Egil Þór Jónsson borgarfulltrúi skrifar:
Í síðustu viku héldu þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra blaðamannafund um aðgerðir í loftslagsmálum. Elliðaárdalurinn varð fyrir vali ráðherranna. Rétt er að velta því upp hvort staðsetningin hafi verið hrein tilviljun eða hvort ráðherrarnir hafi jafnvel verið að senda oddvita Vinstri-grænna í borgarstjórn skilaboð undir rós. Það vakti furðu mína að þau skyldu kynna þessar metnaðarfullu aðgerðir einmitt á þessum stað í Reykjavík. Þá sérstaklega í ljósi þess að tveimur dögum síðar samþykkti meirihluti borgarstjórnar deiliskipulag upp á tæpa 43 þúsund fermetra í dalnum sem Umhverfisstofnun, undirstofnun umhverfisráðherra, hafði gert alvarlegar athugasemdir við.
Að mati Umhverfisstofnunar mun ofangreind áætlun yfirtaka stóran hluta af útivistarsvæði sem nú er fyrir almenning og þrengja að vatnasviði Elliðaánna. Að auki er fjallað um þéttingu byggðar en stofnunin telur mikilvægt að hún sé framkvæmd án þess að gengið sé á græn svæði borgarinnar. Þannig telur stofnunin að með nýrri deiliskipulagstillögu sé gengið á þetta græna svæði. Niðurgrafinn hluti byggingarinnar muni skapa mikið rask og munu upplýstar byggingar rýra það útsýni sem íbúar í nágrenninu hafa nú þegar.
„Við ætlum að hlúa að grænum svæðum“
Allt þetta ferli skýtur skökku við enda stendur orðrétt í svokölluðum „meirihlutasáttmála“ Samfylkingar, Vinstri-grænna, Viðreisnar og Pírata í borgarstjórn: „Við ætlum að hlúa að grænum svæðum.“ Orð þessi eru í besta falli kaldhæðnisleg enda er þessi framkvæmd í algjörri mótsögn við sáttmála núverandi meirihlutaflokka þar sem fyrirhugaðar stórframkvæmdir eru ekki gerðar í sátt og samlyndi við náttúru og menn.
Í aðalskipulagi Reykjavíkur kemur fram að uppbygging á reitnum, Þ73, þurfi að henta vel í nálægð við útivistarsvæði, tengjast útivist, samfélagsþjónustu eða íþróttastarfsemi. Að mati Umhverfisstofnunar kemur enn fremur fram að fyrirhugaðar framkvæmdir uppfylli ekki þessar kröfur enda fellur starfsemin sem á að hýsa í glerhýsinu ekki undir samfélagsþjónustu, útivist eða íþróttastarfsemi. Um er að ræða mjög sérhæfða atvinnustarfsemi. Með samþykktu deiliskipulagi af þessu tagi er gengið á eitt dýrmætasta útivistarsvæði Reykjavíkur til að koma þar á fót umdeildu tilraunaverkefni. Er það í takt við ofuráhersluna á þéttingu byggðar, sem gerð hefur verið á kostnað grænna svæða í borginni.
Hrein ósannindi
Þrátt fyrir þau undarlegu vinnubrögð meirihluta borgarstjórnar að sniðganga þessar athugasemdir ætla þau að halda málinu til streitu. Borgarstjóri hefur talað um að búið sé að friðlýsa Elliðaárdalinn en það eru hrein ósannindi. Enn fremur hafa fulltrúar meirihlutaflokkanna ýmist sagt fyrirhugað svæði vera utan dalsins eða á jaðri hans. Hins vegar er lagt til að mörk dalsins séu skilgreind í skýrslu frá árinu 2016 um sjálfbæran Elliðaárdal, en þar kemur fram að mörkin liggja við akbraut Stekkjarbakka.
Því er ljóst að meirihluti borgarinnar ætlar að keyra málið í gegn án umræðu í borgarstjórn en málið fór fyrir borgarráð um leið og hinir hefðbundnu borgarstjórnarfundir fóru í „sumarfrí“. Svokölluð lýðræðisvinnubrögð og gegnsæi sem vinstristjórnin talar fyrir á tyllidögum eru aðeins í orði en ekki á borði. Í því ljósi er áhugavert að fletta upp í „meirihlutasáttmála“ flokkanna en þar stendur: „Við viljum auka enn frekar gagnsæi í stjórnsýslunni sem nær til allra ferla við ákvarðanatökur.“
Ljóst er að þær efasemdaraddir sem heyrst hafa vegna stórframkvæmda í dalnum eiga við rök að styðjast þegar litið er til fjölmargra þátta, m.a. umsagnar Umhverfisstofnunar. Góður bragur væri á því ef meirihlutinn í borginni tæki ákvörðun um að hætta við þessar framkvæmdir, umhverfinu og svæðinu til góða.
Yfirgangur og samráðsleysi
Afgreiðsla og málsmeðferð þessarar fyrirhuguðu framkvæmdar í Elliðaárdalnum er eitt skýrasta dæmið um virðingarleysið sem meirihlutinn hefur sýnt gagnvart íbúum borgarinnar á liðnum árum. Rísi í dalnum risavaxin gróðurhvelfing í óþökk íbúanna í kring verður hvelfingin enn ein birtingarmynd þess yfirgangs og samráðsleysis sem viðgengist hefur í stjórnartíð vinstriflokkanna í Reykjavík.
Einungis þarf að líta til síðustu 12 mánaða til að sjá dæmi um vinnubrögð sem þessi. Má þar nefna tilraunir til sameiningar leikskóla í Breiðholti og lokunar skóla í Grafarvogi, samráðsleysi við verslunareigendur, Reykvíkinga og hagsmunaaðila við lokun Laugavegar og afar umdeilt en nýsamþykkt skipulag við Furugerði. Enn fremur rímar þetta við viðbrögðin og ósannindin sem komu frá fulltrúum meirihlutans í tilsvörum vegna braggamálsins auk misheppnaðra sparnaðaraðgerða með vanrækslu á viðhaldi grunnskóla borgarinnar, svo fátt eitt sé nefnt.
Málefni Elliðaárdalsins eiga ekki að snúast um pólitík. Það ætti að vera sjálfsagt að standa vörð um þau grænu svæði Reykjavíkur sem eftir eru, en framkvæmdir af þessu tagi munu hafa óafturkræf áhrif á dalinn og rýra gildi hans sem útivistarsvæðis til framtíðar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 18.7.2019