Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Búvörusamningar eru önnur meginstoða íslensks landbúnaðar. Núgildandi samningar voru undirritaðir árið 2016 og eru þeir til endurskoðunar á þessu ári. Þeirri vinnu fylgir mikil ábyrgð fyrir alla hlutaðeigandi enda miklir hagsmunir í húfi fyrir bæði bændur og neytendur.
Í gær var undirritað samkomulag um endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar, sem er einn hinna fjögurra búvörusamninga. Markmið þess er að stuðla að framþróun og nýsköpun í nautgriparækt. Leggja á áherslu á rannsóknir og menntun ásamt sjálfbærari og umhverfisvænni framleiðslu. Það er sérstaklega ánægjulegt að bændur og stjórnvöld skuli sameinast um þessa framtíðarsýn en um leið sýna í verki aðgerðir í þessa veru. Þannig eru gerðar grundvallarbreytingar á gildandi samkomulagi. Í þessari grein vil ég fara yfir meginatriði þeirra breytinga, en þau eru einna helst af þrennum toga.
Fallið frá afnámi kvótakerfis
Fallið verður frá afnámi kvótakerfis í mjólkurframleiðslu sem stefnt var að með undirritun nautgripasamningsins í febrúar 2016 og átti að taka gildi hinn 1. janúar 2021 og mun því greiðslumark gilda áfram út samningstímann. Greiðslumark heldur sér þar af leiðandi sem kvóti sem tryggir forgang að innanlandsmarkaði og sem viðmiðun fyrir beingreiðslur. Viðskipti með greiðslumark verða leyfð að nýju frá og með árinu 2020 og munu þau byggjast á tilboðsmarkaði sem er sama markaðsfyrirkomulag og gilti á árunum 2011-2016. Vissar takmarkanir verða á viðskiptum með greiðslumark sem verða útfærðar nánar í reglugerð.
Óumdeilt er að núgildandi framleiðslustýring hefur átt ríkan þátt í að stuðla að jafnri stöðu mjólkurframleiðenda um land allt og tilsvarandi byggðafestu. Jafnframt hefur þetta kerfi ýtt undir þá miklu hagræðingu sem orðið hefur í greininni á undanförnum árum en sú þróun hefur orðið til hagsbóta fyrir bæði greinina og neytendur. Samantekið hefur þetta kerfi átt ríkan þátt í að nautgriparæktin er jafn sterk grein og hún er í dag. Eitt af því sem benda má á er að með þeirri hagræðingu hefur notkun á olíu á hvern framleiddan lítra mjólkur dregist saman um 40%. Ég tel þessa breytingu því mikið heillaskref sem er til þess fallið að stuðla að frekari framþróun og aukinni verðmætasköpun í greininni.
Íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð
Í samkomulaginu er að finna þá metnaðarfullu stefnumörkun bænda og stjórnvalda að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040. Þetta verður gert m.a. með því að byggja upp þekkingu á losun og bindingu kolefnis, bættri fóðrun, meðhöndlun og nýtingu búfjáráburðar, markvissri jarðrækt og öðrum þeim aðgerðum er miða að því að kolefnisjafna búskap. Slíkar áherslur falla vel að öðrum verkefnum á sviði kolefnisbindingar svo sem skógrækt. Þá er að því stefnt að allar afurðir frá íslenskum nautgripabændum verði vottaðar sem kolefnishlutlausar fyrir árið 2040.
Full samstaða er meðal stjórnvalda og bænda um þessa framtíðarsýn. En það er einnig samstaða um hvernig þessum markmiðum verður sem best náð; með því að auka enn frekar þekkingu bænda á sínu landi og um leið efla getu þeirra til að auka bindingu kolefnis á því og draga úr losun. Því þarf að auka rannsóknir, ráðgjöf og fræðslu fyrir bændur um þessi atriði. Jafnframt þarf að taka til skoðunar að innleiða fjárhagslega hvata fyrir bændur til að ná árangri í að auka bindingu.
Ég er afskaplega ánægður með þessa sterku og metnaðarfullu stefnumörkun sem bændur og stjórnvöld eru hér að sameinast um. Það er jafnframt ánægjulegt, og til marks um þá ríku áherslu sem lögð er á þessa stefnumörkun, að stjórnvöld og bændur eru sammála um að ráðstafa fjármagni af samning um starfsskilyrði nautgriparæktar til aðgerða til að ná þessum markmiðum.
Verðlagsmál endurskoðuð
Í samkomulaginu sameinast stjórnvöld og bændur um að skoða umfangsmiklar breytingar á verðlagsmálum mjólkurafurða. Þannig má nefna að til að efla og tryggja forsendur til samkeppni við vinnslu mjólkurafurða verður gerð greining á tækifærum til frekari aðskilnaðar milli söfnunar og sölu á hrámjólk frá vinnslu mjólkurafurða og öðrum rekstri. Þá verður fyrirkomulag verðlagningar mjólkurvara á heildsölustigi tekið til endurskoðunar og sá möguleiki tekinn til skoðunar að hætta opinberri verðlagningu mjólkurafurða.
Samhliða ofangreindum breytingum er stefnt að því að stýritæki við verðlagningu mjólkurafurða verði þróuð til meira frjálsræðis. Þannig verður umgjörð verðlagsnefndar búvöru tekin til endurskoðunar með það að markmiði að taka upp nýtt fyrirkomulag í stað Verðlagsnefndar búvöru, án þess að slíkt raski forsendum búvörusamnings, enda er núgildandi fyrirkomulag að mörgu leyti tímaskekkja. Þá eru forsendur þessa fyrirkomulags brostnar í ljósi þess að fulltrúar launþega hafa hafnað að tilnefna fulltrúa í nefndina undanfarin ár vegna óánægju með þetta fyrirkomulag.
Eftir undirritun samkomulagsins mun verða skipaður starfshópur sem fær það hlutverk að útfæra þessi atriði nánar. Við þá vinnu er mikilvægt að hafa hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Því er hópnum í störfum sínum gert að hafa samráð við helstu aðila sem hagsmuna eiga að gæta.
Áframhaldandi sókn
Ég tel að með þessu samkomulagi séu stjórnvöld og bændur að búa svo um starfsskilyrði nautgriparæktar að greinin nýti þau mikilvægu sóknarfæri sem sannarlega blasa við. Að við stuðlum að bættri samkeppnishæfni og aukinni verðmætasköpun en á sama tíma að sanngjörnu vöruverði fyrir neytendur. Ég er sannfærður um að þetta samkomulag er mikilvægt skref í þá veru.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. október 2019.