tollkvíta í gegnum útboð.

„Jafnframt að stuðla að auknu gagnsæi og auknum fyrirsjáanleika við úthlutun tollkvóta til hagsbóta fyrir neytendur, innflutningsaðila og framleiðendur. Tekið er tillit til hagsmuna þessara aðila, þar sem markmiðið er að auka ábata neytenda vegna tollkvóta í formi lægra vöruverðs, auka samkeppni en jafnframt gæta að hagsmunum innlendra framleiðenda,“ eins og segir í frétt um málið á vef atvinuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Umsýsla og úthlutun tollkvóta verður gerð rafræn. Heimildir fyrir innflutning á svokölluðum opnum tollkvótum verða afnumdar í núverandi mynd og þar með verður ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara lögð niður. Með frumvarpinu á fyrirsjáanleiki að aukast og fæðuöryggi að vera tryggt þar sem innlend landbúnaðarframleiðsla gegnir lykilhlutverki.