Höldum orku í umræðunni
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Hafi ein­hver haldið að stuðnings­menn þriðja orkupakk­ans myndu fyll­ast fögnuði þegar hann var samþykkt­ur á Alþingi í byrj­un vik­unn­ar þá er það mis­skiln­ing­ur. Slíkt hlýt­ur að vera fjarri okk­ur í máli sem ein­kennd­ist af tölu­verðu leyti af ágrein­ingi á meðal sam­herja. Við þurf­um að draga lær­dóm af umræðunni og hvernig hún þróaðist. Ég trúi að við höf­um gert rétt í því að taka aðfinnsl­ur, spurn­ing­ar og áhyggju­efni fólks al­var­lega og fara okk­ur hægt.Já­kvætt er hins veg­ar að málið hef­ur beint kast­ljós­inu ræki­lega að orku­mál­um. Næg eru verk­efn­in á þeim vett­vangi og gríðar­mikl­ir hags­mun­ir þjóðar­inn­ar und­ir.

Verðmæti auðlind­ar­inn­ar

Sölu­verðmæti ís­lenskr­ar raf­orku er eitt­hvað í námunda við 50 millj­arða króna á ári. Þá eru flutn­ing­ur, dreif­ing og skatt­ar und­an­skil­in og aðeins horft á sölu­verð sjálfr­ar ork­unn­ar.Þetta er þó aðeins hluti af þeim verðmæt­um sem um er að tefla. Við bæt­ast störf­in, afurðirn­ar og virðis­auk­inn sem verður til hjá þeirri at­vinnu­starf­semi sem nýt­ir ork­una. Einnig sú sérþekk­ing sem til verður í land­inu í tengsl­um við rann­sókn­ir, virkj­an­ir og orku­frek­an iðnað og viðskipta­tæki­fær­in sem þekk­ing­in ber í skauti sér.

Ávinn­ing­ur­inn fyr­ir lofts­lags­mál jarðar er einnig gríðarleg­ur. Kannski er hann meira að segja stærsti ávinn­ing­ur­inn á mæli­kv­arða þeirra sem setja lofts­lags­mál efst á lista yfir for­gangs­mál mann­kyns.

For­ysta sjálf­stæðismanna

Við sjálf­stæðis­menn tók­um for­ystu í orku­mál­um með því að beita okk­ur fyr­ir því að eitt af lyk­il­verk­efn­um þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar yrði að marka orku­stefnu fyr­ir Ísland. Ég setti þá vinnu af stað á þver­póli­tísk­um grunni með aðkomu allra þing­flokka, í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mál­ann, enda er mik­il­vægt að ná lang­lífri sátt um hvert við vilj­um stefna með þessa mik­il­vægu grund­vall­ar­auðlind okk­ar.Í stjórn­arsátt­mál­an­um er einnig kveðið á um ein­stök verk­efni, til að mynda styrk­ingu flutn­ings­kerf­is raf­orku og mót­un reglu­verks um vindorku.

Útrým­um orkuf­á­tækt

Ég hef einnig lagt sér­staka áherslu á að út­færa leiðir til að tryggja að ávallt sé til staðar orka fyr­ir al­menn­an markað. Í dag er eng­in trygg­ing fyr­ir því. Lands­virkj­un hafði það hlut­verk í gamla daga en þeirri kvöð var létt af fyr­ir­tæk­inu fyr­ir löngu. Ég tel þetta með öllu óviðun­andi ástand. Af­leiðing­in er að orku­skort­ur heim­ila, eða það sem kallað hef­ur verið „orkuf­á­tækt“, er raun­veru­leg­ur mögu­leiki og hef­ur verið um ára­bil. Því ætl­um við að breyta og þegar er unnið að til­lög­um þar að lút­andi.

Orku­bænd­ur í þjóðar­eign?

Það heyr­ist oft­ar og oft­ar að auðlind­ir eigi að vera í þjóðar­eign. Ég tel nokkuð skorta á dýpri umræðu um hvað það þýðir.Yf­ir­gnæf­andi meiri­hluti orku­auðlinda Íslands er í eigu hins op­in­bera, þ.e. rík­is eða sveit­ar­fé­laga, eða fyr­ir­tækja í eigu þeirra. Með lög­um hef­ur verið tryggt að svo verður áfram. Ríki og sveit­ar­fé­lög­um, og fyr­ir­tækj­um í eigu þeirra, er bannað með lög­um að selja frá sér auðlind­ir.

Hrefna Sigmarsdóttir orku- og ferðaþjónustubóndi á Húsafelli við stöðvarhús Urðarfellsvirkjunar.

Þó að yf­ir­gnæf­andi meiri­hluta orku­auðlinda hafi þannig verið skipað í op­in­bera eigu um ald­ur og ævi, með lög­um, stend­ur engu að síður eft­ir þó nokkuð af orku­auðlind­um sem eru einka­eign land­eig­enda.

All­marg­ar smá­virkj­an­ir eða bænda­virkj­an­ir eru í land­inu og þeim gæti hæg­lega fjölgað. Á Húsa­felli hafa þannig nokkr­ar kyn­slóðir land­eig­enda byggt upp alls fjór­ar litl­ar virkj­an­ir á und­an­förn­um ára­tug­um. Sú nýj­asta, Urðar­fells­virkj­un frá 2018, er með upp­sett afl upp á rúm­lega 1 meg­awatt, sem dug­ar um það bil tvö þúsund heim­il­um.

Er til­lag­an sú að þessi rétt­indi verði tek­in af fólki eins og orku- og ferðaþjón­ustu­bænd­un­um á Húsa­felli? Ég hef ekki heyrt góð rök fyr­ir því – og raun­ar varla neina umræðu.

Eig­end­ur eða viðskipta­vin­ir?

Íslensk­ur al­menn­ing­ur not­ar aðeins um 5% af orku­fram­leiðslu lands­ins. Íslensk­ur al­menn­ing­ur á hins veg­ar hundrað pró­sent í Lands­virkj­un.Hags­mun­ir okk­ar sem viðskipta­vina og eig­enda eru ekki hinir sömu. Sem viðskipta­vin­ir vilj­um við lágt orku­verð. Sem eig­end­ur vilj­um við góðan arð og skyn­sam­lega stefnu sem skap­ar sam­fé­lag­inu sem mest verðmæti og ávinn­ing. Hvort tveggja er mjög mik­il­vægt. Í því sam­bandi er gagn­legt að hug­leiða að við erum í raun fimm pró­sent viðskipta­vin­ir en hundrað pró­sent eig­end­ur.

Ver­um upp­lits­djörf

Orku­geir­inn er eitt þeirra sviða þar sem Íslend­ing­ar eiga án nokk­urs vafa að vera í fremstu röð í heim­in­um. Við eig­um að vera stolt­ari og upp­lits­djarf­ari hvað þetta varðar. Það er dap­ur­legt þegar reynt er að tala niður um­hverf­is­leg­an ávinn­ing af okk­ar grænu orku. Það er líka of mikið gert úr því að orku­vinnsla og ferðaþjón­usta séu and­stæður; þetta tvennt get­ur farið full­kom­lega sam­an eins og mörg dæmi sanna – til dæm­is Húsa­fell.Við stönd­um frammi fyr­ir ýms­um grund­vall­ar­spurn­ing­um í orku­mál­um, til að mynda um ramm­a­áætl­un, vindorku, sam­spil orku­vinnslu og ferðaþjón­ustu, eign­ar­hald auðlinda og fleira. Það er eng­inn vafi á því í mín­um huga að við mun­um tryggja að ork­an efl­ist og styrk­ist sem ein helsta und­ir­staða lífs­kjara okk­ar og grænn­ar framtíðar.

Greinin birtist fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 8. september 2019.