Ólympískar skattahækkanir
'}}

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi:

Frá árinu 2012 til 2018 hækkuðu skatttekjur Reykjavíkur um 48% umfram verðlag, eða 27,5 milljarða. Samt sem áður hafa skuldir borgarinnar aukist um 63% umfram verðlag, á fordæmalausum góðæristímum. Flestir skattar og opinber gjöld eru og hafa verið í leyfðu hámarki. Á þessu tímabili hafa mörg sveitarfélög ásamt íslenska ríkinu lækkað skuldir sínar.

Íbúar Reykjavíkur greiða hærra hlutfall tekna sinna til borgarinnar en íbúar annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt skýrslu Samtaka atvinnulífsins frá síðasta ári. Rekstrartekjur Reykjavíkur námu tæpum 120 milljörðum árið 2018, sem þýðir að borgin hafði rúmar 330 milljónir til ráðstöfunar hvern einasta dag ársins. Það virðist þó ekki nóg.

Djúpir vasar

Á fundi borgarstjórnar í byrjun september var samþykkt að skoða nánar tillögu Sósíalista um að leita til hinna sveitarfélaga landsins með það að markmiði að mynda samstöðu um að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur með lögum frá Alþingi. Þrátt fyrir gríðarlegan tekjuvöxt leitast meirihluti borgarstjórnar eftir því að skattleggja íbúa borgarinnar enn frekar til að leysa rekstrarvandann, nú þegar kreppir að í efnahagslífinu.

Sem betur fer er ólíklegt að þessar hugmyndir verði að veruleika, enda standa flest sveitarfélög í landinu ágætlega vel að vígi. Þá ber að hafa í huga að mikil hækkun á fjármagnstekjuskatti myndi hafa ýmiss konar óæskileg áhrif, svo sem að draga úr sparnaði landsmanna.

Fyrst og síðast er umhugsunarvert að ætla að skattleggja sig út úr rekstrarvanda. Þá er athyglisvert að Viðreisn, sem á tyllidögum þykist vera frjálslyndur flokkur, tekur fagnandi undir þetta nýsköpunarstarf í skattheimtu. Ef meirihlutinn gæti sýnt jafn mikla hugmyndaauðgi á kostnaðarhliðinni og á tekjuhliðinni, væri Reykjavík eflaust í glimrandi málum. En það er því miður ekki þannig.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. september. 2019