Valgerður Sigurðardóttir skrifar:
Nú þegar skólastarf er að hefjast og þúsundir barna fara aftur að stunda sína vinnu, þá ætti það að vera gleðilegt. Foreldrar, börn og starfsfólk grunnskóla Reykjavíkur ættu að vera fullir tilhlökkunar. Því miður er það ekki alls staðar svo og það er sorglegt að við borgarfulltrúar höfum verið að fá fjölda pósta bæði frá foreldrum og starfsfólki skólanna, þar sem verið er að óska eftir hjálp. Þessir póstar eiga það allir sameiginlegt að verið er að óska eftir samtali og skilningi á þeim vanda sem margir grunnskólar glíma við. Flestir þessir póstar hafa verið að berast frá skólasamfélaginu austan Elliðaáa.
Það er einfaldlega verið að fara fram á að það sé hlustað, hlustað á þá sem þekkja best til skólanna og skólastarfsins. Krafan er sú að ekki séu teknar ákvarðanir sem koma sér illa fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Það að fólk fái upplýsingar um það hvernig staðan er á framkvæmdum þar sem þær eru í gangi og koma jafnvel til með að raska skólastarfinu mjög mikið.
Umhverfið er víða óásættanlegt núna í upphafi skólaárs, framkvæmdir og skortur á framkvæmdum munu víða raska miklu í upphafi skólaárs. Það er ljóst að fjöldi skólabarna í hverfunum austan Elliðaáa mun ekki geta stundað nám við æskilegar aðstæður. Framkvæmdir standa yfir í Breiðholtsskóla, Seljaskóla og Dalskóla sem munu ekki klárast fyrir upphaf skólaárs með tilheyrandi púsli og raski fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Það kom átakanlegt neyðarkall frá Norðlingaholtsskóla, mál þeirra var ekki tekið fyrir á fundi borgarráðs eins og til stóð og því hófust ekki framkvæmdir þar. Þessar framkvæmdir áttu að verða til þess að hægt væri að taka á móti þeim fjölda barna sem þangað höfðu sótt um skólavist í haust. Þessar framkvæmdir hafa ekki farið af stað. Það á að leggja niður skólaakstur í Kelduskóla án þess að það hafi verið fjallað um það af skólaráði skólans.
Það á að vera gleðilegt að byrja í skóla, það á ekki að valda togstreitu fyrir börn, foreldra eða starfsfólk grunnskólanna. Það er ekkert mikilvægara en að hlusta á þá sem þekkja til í hverfunum enda raunveruleikinn oft allt annar en í áætlunum og excel-skjölum.