Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Það er eðlilegt að fram fari umræða um stöðu fjölmiðla hér á landi enda er staða sjálfstæðra fjölmiðla í mörgum tilvikum slæm. Menntamálaráðherra hefur kynnt frumvarp og hugmyndir að breytingum á fjölmiðlaumhverfinu. Á meðan margir vilja styrkja og efla sjálfstæða fjölmiðla eru það færri sem nefna fílinn í herberginu, Ríkisútvarpið.
Erfitt rekstrarumhverfi annarra fjölmiðla orsakast að hluta vegna erfiðrar samkeppnisstöðu við fyrirtæki í eigu ríkisins. Ríkisútvarpið fær um fjóra milljarða króna á ári í útvarpsgjald frá skattgreiðendum og rúma tvo milljarða í auglýsingatekjur. Forskotið er mikið á markaði þar sem frjálsir fjölmiðlar keppa að stórum hluta til um sömu auglýsingatekjurnar við ríkisfjölmiðilinn.
Frjálsir fjölmiðlar eru grundvöllur fjölbreyttrar og gagnrýninnar umræðu í samfélaginu. Þeir eru vettvangur skoðanaskipta, miðlunar upplýsinga og fjölbreytt flóra íslenskra fjölmiðla sinnir einnig því mikilvæga hlutverk að vernda íslenska tungu. Allt eru þetta mikilvægir þættir.
Fólk getur verið misánægt með frjálsa fjölmiðla, bæði innlenda og erlenda, en það hefur þann kost að stýra sjálft notkun sinni á þeim. Við höfum val um fjölda vefmiðla, fríblöð, áskriftarblöð að ónefndum áskriftarstöðvum í sjónvarpi bæði hér á landi og erlendis. Tækniframfarir síðustu ára hafa í raun afnumið hindranir í aðgengi að hinum ýmsu fjölmiðlum og afþreyingarefni. Allir hafa val um það hvort þeir kaupa sér áskrift að þjónustu Sýnar eða Símans og jafnframt hvort þeir nýta sér, og greiða fyrir, afþreyingu erlendra fyrirtækja á borð við Netflix og Hulu. Fólk stýrir þessu aðgengi sjálft með veskinu og það má ætla að fjölmiðlar og afþreying séu liður í heimilisbókhaldi flestra.
Útvarpsgjaldið er þó hvergi að finna sem útgjaldalið í heimilisbókhaldinu. Það er innheimt í gegnum nefskatt og í flestum tilvikum á sér stað nokkurs konar skuldajöfun við ríkið við birtingu álagningarseðla. Útvarpsgjaldið er nú 17.500 kr. á ári og það greiða allir einstaklingar yfir 16 ára aldri auk þess sem öll fyrirtæki þurfa að greiða útvarpsgjald. Ef við gefum okkur hjón með ungling í framhaldsskóla greiðir heimilið 52.500 kr. á ári í útvarpsgjald.
Við getum haft ólíkar skoðanir á því hvort ríkið eigi að reka fjölmiðil eða ekki. En það væri í það minnsta eðlilegt að gera útvarpsgjaldið gegnsærra og innheimta það með öðrum hætti. Það væri til dæmis hægt að gera með sambærilegum hætti og innheimtu bifreiðagjalda, hvort sem það væri gert einu sinni, tvisvar eða oftar á ári til að dreifa greiðslunum. Skattheimta á ekki að vera þægileg fyrir ríkið eða aðra og það er eðlilegt að hún sé með gegnsæjum hætti.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. ágúst 2019.