Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:
Varanlegar göngugötur eru fyrirhugaðar í miðborg Reykjavíkur. Ágreiningur um fyrirkomulagið hefur staðið yfir um áratugaskeið. Rekstraraðilar hafa verið andvígir göngugötum, en íbúar fylgjandi.
Hefðbundin verslun á undir högg að sækja hérlendis sem erlendis. Nýlegar fregnir herma að fyrstu sex mánuði ársins hafi 2.868 verslanir lagt upp laupana í Bretlandi. Mestan vöxt má finna í netverslun. Samskonar þróun má greina meðal annarra verslunarþjóða. Reynslan sýnir að hefðbundin verslun verði að bjóða jákvæða og nýstárlega upplifun, ætli hún að halda velli.
Fjöldi evrópskra borga hefur skipulagt verslunargötur sem taka mið af gangandi umferð. Upplifunin hefur verið jákvæð fyrir neytandann og mætt nýjum áskorunum í verslun. Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Helsinki og Osló eru nærtæk dæmi. Áform um göngugötur í borgunum mættu andstöðu í upphafi. Reynslan sýndi þó að mannlíf batnaði, verslun jókst og ánægja óx.
Barselónaborg innleiddi árið 2016 nýtt skipulag sem miðar að því að hólfa borgina niður í bíllaus svæði. Bílaumferð ferðast þannig umhverfis svæðin, en innan þeirra tekur allt skipulag mið af mannvænu umhverfi. Skipulagið mætti talsverðri andstöðu í fyrstu en mælingar sýna nú mikla ánægju meðal íbúa. Áhrif á loftgæði og lýðheilsu eru jákvæð auk þess sem verslun í nærumhverfi hefur aukist um þriðjung.
Með sama hætti hafa borgir á borð við París, Madríd og London þróað bíllausar verslunargötur. Berlínarborg vinnur að samskonar áformum. Borgarstjóri Lundúnaborgar hefur kynnt áform um 800 metra bíllausan kafla á Oxford stræti. Þróunin á sér stað allt um kring.
Rekstraraðilar þurfa engu að kvíða. Mælingar sýna mikla jákvæðni íbúa gagnvart breytingunum – það gildir einu hvaða borgarhluti eða aldurshópur er skoðaður - alls staðar er jákvæðnin í fyrirrúmi. Af tölunum má jafnvel spá fyrir um fjölgun heimsókna í miðborg eftir breytingar. Í síbreytilegu markaðsumhverfi ræður viðskiptavinurinn að lokum örlögum verslunar. Tölurnar sýna glöggt með hvaða hætti borgarbúar vilja þróa miðborgina - í átt að iðandi mannlífi og lifandi miðborg.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. október 2019.