„Ég mun á fundum mínum með stjórnvöldum í Kína leggja áherslu á frekari þróun fríverslunarsamningsins. Það er mikilvægt fyrir Ísland í ljósi þess að Kína er stærsti innflytjandi sjávar- og landbúnaðarafurða í heiminum og verð fyrir t.d. lax er hærra hér en á öðrum mörkuðum. Þá er jafnframt reiknað með að millistéttin í Kína muni stækka umtalsvert á komandi árum. Það er því gríðarstórt hagsmunamál fyrir Ísland að þessi samskipti gangi vel og það er því ánægjulegt að heyra vilja Kínverskra stjórnvalda til að greiða fyrir frekari innflutningi til Kína frá Íslandi,“ sagði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem staddur er í Kína í þessari viku. Þar heimsótti hann m.a. sjávarútvegssýninguna China Fisheries & Seafood Expo sem nú stendur yfir í Qingdao í Kína. Þetta kemur fram í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins – sjá hér.
Kristján Þór átti fund með Zhang Jiwen vararáðherra Kína á sviði tollamála og eftirlits með innflutningi matvæla. Á fundinum lýstu Kínversk stjórnvöld yfir vilja til að auka enn frekar innflutning til Kína frá Íslandi, m.a. með því að greiða frekar fyrir innflutningi á sjávarafurðum, fiskimjöli, laxi og lambakjöti.
11 íslensk fyrirtæki á stærstu sjávarútvegssýningu Asíu
„Á sýningu sem þessari kemur skýrt fram hin harða alþjóðlega samkeppni sem blasir við íslenskum sjávarútvegi á hverjum degi. Hér eru yfir 1.500 sýnendur, um 30 þúsund gestir og sýningin er önnur af tveimur stærstu sjávarútvegssýningum í heimi. Fólk og fyrirtæki eru hér að reyna að koma sínum vörum á framfæri – barist er um hylli kaupenda.
Velgengni íslensks sjávarútvegs í þessari samkeppni er ekki náttúrulögmál. Til að standast hana er lykilatriði að íslenskur sjávarútvegur sé samkeppnishæfur. Það gerum við m.a. með hóflegri en sanngjarnri gjaldtöku, einföldu og skilvirku regluverki og öflugu markaðsstarfi. Hér er ekki einungis í húfi hagsmunir einstakra fyrirtækja, heldur um leið sjómanna, fiskvinnslufólks og byggðarlaga – raunar samfélagsins alls,“ sagði Kristján Þór um sjávarútvegssýninguna.
Íslensk fyrirtæki hafa tekið þátt í sýningunni frá árinu 1996 og að þessu sinni taka 11 fyrirtæki þátt auk Íslandsstofu. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundir í Asíu og ein af tveimur stærstu sjávarútvegssýningum í heimi með yfir 29.000 gesti og um 1500 sýnendur.
Kristján Þór tók jafnframt þátt í opnum fundi með þeim Harald Tom Nesvik, sjávarútvegsráðherra Noregs, og Yu Kangzheng, varalandbúnaðarráðherra Kína. Þá átti hann fund með Meng Fanli, borgarstjóra Qingdao.