„Með því að leggja fram þessa ályktun var Ísland að fylgja eftir fyrra frumkvæði sínu. Það er afar mikilvægt enda hefur það sýnt sig að ástand mannréttindamála í Filippseyjum hefur farið stigversnandi. Mannréttindi eru hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands og við hétum því þegar við tókum sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna að setja mark okkar á starfsemi ráðsins og láta til okkar taka þar sem þörf er á. Það höfum við gert meðal annars í málefnum Filippseyja, sem og gagnvart Sádi-Arabíu. Ég er ánægður með niðurstöðuna í dag og tel að með samþykkt þessarar ályktunar sé mannréttindaráðið að standa undir nafni sem helsti vettvangur umræðu um mannréttindamál í heiminum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í kjölfar þess að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag ályktun sem Ísland lagði fram í ráðinu um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum. Greint er frá málinu á vef utanríkisráðuneytisins hér.
Mannréttindaráðið lýsir með ályktuninni formlega yfir áhyggjum af ástandi mála á Filippseyjum og hvetur stjórnvöld í landinu til að stöðva aftökur á fólki sem fari fram án dóms og laga. Jafnframt að þeir sem hafi staðið fyrir slíku verði dregnir til ábyrgðar.
18 studdu tillögu Íslands, 15 sátu hjá og 14 voru á móti.