„Öflug þátttaka og virk hagsmunagæsla eru lykillinn að árangri“
'}}

„Við höfum á síðustu 25 árum notið ríkulega góðs af kostum EES-samningsins. Þá er ég ekki bara að vísa til aukningar í landsframleiðslu og ráðstöfunartekna einstaklinga samhliða stórauknum útflutningi og utanríkisverslun almennt. EES-samningurinn hefur einnig fært okkur umbætur á laga- og samkeppnisumhverfi, bæði fyrir neytendur og atvinnulífið, sem við í dag teljum sjálfsagðar, að ónefndum fjölmörgum tækifærum á sviði vísinda-, rannsókna og menntamála,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á Alþingi í dag í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins og í umræðum um skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES)

„Það er svo margt í okkar umhverfi og í daglegu lífi sem við teljum sjálfsagt en er í reynd grundvallað á þeim réttindum sem við njótum samkvæmt EES-samningnum. Ekki síst af þessum sökum er mikilvægt að efla til almennrar umræðu um EES-samninginn og þýðingu hans fyrir Ísland,“ sagði ráðherra.

Sagði hann starfshóp sem skipaðan var til að skoða kosti og galla aðildar Íslands að EES-samningnum sjá ýmis tækifæri til úrbúta þegar kemur að framkvæmd samningsins og að hópurinn hafi sett fram 15 punkta í því sambandi. Þar sé m.a. lagt til að lögð verði áhersla á faglegri umgjörð um aðild Íslands að samningnum og stjórnsýslu sem honum tengist.

„Niðurstaða starfshópsins er afdráttarlaus; íslenskt þjóðfélag hefur tekið stakkaskiptum við aðildina að EES og fram kemur að allir viðmælendur starfshópsins, aðrir en fulltrúar samtakanna Frjálst land hér á landi og Nei til EU í Noregi, hafi talið EES-samninginn vera til gagns og ávinnings fyrir þá sem innan ramma hans starfa,“ sagði Guðlaugur Þór.

Þá sagði hann: „Að mínu mati markar þessi skýrsla starfshópsins vatnaskil í umræðu um EES-samninginn hér á landi. Þriðjungur núlifandi Íslendinga er fæddur eftir gildisstöku samningsins og enn fleiri voru hvorki komnir til vits né ára þegar samningurinn gekk í gildi. Mjög lítil umræða hefur í raun farið fram um samninginn frá gildistöku hans, ef frá er talin fræðileg umfjöllun um afmarkaða og mjög svo lögfræðilega þætti samningsins. Skýrsla starfshópsins er grundvöllur vandaðrar umræðu um mikilvægi samningsins og hvernig bæta má framkvæmd hans enn frekar. Í því efni hafa skýrsluhöfundar sett fram gagnmerkar tillögur sem koma nú til frekari skoðunar.“

Þá sagði ráðherra að skýrsla starfshópsins sýni ótvíræðan ávinning af aðild Íslands að EES og væri okkur jafnframt hvatning til að bæta samningsins enn frekar.

„Það er nefnilega svo að á grundvelli EES-samningsins erum við Íslendingar okkar eigin gæfu smiðir. Öflug þátttaka og virk hagsmunagæsla eru lykillinn að árangri í EES-samstarfinu. Það þýðir ekki að sitja á hliðarlínunni þó að samningurinn sé okkur hagfelldur,“ sagði ráðherra.

Ræðu ráðherra má í heild sinni finna á vef Alþingis hér.