Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Nú finna margir fyrir því hvað umferðin er þung. Fólk er lengi á leiðinni. Stöðugur straumur í vestur á morgnana og síðan til baka síðdegis. Það er skipulagshalli í borginni og ekki batnar hann þegar stofnunum fjölgar enn frekar í miðborginni. Landspítalinn stækkar. Landsbankinn byggir og stjórnarráðsreiturinn sem brátt verður byggður er gríðarstór. Þetta veldur því að álaginu er misskipt. Og það fer vaxandi. Sums staðar eru þéttar raðir bíla. Annars staðar á sama tíma eru auðir vegir. Fólk hefur fundið á eigin skinni hvernig lokanir hafa þrengt að starfsemi og umferð. Og svo er það umferðarstýringin. Hún er í lamasessi.
Það þarf ekki að finna upp hjólið. Það er löngu komið. Það þarf að koma fólki milli staða. Lausnirnar eru til. Aðrar borgir með mun fleiri íbúa hafa tekist á við samgöngumálin með tæknina að vopni. Og það með mjög góðum árangri. Með því að nota heildstætt umferðarmódel er hægt að forgangsraða rétt og stýra umferð miklu betur. Tæknin hefur markvisst verið tekin í notkun í öllum þeim borgum sem við miðum okkur við. Hún er til staðar. Við þurfum að snjallvæða umferðina í verki, í stað þess að tala um lausnir sem eru fjarlægar og ófjármagnaðar.
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn leggja áherslu á skynsamlegar lausnir í samgöngumálum. Lausnir sem gagnast öllum þeim sem eru á leiðinni í umferðinni. Gangandi, hjólandi, jafnt sem akandi sína leið. Hver ferð skiptir máli. Það veit fólkið í borginni. Borgin þarf að gera sitt.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. ágúst 2019.