Það má segja að einmunatíð hafi verið hjá okkur á undanförnum árum. Flest hefur gengið okkur í haginn og tíminn nýttur í að styrkja stoðirnar. Vegna þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum árum erum við vel í stakk búin til að takast á við tímabundna erfiðleika sem við blasa nú.
Stoðir samfélagsins eru sterkar, en það högg sem við tökumst nú á við er áminning um hversu mikilvægt er að fjölga stoðunum, nýta tækifærin til frekari verðmætasköpunar. Nú er rétti tíminn til að örva fjárfestingu í mikilvægum innviðum sem munu skapa frekari möguleika í atvinnulífi, styrkja byggðir landsins og efla hagvöxt á næstu árum.
Tækifærin liggja víða. Fjárfestingar í laxeldi skipta verulegu og vaxandi máli fyrir þjóðarbúið, að ekki sé talað um þau landsvæði sem finna fyrir mestu áhrifunum. Fiskeldi er ný stoð í verðmætasköpun okkar og vægi þess á eftir að vaxa mikið á næstu árum.
Spölur lauk farsælu verkefni sínu nýverið og eru nú Hvalfjarðargöngin eign þjóðarinnar. Það er löngu tímabært að stíga fleiri stór skref í samgöngumálum. Við eigum að nýta reynsluna af verkefni Spalar og hrinda í framkvæmd landsátaki í samgöngumálum á grundvelli gjaldtöku. Arðbærari framkvæmdir eru vandfundnar og gjaldtökuleiðin gerir okkur kleift að stíga stærri og betri skref en nokkru sinni áður. Efnahagsleg áhrif á þjóðarbúið væru mjög mikil til skemmri og lengri tíma. Og er þá ávinningurinn af færri umferðarslysum ótalinn.
Mikil umræða hefur átt sér stað um orkuauðlindir þjóðarinnar á undanförnum misserum. Minna hefur farið fyrir umræðu um hvernig við ætlum okkur að nýta þær auðlindir sem í sjálfu sér eru lítils virði, nema til komi skynsamleg nýting. Við þær efnahagslegu aðstæður sem nú blasa við er mikilvægt að Landsvirkjun fari án tafar í frekari framkvæmdir. Hvammsvirkjun í neðri Þjórsá er svo til fullhönnuð og búin að fara í gegnum lögformlegt ferli. Pólitískt, efnahagslega og vegna verkefnastöðu jarðvinnuverktaka og byggingafyrirtækja væri hagkvæmt að fara af stað með þessar framkvæmdir í haust.
Jafnframt verður að ráðast í stórátak í uppbyggingu á dreifikerfi raforku, en stöðugur ágreiningur um línulagnir og skortur á framtíðarsýn í uppbyggingu raforkukerfisins hefur haft skaðleg áhrif og atvinnutækifæri tapast víða um land vegna þess. Einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að koma raforku þangað. Samhliða aukinni raforkuframleiðslu og uppbyggingu dreifikerfis verður að huga að nýjum millistórum kaupendum að raforku sem víðast um landið. Uppbygging gagnavera á að vera næsta græna stóriðja okkar og um leið átak í að styrkja byggðirnar víða um land. Nauðsynlegt er að leggja nýjan sæstreng til gagnaflutninga sem fyrst, helst á næsta ári. Um leið munu mörg tækifæri skapast á þessum vettvangi.
Við ræðum gjarnan um að þjóðin sé rík af orkulindum. Í því ljósi er fáránlegt að umræða dagsins skuli hverfast um það að stutt sé í að við þurfum að kljást við raforkuskort, eins og forstjóri Landsnets hefur vakið eftirminnilega athygli á. Það er augljóst að hér verður að koma til skýr framtíðarsýn og í stað þess að ræða hvernig á að koma í veg fyrir orkuskort innan fárra ára, þurfum við að bregðast við og svara af krafti vaxandi eftirspurn eftir raforku. Raforkan er ein af grunnstoðum þjóðfélagsins og lykillinn að verðmætasköpun til skemmri og lengri framtíðar og batnandi lífskjörum þjóðarinnar.
Nú er tíminn til að hugsa stórt í arðbærum fjárfestingum og hefjast þegar handa. Við eigum að sækja fram: Sókn er besta vörnin.