Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Stjórnmálaflokkur sem þolir ekki átök hugmynda – hörð skoðanaskipti flokksmanna – mun fyrr eða síðar visna upp og glata tilgangi sínum. Slíkur flokkur getur aldrei orðið hreyfiafl framfara eða uppspretta nýrra hugmynda. Flokkur sem býr ekki til frjóan jarðveg fyrir samkeppni hugsjóna og skoðana, verður ekki til stórræða og á lítilfjörlegt erindi við framtíðina.
Ég hef lýst landsfundum Sjálfstæðisflokksins sem suðupotti hugmynda og hugsjóna. Potti þar sem allt kraumar undir. Á annað þúsund sjálfstæðismenn frá landinu öllu koma saman til þess að bera saman bækur sínar, berjast fyrir því sem stendur hjarta þeirra næst. Átökin eru á stundum hörð, jafnvel óvægin. Margir, þar á meðal sá er þetta skrifar, hafa þurft að sætta sig við málamiðlun. Baráttan fyrir hugmyndum ber ekki alltaf árangur. Þótt þær falli í grýttan jarðveg hjá meirihluta landsfundarfulltrúa, er ástæðulaust að gefast upp.
Í fjölmennum og öflugum stjórnmálaflokki skilja flestir mikilvægi þess að stilla að lokum saman strengi – að konur og karlar, ungir og gamlir standi saman í baráttunni um grunnstef sjálfstæðisstefnunnar. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa átt erfitt að skilja hvernig hörð skoðanaskipti innan flokksins leysa úr læðingi pólitískan kraft.
Erfiðar deilur
Öllum má vera ljóst að umræðan um þriðja orkupakkann hefur reynst Sjálfstæðisflokknum á margan hátt erfið. Það hefur verið deilt hart – á stundum með stóryrðum, villandi upplýsingum og staðhæfingum sem eiga enga stoð í raunveruleikanum. Þegar tekist er á af sannfæringu og eldmóði er ýmislegt sagt sem betur hefði verið látið ósagt.
Við sem skipum þinglið Sjálfstæðisflokksins getum ekki kveinkað okkur undan gagnrýni flokksbræðra og -systra. Hún er eðlilegur hluti af starfi þingmannsins. Hann verður að hlusta og taka tillit til og skilja ólík sjónarmið. En þingmaður verður einnig að hafa burði til að svara og taka afstöðu til málefna. Sá sem feykist líkt og lauf í vindi og skiptir um skoðun til að geðjast síðasta viðmælanda skilur aldrei eftir sig önnur spor en þau sem fennir strax yfir.
Deilan um þriðja orkupakkann hefur langt í frá verið tilgangslaus eða án innihalds. Áhugi almennings á orkuauðlindum landsins hefur aukist sem og skilningur á nauðsyn þess að Íslendingar standi vörð um óskorað forræði á eigin auðlindum. Þeim, sem hafa áhyggjur af því að með samþykkt þriðja orkupakkans séum við að afsala okkur yfirráðum yfir orkuauðlindunum, var rétt og skylt að taka til máls.
Átökin um orkumálin hafa einnig orðið til að skerpa umræðuna um hvernig við Íslendingar viljum og eigum að standa að samstarfi við aðrar þjóðir. Þar fáum við ekki allt fyrir ekkert. EES-samstarfið hefur reynst okkur Íslendingum mikilvægt en það er ekki gallalaust. Sú skýra krafa að íslensk stjórnvöld gæti hagsmuna lands og þjóðar og sýni þar frumkvæði, kristallast í rimmunni um orkupakkann. Þingmenn og almenningur verða í framtíðinni meira vakandi gagnvart hagsmunum okkar innan EES en nokkru sinni áður. Það er okkur lífsnauðsynlegt og eftir því hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins ítrekað kallað.
Við ráðum þessu sjálf
Orkumál og skipan þeirra er eitt mikilvægasta hagsmunamál okkar Íslendinga. Óháð afdrifum þriðja orkupakkans munu íslensk stjórnvöld og almenningur taka ákvörðun um hvaða virkjunarkosti eigi að nýta og hverja ekki. Við ein og sjálfstæð þjóð mörkum stefnuna í umhverfismálum, hvernig við ætlum að standa að orkuskiptum, hvaða landsvæði við viljum vernda a og friða.
Enginn getur sagt okkur fyrir verkum við að marka eigendastefnu fyrir Landsvirkjun. Aðeins Íslendingar geta ákveðið að fyrirtækið skuli vera í sameiginlegri eigu landsmanna um ókomna framtíð. Sé vilji til þess að koma á fót Þjóðarsjóði með arðgreiðslum frá Landsvirkjun til að byggja upp fyrir framtíðina, eru það kjörnir fulltrúar á Alþingi sem taka þá ákvörðun. Með sama hætti getur enginn erlendur aðili eða yfirþjóðlegt vald, komið í veg fyrir að hluti af arðgreiðslum Landsvirkjunar sé greiddur árlega beint út til íslenskra heimila. Ákvörðun um að tengja með beinum hætti opinbert eignarhald og afkomu Landsvirkjunar við fjárhag heimilanna, er í okkar höndum. Skipulag eignarréttarins og þar með nýting hans er og verður á forræði okkar. Orkutilskipanir breyta þar engu um.
Þriðji orkupakkinn skerðir í engu möguleika okkar á að koma á jafnræði milli landsmanna þegar kemur að raforkuverði og dreifingu. Uppbygging dreifikerfisins er á ábyrgð okkar.
Sé það skynsamlegt að sameina RARIK og Orkubú Vestfjarða til að auka hagkvæmni í opinberum rekstri í framleiðslu og dreifingu raforku, er það á forræði íslenskra stjórnvalda að taka ákvörðun. Ef það er pólitískur vilji til að styrkja stöðu landsbyggðarinnar með því að hafa höfuðstöðvar sameinaðs fyrirtækis á Ísafirði er það einföld ákvörðun.
Íslendingar hafa ekki og geta aldrei undirgengist skyldur eða gefið loforð um lagningu sæstrengs. Hvort og þá hvenær sæstrengur verður lagður er ákvörðun sem við tökum sjálf á okkar forsendum.
Næstkomandi mánudag verður gengið til atkvæða um þau þingmál sem tengjast þriðja orkupakkanum. Afstaða mín liggur fyrir og á henni ber ég einn ábyrgð. Bjarni heitinn Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í áramótaávarpi 1968:
„Engin skömm er að því að falla vegna þess að maður fylgir sannfæringu sinni. Hitt er lítilmótlegt að játast undir það sem sannfæring, byggð á bestu fáanlegri þekkingu, segir að sé rangt.“
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. ágúst 2019.