Lögmætar varnir
'}}

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Í liðinni viku bárust þær fréttir að sameiginlega EES-nefndin hefði samþykkt beiðni mína um heimild fyrir Ísland til að beita reglum um svokallaðar viðbótartryggingar varðandi salmonellu vegna innflutnings á svína- og nautakjöti. Þessar fréttir koma í kjölfarið á því að í upphafi þessa árs fékk Ísland heimild til að beita sambærilegum reglum gagnvart innfluttu kjúklingakjöti, kalkúnum og eggjum. Í tryggingunum felst að við innflutning á þessum matvælum skal alltaf fylgja vottorð sem sýnir að salmonella hafi ekki greinst í viðkomandi vörusendingu. Án slíks vottorðs verður innflutningur ekki heimilaður en nágrannalönd Íslands hafa haft þessar heimildir um árabil.

Íslensk stjórnvöld hafa í áraraðir gert kröfu um þessi vottorð á grundvelli hins svokallaða leyfisveitingakerfis sem gerir skilyrði um opinbert leyfi fyrir innflutning á m.a. kjöti. Með samþykkt Alþingis á frumvarpi mínu í júní sl. var brugðist við skýrum dómum EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands um að leyfisveitingakerfið væri brot á skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Mun leyfisveitingakerfið því falla úr gildi 1. janúar næstkomandi.

Frá samþykkt frumvarpsins hefur aðgerðaáætlun sem ég lagði fram í tengslum við frumvarpið verið fylgt eftir af festu en hún miðar m.a. að því að tryggja matvælaöryggi og vernd búfjárstofna samhliða þessum breytingum. Eitt stærsta verkefnið í því samhengi, auk ráðstafana varðandi kampýlóbakter sem þegar hafa verið tryggðar, var að fá heimild fyrir Ísland til að beita reglum um viðbótartryggingar varðandi salmonellu.

Þessi heimild Íslands er afskaplega ánægjulegur og mikilvægur áfangi og er afrakstur mikillar vinnu sem ráðuneyti mitt hefur leitt í samstarfi við Matvælastofnun. Á þessum skamma tíma hefur okkur tekist að tryggja sömu varnir og við höfum haft um árabil varðandi salmonellu. Þegar við afnemum hið ólögmæta leyfisveitingarkerfi þann 1. janúar næstkomandi munum við á sama tíma innleiða lögmætar heimildir, hinar sömu og nágrannalönd okkar beita, og byggja þannig upp sterkar varnir fyrir matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 31. október 2019.