Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Enn er nokkur hópur fólks hér í þjóðfélaginu, sem virðist telja að umræðum um breytingar á stjórnarskránni hafi með einhverjum hætti lokið veturinn 2012 til 2013. Þá hafi verið settur lokapunktur fyrir aftan alla rökræðu um það hvort og þá hvernig skyldi breyta stjórnarskránni og að allt sem sagt hefur verið og gert síðan sé einhvers konar ómark og að engu hafandi.
Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hversu stór þessi hópur er í dag – kannski ekki ýkja fjölmennur – en þeim mun háværari.
Málflutningur þessa hóps gengur út á að skilyrðislaust beri að afgreiða og staðfesta tillögur stjórnlagaráðs frá árinu 2011, annað hvort óbreyttar eða lítt breyttar, allt annað feli í sér einhvers konar svik. Þannig beri að taka málið upp eins og skilið var við það á Alþingi veturinn 2012 til 2013. Stóru orðin eru sjaldnast spöruð í því samhengi. Það kom skýrt fram nú um helgina þegar sjö ár voru liðin frá afar sérkennilegri þjóðaratkvæðagreiðslu um þessar tillögur.
Af þessu tilefni er rétt að rifja upp nokkur atriði. Engin samstaða var um þær aðferðir sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði forgöngu um við undirbúning stjórnarskrárbreytinga á árunum 2009 til 2013. Þvert á móti var hart deilt innan þings og utan um flest skref í þeirri tilraunastarfsemi sem þáverandi stjórn beitti sér fyrir. Hart var deilt um markmið breytinga, aðferðafræðina og loks um afurðina.
Margt annað en skortur á samstöðu varð til þess að draga úr trúverðugleika þessa ferils. Efnt var til kosninga til svokallaðs stjórnlagaþings. Aðeins um þriðjungur atkvæðisbærra manna kom á kjörstað og slíkir ágallar voru á framkvæmdinni að Hæstiréttur ógilti kosningarnar. Engu að síður lét meirihluti Alþingis niðurstöður hinna ólögmætu kosninga standa og fór framhjá niðurstöðu Hæstaréttar með því að breyta stjórnlagaþingi í nefnd kjörna af Alþingi, sem gefið var nafnið stjórnlagaráð.
Þegar stjórnlagaráð hafði skilað af sér tillögum kom fram veruleg gagnrýni á þær. Það voru ekki bara þáverandi stjórnarandstöðuflokkar sem gagnrýndu afurðina harðlega heldur fjöldamargir sérfræðingar, ekki síst á sviði stjórnskipunarréttar og stjórnmálafræði. Meirihlutinn í þinginu fann að hann var kominn með málið í vandræðastöðu og ákvað því að reyna að styrkja málstað sinn með því að setja málið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Tímasetning atkvæðagreiðslunnar var sérstök í ljósi þess að ekki lágu fyrir fullmótaðar tillögur. Á sama tíma og atkvæðagreiðslan fór fram var bæði í gangi vinna sérfræðinga við að laga tillögurnar og pólitísk vinna á vettvangi Alþingis. Því var verið að kanna afstöðu fólks til tillagna, sem alls ekki lágu fyrir í endanlegri útfærslu.
Af þessu leiddi að meginspurningin í atkvæðagreiðslunni var bæði opin og ómarkviss. Spurt var hvort kjósendur vildu stjórnarskrárbreytingar á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Það gaf tilefni til margvíslegra túlkana. Aðrar spurningar voru líka óljósar þar sem spurt var hvort fólk vildi einhvers konar ákvæði af hinu eða þessu tagi inn í stjórnarskrá, án þess að vísað væri beint til tiltekinnar útfærslu viðkomandi ákvæðis.
Kjörsókn var afar slök en innan við helmingur atkvæðisbærra manna kom á kjörstað. Var kjörsóknin mun minni en í tveimur atkvæðagreiðslum um Icesave, sem þá höfðu nýlega farið fram, svo ekki sé talað um þátttöku í almennum kosningum í landinu. Varð þetta auðvitað ekki til þess að auka vægi atkvæðagreiðslunnar.
Eftir þetta hélt málsmeðferð á þingi áfram. Sérfræðingahópur skilaði af sér margvíslegum breytingum á tillögum stjórnlagaráðs, einkum lagatæknilegum. Voru þær breytingar milli 40 og 50 og tók meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins mark á sumum þeirra en alls ekki öllum. Málið var sent Feneyjanefndinni, ráðgjafanefnd Evrópuráðsins um stjórnskipunarmál, sem fann marga annmarka á tillögunum og hafði uppi ýmis viðvörunarorð. Loks strandaði málið í þinginu, ekki bara vegna harðrar og einbeittrar andstöðu þáverandi stjórnarandstöðuflokka, heldur líka vegna þess að sannfæring fyrir málinu var farin að dvína hjá ýmsum í þáverandi ríkisstjórnarflokkum. Það var við þessar aðstæður sem frumvarp byggt á tillögum stjórnlagaráðs lenti úti í skurði vorið 2013.
Frá þessum tíma hefur þrisvar verið kosið til Alþingis. Flokkar sem höfuðáherslu hafa lagt á tillögur stjórnlagaráðs hafa fengið takmarkað brautargengi. Mér er til efs að nokkurn tímann á þessu árabili hafi verið meirihluti á þingi fyrir þessum tillögum. Síðan þá hefur verið unnið að endurskoðun stjórnarskrárinnar með öðrum hætti þar sem verkið er áfangaskipt og reynt að ná samstöðu um afmarkaðar breytingar. Menn kunna að hafa mismunandi viðhorf til þeirrar nálgunar en það er hins vegar óraunsæi að horfast ekki í augu við að vinnan í dag fer fram á þeim forsendum. Tíminn nam ekki staðar fyrir sjö eða átta árum. Hvorki þegar stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum né þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði fram sína útgáfu af þeim.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. október 2019.