Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Ég hef oft spurt sjálfan mig en ekki síður samherja mína spurningarinnar sem varpað er fram í fyrirsögn þessa pistils. Kerfið eða báknið lifir ágætu lífi. Stundum fallast manni hendur í baráttunni við að koma böndum á kerfið sem á sér marga bandamenn innan þings og utan.
Svarið við spurningunni liggur ekki fyrir en það eru vísbendingar um að meiri líkur séu á því en nokkru sinni á síðustu árum, að svarið sé já (a.m.k. að hluta). Vísbendingarnar eru þrjár en rökin fyrir nauðsynlegum uppskurði eru fjölmörg, enda ekki hjá því komist ef við ætlum að bæta lífskjör alls almennings, efnahags- og félagslega.
Það útheimtir þrautseigju að stofna fyrirtæki. Fjármögnun er oft þröskuldur en ekki alltaf sá erfiðasti eða sá hæsti. Á mörgum sviðum atvinnulífsins er svo flókið og tímafrekt að afla sér tilskilinna leyfa að margir gefast hreinlega upp á hlaupum milli stofnana og eftirlitsaðila. Engu er líkara en það sé erfiðara og vandasamara að uppfylla kröfur ríkis og sveitarfélaga en að sinna þörfum viðskiptavina. Margslungið og íþyngjandi eftirlitskerfi í landbúnaði hamlar framþróun. Strangari kröfur til íslenskra bænda en í helstu viðskiptalöndum halda uppi matarverði og draga úr samkeppnishæfni íslenskra matvælaframleiðenda. Litli fiskverkandinn sem byggt hefur upp traust viðskiptasambönd í öðrum löndum, með viðskiptavini sem eru ánægðir með gæðin og greiða hæsta verð, þarf að standa undir mörg hundruð þúsund króna kostnaði á ári vegna heimsókna opinberra eftirlitsmanna. Hvergi í ríkjum OECD er reglubyrði þjónustugreina þyngri en á Íslandi.
Ígildi tveggja mánaða afborgunar
Ég hef áður vitnað til skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir forsætisráðuneytið árið 2004 um beinan kostnað fyrirtækja við að framfylgja eftirlitsreglum. Niðurstaðan: Beinn kostnaður er um 15 milljarðar króna á ári miðað við verðlag í ágúst á þessu ári. Tekið var fram að líklega væri um vanmat að ræða, þar sem ekki var tekið mið af öllum eftirlitsreglum á öllum sviðum.
Frá því að Hagfræðistofnun vann skýrsluna hefur sigið á ógæfuhliðina; reglum hefur fjölgað, þær hertar og eftirlit hins opinbera verið aukið. Með hliðsjón af vanmati Hagfræðistofnunar og þróuninni síðustu fimmtán ár er óhætt að ætla að beinn kostnaður fyrirtækja við að framfylgja eftirlitsreglum sé ekki undir 25 milljörðum króna á ári. Þá er óbeinn kostnaður ekki talinn. Þessi kostnaður er borinn af fyrirtækjunum sjálfum í formi minni arðsemi, af ríkissjóði í formi lægri tekna af tekjuskatti, af starfsmönnum þar sem bolmagn fyrirtækjanna til að greiða hærri laun er skert og síðast en ekki síst af neytendum í formi hærra vöruverðs og lakari þjónustu.
Auðvitað er nauðsynlegt að í gildi séu ákveðnar leikreglur til að tryggja eðlilega og sanngjarna samkeppni, koma í veg fyrir misnotkun og tryggja öryggi starfsmanna jafnt sem neytenda. Og ekki verður hjá því komist að eftirlit sé með að reglum sé fylgt. En að eftirlitskerfið sé orðið svo umfangsmikið að það sogi til sín ígildi nær 280 þúsund króna frá hverri fjögurra manna fjölskyldu, bendir til að við séum á villigötum. Þessi fjárhæð jafngildir liðlega tveimur mánaðarlegum afborgunum af 25 milljóna króna óverðtryggðu húsnæðisláni til 40 ára.
Það er því til mikils að vinna að einfalda allt reglukerfið, skera kerfið upp – minnka báknið eins og margir myndu segja.
Vísbendingarnar þrjár
En hverjar eru vísbendingarnar um að vonir séu til að kerfið verði loks skorið upp, þó að ekki væri nema að hluta til
Vísbending 1: Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er því lofað að gert verði átak „í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings“. Um leið er því lýst yfir að ríkisstjórnin leggi „áherslu á að stjórnsýsla sé skilvirk og réttlát“.
Vísbending 2: Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins (14. september) ítrekaði stefnu flokksins og tók af öll tvímæli um að þingmenn og ráðherrar flokksins skuli vinna að því að regluverk atvinnulífsins sé einfalt og sanngjarnt. Sameina eigi eftirlitsaðila, útvista verkefnum og einfalda regluverk. Þannig styrkist „samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, verð til neytenda getur lækkað, svigrúm til hærri launa eykst og stuðlað er að aukinni hagkvæmni, framleiðni og skilvirkni í atvinnulífinu“.
Vísbending 3: Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa kynnt áform um lagafrumvörp sem miða að því að grisja lagaskóginn og einfalda regluverk.
Í október mun Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, leggja fram frumvarp um breytingar á samkeppnislögum. Markmiðið er að auka skilvirkni og stuðla að aukinni og sanngjarnri samkeppni á mörkuðum með hagsmuni neytenda og atvinnulífsins að leiðarljósi. Í sama mánuði ætlar Þórdís Kolbrún að leggja fram frumvarp varðandi leyfisveitingar – einfalda regluverkið og leyfisveitingar. Iðnaðarleyfi og verslunarleyfi verða m.a. felld niður sem og ýmis úrelt lög. Þetta er fyrsti áfangi í aðgerðaráætlun um einföldun regluverks á málefnasviði ráðherrans.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið að leggja fram frumvarp til einföldunar regluverks í komandi mánuði. Lögum verður breytt í því skyni að einfalda regluverk sem gildir um matvælakeðjuna auk þess sem breytingunum er ætlað að stuðla að samræmdara og skilvirkara eftirlitskerfi. Þá er með frumvarpinu einnig lagt til að Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS-rannsóknarsjóður í sjávarútvegi verði sameinaðir og við taki nýr sjóður á breiðari grunni undir heitinu Matvælasjóður.
Í febrúar á næsta ári ætlar Kristján Þór að halda áfram með verkið. Þá verða kynntar breytingar á ýmsum lögum til einföldunar regluverks á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun í byrjun næsta árs leggja fram frumvarp um brottfall ýmissa laga. Hann ætlar að grisja lagaskóginn. Frumvarpið felur í sér brottfall hátt í 40 lagabálka sem eiga ekki lengur við sökum breyttra aðstæðna eða vegna þess að ráðstafanirnar sem lögin kváðu á um eru um garð gengnar.
Vísbendingarnar þrjár gefa mér góðar vonir um að loks verði hafist handa við nauðsynlegt verk, en það er langur vegur frá að verið sé að koma þeim böndum á kerfið að þau geti ekki brostið. En þetta eru skref í rétta átt.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. september 2019.