Hundruð barna í óásættanlegu skólahúsnæði
'}}

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Í dag eru skólasetningar í flestum grunnskólum Reykjavíkurborgar. Það er alltaf stór dagur þegar skólarnir byrja aftur. Líf færist í borgina og dagleg rútína hjá þúsundum skólabarna og foreldrum þeirra færist í fast form. Miðað við magnið af tölvupóstum sem við borgarfulltrúar höfum fengið frá foreldrum og starfsfólki grunnskóla Reykjavíkur síðustu mánuði þá eru ekki allir fullir tilhlökkunnar.

Ákall á að sé hlustað

Þessir tölvupóstar eiga það allir sameiginlegt að í þeim felst ákall til borgarfulltrúa um skilning á þeim vanda sem margir grunnskólar glíma við. Óskað eftir því að á foreldra og starfsfólk sé hlustað, hlustað á þá sem þekkja best til skólanna og skólastarfsins í hverju hverfi fyrir sig. Krafan er sú að ekki séu teknar ákvarðanir sem koma sér illa fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Það að fólk fái upplýsingar um það hvernig staðan er á framkvæmdum þar sem þær eru í gangi og koma jafnvel til með að raska skólastarfinu mikið.

Hundruð barna á hrakhólum

Skólaumhverfið er víða óásættanlegt núna í upphafi skólaárs, framkvæmdir og skortur á framkvæmdum munu víða raska skólastarfi. Þetta mun bitna á hundruðum Reykvískra skólabarna sem eru á hrakhólum vegna þessa. Framkvæmdir standa yfir í Ártúnsskóla, Breiðholtsskóla, Seljaskóla, Norðlingaskóla, Fossvogsskóla og Dalskóla sem munu ekki klárast fyrir upphaf skólaárs með tilheyrandi púsli og raski fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Mikli þrengsli eru í Hagaskóla og loftgæði þar eru það slæm að Vinnueftirlitið hefur gefið Reykjavíkurborg frest til 1. október til að bæta úr því. Það á að leggja niður skólaakstur í þremur skólum, mikil óánægja er með þá ákvörðun.

Laga þarf ferla og hlusta

Það á að vera gleðilegt að byrja í skóla, það á ekki að valda togstreitu eða auknu vinnuálagi á börn, foreldra eða starfsfólk grunnskólanna. Það er ekkert mikilvægara en að hlusta á þá sem þekkja til í hverfunum enda raunveruleikinn oft allt annar en í áætlunum og excel-skjölum. Það er mikilvægt að vandað sé til verka en auk þess er mikilvægt að sviðin tali saman, enda tvö svið, umhverfis- og skipulagssvið og skóla- og frístundasvið, sem fara með framkvæmdir í grunnskólum Reykjavíkur. Mikilvægt er að það ferli gangi vel fyrir sig.

Það er margt sem má laga, fyrst og fremst verður Reykjavíkurborg að tryggja það að ferlar á milli sviða séu í lagi þannig að borgin sé ekki sjálf að tefja eigin framkvæmdir og uppbyggingu. Þá er gríðarlega mikilvægt að farið sé að lögum og muna að eiga samtal við foreldra og starfsfólk um fyrirhugaðar framkvæmdir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. ágúst 2019.