Haraldur Benediktsson 1. þingmaður norðvesturkjördæmis:
Þá er afgreiðsla hins umdeilda orkupakka 3 að baki. Umræða um orkumál, raforku, hefur verið um margt ágæt og tímabær. Raforka er stór hluti af okkar lífi og ein undirstaða lífsgæða. Við gerum þá eðlilegu og sanngjörnu kröfu, hvort sem er við heimilishald eða fyrirtækjarekstur, að eiga aðgengi að tryggri raforku. Þess vegna er nauðsynlegt að umræða um raforkumál og skipulag framleiðslu og dreifingar taki fyrst og síðast mið af því að skapa jafnræði milli landsmanna og byggðarlaga, jafnt er kemur að öryggi og verði á orkunni og dreifingu hennar.
Orkupakkar eru safnheiti yfir ýmsar breytingar á starfsumhverfi raforkuframleiðslu og -dreifingu. Fyrir okkur, sem höfum barist á undanförnum árum fyrir leiðréttingu á því misgengi í þróun kostnaðar sem íbúar landsbyggðar hafa orðið fyrir, er umræðan um orkumál kærkomin.
Ljótur blettur
Afleiðingar af breytingum sem gerðar voru á raforkumarkaði eftir 2003 hafa sett ljótan blett á breytingar sem í mörgu voru annars skynsamlegar. En hvað sem hverjum finnst er samt ekki hægt að segja að uppstokkun raforkumarkaðar sé um að kenna. Aðskilnaður framleiðslu og flutnings var í sjálfu sér ekki neikvætt skref. En við verðum að horfast í augum við þá staðreynd að framkvæmdin tókst illa og hefur búið til misvægi milli landsmanna og verið mörgum þungur baggi. Þetta misvægi verður að leiðrétta og koma á jafnræði milli allra óháð búsetu.
Á svipuðum tíma og við breyttum regluverki raforkumarkaðar var starfsumhverfi fjarskipta breytt. Það var meginmunur á vilja og framgöngu á löggjafans. Meðan ákveðið var – sem reyndar var alíslensk ákvörðun – að hafa ekki jafnræði innan orkumarkaðar var fjarskiptamarkaðurinn skipulagður með það í huga að allir landsmenn sætu við sama borð. Regluverk fjarskiptamarkaðarins inniheldur tæki til jafnræðis. Meiriháttar ríkisafskipti af raforku hafa unnið í þveröfuga átt.
Það má einnig nefna hér að með nýjum lögum um póstþjónustu, sem samþykkt voru nú á vorþingi, var það einnig skýr vilji Alþingis að jafnræði um kostnað allra landsmanna væri tryggt.
Hvers vegna lét meirihluti Alþingis árin 2003-2005 þetta viðgangast? En til að gæta sanngirni þá voru þau tæki sem áttu að jafna þann mun of veik.
Íbúar dreifðari byggða hafa upplifað miklar hækkanir á orkuverði frá þessum breytingum. Það er staðreynd sem loksins fékk almennilegt kastljós í umræðu um orkupakka 3.
Veruleikinn er að íbúar dreifbýlis, á dreifisvæði Rarik, hafa þurft að sæta því að flutningskostnaður á raforku hækkaði um ríflega 100% árin 2005-2017. Á sama tíma nutu íbúar á þéttbýlissvæðum Rarik verulegrar raunlækkunar – eða um 44% hækkunar meðan verðlag hækkaði um 80%.
Með kerfisbreytingum voru dreifbýli og þéttbýli aðskilin með sjálfstæðum tekjumörkum (gjaldamörkum) dreifikostnaðar. Tekjumörk eru sá raunkostnaður og tekjuþörf sem raforkudreifikerfið þarf til viðhalds og reksturs þess.
Það var sem sagt tekin ákvörðun um að velta kostnaði við rekstur og byggingu á víðfeðmasta dreifihluta raforkukerfisins yfir á íbúa dreifbýlis. Þéttbýlli hlutinn, sem var næstum allur uppbyggður, var frelsaður undan því að taka þátt í að reka og byggja upp mikilvægan samfélagslegan grunnþátt; dreifikerfi rafmagns. Er einhver sanngirni í því? Er þetta ekki orkan okkar allra?
Rétt er að geta þess hér að til að koma til móts við þessa mismunun ákvað löggjafinn að greiða niður dreifikostnað m.v. dýrustu þéttbýlisveitu. Framlög úr ríkissjóði hafa á þessu árabili hækkað um 300%. Samt er verulegt misgengi.
Endurskoðun nauðsynleg
Þegar við ræðum orkuskipti, ræðum um sameign okkar á auðlindum sem skapa okkur framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjafa sem rafmagn er – er þá ekki rétt og sanngjarnt að við endurskoðum framkvæmd breytinganna og afleiðingar þeirra?
Hér hefur samt ekkert verið fjallað um tvo aðra þætti sem ættu að sjálfsögðu að fylgja þeirri umræðu – sem eru gæði þeirra tenginga sem eru í boði og þann mikla kostnað sem húshitun með raforku fylgir. Á það við bæði um íbúa dreifbýlis og þéttbýlisstaða.
Með orkuskiptum samgangna í raforku væri það ástæða eitt og sér til að endurskoða þetta fyrirkomulag. Eiga aðeins íbúar dreifbýlis að bera kostnað af því að tryggja aðgengi allra að því að geta hlaðið bíla sína á ferðalögum?
Ég bind vonir við að afgreiðsla orkupakka 3 og umræða henni tengd hafi komið þessum hagsmunum svo rækilega á dagskrá að pólitíkin eigi ekki annan kost enn að stíga þau skref sem duga til að tryggja jafnræði allra íbúa til raforku. Það er nefnilega sanngirnismál að gera ekki upp á milli íbúa er kemur að hagnýtingu sameiginlegrar orkuauðlindar okkar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. september 2019.