„Ég ætla að lýsa því hér yfir að ég mun sem utanríkisráðherra Íslands aldrei standa að því að Ísland samþykki í sameiginlegu EES-nefndinni eða á vettvangi EES-samstarfsins upptöku og innleiðingu þessarar löggjafar með þeim hætti að hún feli í sér ríkisábyrgð á bankainnstæðum. Aldrei,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á Alþingi í dag í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins og í umræðum um skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES)
Sagði hann málið vera alvörumál og að full ástæða væri fyrir okkur Íslendinga að standa fast á öllum þeim réttindum sem við höfum samkvæmt EES-samningnum þegar kemur að upptöku og innleiðingu umræddrar tilskipunar.
„Og það er, virðulegur forseti, blessunarlega til marks um aukna hagsmunagæslu þessarar ríkisstjórnar, að Ísland sé að móta sér skýra afstöðu til þessarar löggjafar á fyrstu stigum málsins. Það eykur mjög líkur á því að við getum haft á það áhrif og fengið þær undanþágur sem nauðsynlegar eru í ljósi aðstæðna hér á landi, þar sem kerfisleg áhætta bankakerfisins er eðli málsins samkvæmt allt önnur en í stærri ríkjum. Ég hef þegar gert grein fyrir þessari afstöðu minni á vettvangi EES-ráðsins, á vettvangi EFTA og í tvíhliða samskiptum að ríkisábyrgð á bankainnstæðum komi ekki til greina af hálfu Íslands. Ég vil líka árétta að mál þetta er eðlilega á forgangslista ríkisstjórnarinnar,“ sagði ráðherra í umræðunni.
Ræðu ráðherra má í heild sinni finna á vef Alþingis hér.