Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Berlínarmúrinn stóð í 28 ár sem merki um kúgun, lítilsvirðingu gagnvart réttindum einstaklinga og mannréttindum. Minnisvarði um misheppnaða þjóðfélagstilraun í nafni sósíalismans. Leiðtogar Þýska alþýðulýðveldisins – Austur-Þýskalands – voru ekki drifnir áfram af mannvonsku þegar múrinn var reistur árið 1961. Múrinn var örvæntingarfull tilraun til að koma í veg fyrir að fólk gæti tekið til fótanna og yfirgefið landið – komist undan örbirgð og kúgun. Um 3,5 milljónir Austur-Þjóðverja höfðu flúið land og múrnum var ætlað að stöðva blóðtökuna.
Síðastliðinn laugardag var þess minnst að þrjátíu ár voru frá því að ömurlegur minnisvarði féll. Berlínarmúrinn var áþreifanlegt járntjald sem Winston Churchill talaði um í frægri ræðu árið 1946 við Westminster College í Fulton, Missouri í Bandaríkjunum. Járntjald sem risti Evrópu í tvennt; lýðræðisríki og alræðisríki kommúnismans.
Sósíalisminn fellur
Árið 1989 riðaði sósíalisminn til falls í Austur-Evrópu. Sovétríkin glímdu við gríðarlega efnahagslega erfiðleika og matarskort. Í Póllandi hafði frelsisbylgja þegar náð að leika um landið undir fánum Samstöðu. Í ágúst mynduðu tvær milljónir íbúa Eystrasaltsríkjanna – Eistlands, Lettlands og Litháens – 600 kílómetra langa keðju þvert yfir löndin, til að krefjast sjálfstæðis frá Sovétríkjunum. Ungverjaland opnaði landamærin til Austurríkis.
Nokkrum mánuðum fyrir fall múrsins – sem Willy Brandt kallaði múr skammarinnar – hafði heimurinn hins vegar verið minntur óþyrmilega á hversu reiðubúnar alræðis- og kúgunarstjórnir eru til að beita eigin landsmenn ofbeldi.
Á Torgi hins himneska friðar í Peking höfðu mótmæli, undir forystu stúdenta, verið brotin aftur með hervaldi. Þúsundir lágu í valnum og fjöldi var handtekinn. Hreinsanir hófust, erlendir blaðamenn reknir úr landi, embættismönnum vikið úr starfi, ritskoðun hert og öryggislögreglan styrkt.
Í skugga hrottaverka í Peking vakti fall Berlínarmúrsins nýjar vonir um að þrátt fyrir allt gætu þjóðir Austur-Evrópu brotist undan oki sósíalismans. Tæpu ári síðar var Þýskaland sameinað að nýju í eitt ríki. Þá blöstu staðreyndirnar við – munurinn á þjóðfélögum markaðsbúskapar og miðstýringar sósíalismans. Landsframleiðsla Vestur-Þýskalands á mann var um það bil þrefalt meiri en í Austur-Þýskalandi. Pólitísk og efnahagsleg tilraunastarfsemi í austri hafði mistekist.
Draumar breytast í martraðir
Austur-Þýskaland þróaðist í alræmt lögregluríki og átti ekkert skylt við „alræði öreiganna“ eins og lofað var. Þar, líkt og í öllum öðrum ríkjum sósíalismans, lærði almenningur harða lexíu. Þegar markaðsöflunum er kippt úr sambandi og eignarréttur virtur lítils eru afleiðingarnar stöðnun, skortur og verri lífskjör. Hvatinn hverfur og við tekur þjóðfélag tilskipana. Pólitísk kúgun, efnahagsleg mistök og örbirgð eru innbyggð í hugmyndafræði sósíalismans.
Vestrænir menntamenn sem margir hverjir höfðu heillast af Sovétríkjunum voru flestir orðnir afhuga draumalandinu í austri á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Í huga þeirra hafði sósíalísk framtíðarsýn Marx og Engels ekki verið framkvæmd rétt í Ráðstjórnarríkjunum. Sumir bundu vonir við Austur-Þýskaland, aðrir við Kína. Síðar var litið vonaraugum til Kúbu. Fidel Castro var átrúnaðargoð með Che Guevara sér við hlið. En draumarnir breyttust í martraðir.
Jafnvel tæpum áratug eftir fall Berlínarmúrsins töldu margir vinstrimenn á Vesturlöndum að loksins væri hægt að „framkvæma“ sósíalismann með réttum hætti. Hugo Chavez, forseti Venesúela, varð eftirlæti þeirra. Chavez sagðist vera byltingarmaður sem berðist fyrir lýðræðislegum sósíalisma 21. aldarinnar. Frá náttúrunnar hendi voru tækifærin til staðar. Venesúela býr yfir gríðarlegum olíuauðlindum – þeim mestu í heiminum. En hægt og bítandi var auðugasta landi Suður-Ameríku umbreytt í nafni sósíalismans í ríki eymdarinnar. Eftir óstjórn og spillingu sósíalista er samfélagið komið að hruni og efnahagurinn í rúst. Landsframleiðslan hefur dregist saman um nær helming frá 2013. Skortur er á flestum nauðsynjum; mat, neysluvatni, lyfjum og rafmagni. Milljónir hafa flúið land.
Gjaldþrota hugmynd
En þrátt fyrir söguna og órækan dóm hennar lifir í glæðum sósíalismans. Dr. Kristian Niemietz, hagfræðingur og yfirmaður í stjórnmálahagfræði hjá Institute of Economic Affairs, hittir líklega naglann á höfuðið í nýrri bók sinni; Sósíalismi: Gjaldþrota hugmynd sem aldrei deyr (Socialism: The Failed Idea That Never Dies). Og því miður virðist sem hugmyndafræði sósíalista sé komin aftur í tísku víða um Evrópu á sama tíma og öfgafullir þjóðernisflokkar sækja í sig veðrið.
Nýleg skoðanakönnun leiðir í ljós að aðeins rúmlega helmingur (54%) Þjóðverja telur að fall Berlínarmúrsins hafi verið af hinu góða. Önnur könnun leiðir í ljós að meirihluti íbúa austurhlutans telur að þeir hafi notið sanngirni frá sameiningu. Í Þýskalandi sem annars staðar í Evrópu hefur sundrung – pólarísering – stjórnmálanna aukist. Upplausn stjórnmálanna er vatn á myllu gjaldþrota hugmyndafræði marxista og þjóðernissinna.
Að þessu leyti höfum við lítið lært á þeim 30 árum sem liðin eru frá falli Berlínarmúrsins. Við sem höfum verið talsmenn opins samfélags, markaðsbúskapar og frjálsra viðskipta, höfum líklega ekki skilið þá þungu undiröldu sem liðast um alla Evrópu og raunar flest lönd hins frjálsa heims. Um leið og við stöndum traustan vörð um markaðshagkerfið – kapítalismann – verðum við að hafa burði til þess að viðurkenna að þrátt fyrir alla sína kosti er markaðshagkerfið ekki gallalaust. Það er skylda baráttumanna frjáls hagkerfis að sníða galla þess af. Annars verður alltaf til frjór jarðvegur fyrir hugmyndafræði sem hefur kostað milljónir manna örbirgð, þjáningar og dauða.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2019.