Eftir Valgerði Sigurðardóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Nýverið var skýrsla innri endurskoðunar um grunnskóla Reykjavíkur, úthlutun fjárhagsramma og rekstrar kynnt í skóla- og frístundaráði en það er ein athyglisverðasta skýrsla sem ég hef séð lengi. Í skýrslunni kennir ýmissa grasa en þar segir orðrétt:
„Meginniðurstaða þessarar skýrslu er að mismunandi skilningur virðist vera á milli skólastjórnenda og skóla og frístundasviðs annars vegar og fjárveitingarvalds borgarinnar hins vegar um hvað er nauðsynlegt fjármagn til reksturs á grunnskólum borgarinnar. Skóla- og frístundasvið hefur þurft að skera niður það fjármagn sem reiknað hefur verið út að skólarnir þurfi, svo þeir geti starfað innan rammans. Afleiðingin er sú að skólarnir fara margir hverjir ítrekað fram úr fjárhagsramma sínum. Í raun standa skólarnir almennt frammi fyrir því að nánast allir rekstrarliðir fá of knappt fjármagn.“
Hér kemst innri endurskoðandi vel að orði enda er hér tekið undir sjónarmið og áhyggjur okkar sjálfstæðismanna en við höfum margítrekað bent á akkúrat þetta.
Skýrari geta skilaboð varla orðið.
Fjársvelti grunnskóla grafalvarlegt
Þegar skólar eru fjársveltir þá bitnar það á þeirri þjónustu sem þeim ber skylda til þess að veita samkvæmt lögum. Sérstaklega er tekið fram í skýrslunni að úthlutun til sérkennslu og aðstoð við börn sem eru af erlendu bergi brotin er minni en reiknað hefur verið út að hún þurfi að vera. Þar með er ekki verið að veita þessum börnum þá þjónustu sem Reykjavíkurborg er skylt að veita.
Síðan í hruninu, sem var fyrir tíu árum síðan, hefur viðhald fasteignanna verið af skornum skammti með þeim afleiðingum að viðhaldsþörf hefur safnast upp í skólunum og því er orðið mjög brýnt að taka til hendinni þar. Aðalorsök ófullnægjandi viðhalds er skortur á fjármagni.
Það verður að teljast áhyggjuefni ef borgin uppfyllir ekki ákvæði grunnskólalaga um aðbúnað. Fjárhagsramminn hefur ekki tekið nægjanlegum breytingum liðinn áratug til samræmis við hækkun á raunkostnaði og það felur í raun í sér skerðingu á fjárframlagi. Þessi auknu fjárútlát til skólamála sem meirihlutinn státar sig af eru fyrst og fremst tilkomin vegna kjarasamningsbundinna launahækkana en ekki myndarskap borgaryfirvalda. Það er því alveg ljóst að grunnskólar borgarinnar eru vanfjármagnaðir, þvert á orð meirihlutans um aukna fjármögnun til skólanna.
Það er ekki hægt að lesa annað út úr skýrslu innri endurskoðunar en að stærsta sveitarfélagi landsins hafi mistekist að yfirtaka rekstur grunnskólanna frá ríkinu. Viðhaldi er ábótavant, sérkennsla hefur ekki fengið það fjármagn sem hún þarf, ekki hefur verið komið til móts við vísitöluhækkanir, veikindaforföll eru mikil og gríðarlegur skortur er á fjármagni til skólanna sem veldur því að þeir ná ekki að reka sig réttu megin við núllið.
Í skýrslu innri endurskoðunar er lagt til er að skera frekar niður þá þjónustu sem verið er að veita reykvískum börnum og loka og sameina skóla til að rétta við þessa stöðu. Þannig má öllum vera ljóst að meirihlutinn hyggst ekki bæta í heldur mun halda áfram að skera niður.
Allir vita að þessi staða mun bitna illa á starfsfólki og nemendum. Álagið er því víða mikið.
Mér er það algerlega hulin ráðgáta að stærsta sveitarfélag landsins geti ekki haldið úti lögbundinni þjónustu skammlaust á tímum sögulegs tekjugóðæris. Ljóst er að borginni hefur mistekist að yfirtaka rekstur grunnskóla af ríkinu, það er í raun það sem skýrsla innri endurskoðunar staðfestir. Við verðum að gera betur en þetta.