Örn Þórðarson borgarfulltrúi:
Dreifing búsetu á stórhöfuðborgarsvæðinu hefur aukið vegalengdir milli heimila og vinnustaða. Þessi þróun og nokkurra ára stöðnun í uppbyggingu umferðarmannvirkja hafa svo stöðugt aukið umferðarþungann og lengt biðraðir ökutækja um alla borg.
Gegnumumferð um íbúðarhverfi eykst
Við þessar aðstæður eiga óþolinmóðir ökumenn það til að flýja umferðarteppur á stofn- og tengibrautum inn í þröngar götur íbúðarhverfa þar sem börn eru á ferð til og frá skólum sínum. Umferðartalning sýndi t.d. umtalsverða aukningu umferðar gegnum Haga- og Melahverfið í kjölfar breytinga á Hofsvallagötu. Fylgjast verður vel með þessari óheillaþróun og sporna við henni.
Öryggi barna
Borgaryfirvöld hafa svo bætt gráu ofan á svart með því að standa öðrum sveitarfélögum langt að baki í samræmdum umferðarmerkingum í samræmi við umferðarlög. Þetta á ekki síst við um merkingar gangbrauta. Þetta er forkastanlegt ábyrgðarleysi gagnvart öryggi og velferð barna. Í stað þess að huga að öryggi þeirra og gera ungum börnum auðveldara að læra á umhverfi sitt og hættur þess með einföldum, skýrum og lögbundnum merkingum gangbrauta hafa borgaryfirvöld sofið á verðinum með margbreytilegum, óskýrum og jafnvel ruglandi merkingum.
Það er löngu tímabært að gera sérstakt átak í skýrri, samræmdri og lögboðinni merkingu gangbrauta og gönguleiða fyrir börn í nágrenni skólanna þeirra. Merkingarnar þurfa að vera auðskildar, greinilegar og vel sýnilegar. Fjarlægja þarf gróður og aðra fyrirstöðu sem byrgir sýn, hvort sem er fyrir börnum og vegfarendum eða ökumönnum. Bæta þarf lýsingu og lengja tíma sem kveikt er á götuljósum.
Útivist, hreyfing og öryggi
Það er beinlínis ábyrgðarhluti að hvetja börnin og foreldra þeirra til að ganga eða hjóla í skólann ef við gerum ekkert til að bæta öryggi í hvívetna. Allt of mörg dæmi hafa verið um óhöpp og slys á börnum á síðustu mánuðum en fram undan er nú skammdegið með myrkri og verri færð.
Ef það er raunverulegur ásetningur borgaryfirvalda að breyta ferðavenjum og stuðla að útivist og hreyfingu þarf jafnframt að huga að öryggi þeirra sem það gera. Stefnuleysi í umferðarmerkingum vinnur gegn þessum ásetningi. Borgaryfirvöld hafa sýnt ótrúlegt ábyrgðarleysi í þessum efnum á meðan öll önnur sveitarfélög á landinu fara eftir lögum og fyrirmælum varðandi gatnaframkvæmdir og umferðarmerkingar.
Stór orð um miklar framkvæmdir
Nú er mikið talað um að bretta upp ermar og fara í stórframkvæmdir samkvæmt samgöngusáttmála, en þar er hvergi að finna eina einustu ábendingu um að taka á þessu vandamáli: Öryggi barna og annarra vegfarenda inni í hverfunum, á íbúðagötunum og við skólana.
Kostnaður við þessar einföldu lagfæringar, að samræma og einfalda merkingar á gönguleiðum barna í skólahverfum, hleypur ekki á tugum milljarða. En hvað er mikilvægara en að tryggja öryggi barna í umferðinni?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. október 2019.