Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Friður á vinnumarkaði án efa einn mikilvægasti árangur ríkisstjórnarinnar þegar litið er yfir nýafstaðinn þingvetur. Margir töldu að hörð átök og verkföll yrði stærsta áskorun ríkisstjórnarinnar, sem hún var að vissu leyti, en niðurstaðan var sú að gerðir voru samningar á traustum grunni, með lækkun tekjuskatts og mikilvægari hagvaxtartengingu sem samþættar hagsmuni atvinnurekenda og starfsmanna enn frekar. Það var líka ánægjulegt að sjá hve sterkur samhljómur var um mikilvægi skattalækkana við gerð samninganna og það skilaði sér í skýrum áformum um lægri tekjuskatt. Þá var með samningunum lagður grunnur að vaxtalækkunum sem við sjáum strax merki um. Þessu hefur einnig verið fylgt eftir með framlengingu á skattfrjálsa séreignarsparnaðarúrræðinu.
Allt er þetta í góðu samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins, skattalækkanir og það að stuðla að fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinga með séreignarstefnunni.
Fyrrnefndar skattalækkanir koma til viðbótar við þær skattalækkanir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður staðið að með lækkun lægsta þreps tekjuskatts og því að afnema áður miðþrepið. Þá hefur auðlegðarskattur verið afnuminn, tryggingargjald lækkað og tollar og vörugjöld afnumin. Við gerum okkur þó fulla grein fyrir því að verkefninu um skattalækkanir er hvergi nærri lokið og verður líkast til aldrei. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt sitt af mörkum með málum um lækkun erfðafjárskatt, afnám stimpilgjalda o.fl. og það bíður fram á næsta þing. Það er þó rétt að minna á að við höfum náð árangri og ætlum að lækka skatta enn frekar, s.s. bankaskatt, tryggingargjald, lækka tekjuskatt frekar og þannig mætti áfram telja.
Við stöndum framarlega á fjölmörgum sviðum en við verðum að gera betur þegar kemur að umhverfi fyrirtækja. Ég fjallaði um mikilvægi einfaldara regluverks hér á sama vettvangi fyrir skömmu og það er ánægjulegt að ráðherrarnir tveir í atvinnuvegaráðuneytinu hafa sett slíka vinnu af stað. Ísland á að geta hreykt sér af því að vera meðal fremstu þjóða í umhverfi fyrirtækja sem mun stuðla að fleiri störfum, lægri verðum og auknum tekjum. Þannig mun stefna Sjálfstæðisflokksins ýta undir framfarir, nýsköpun, tækniþróun og vexti atvinnulífsins í víðu samhengi. Það mætti segja að það að halda aftur af vexti og afskiptum hins opinbera sé álíka mikilvægt og að lækka skatta.
Það er ábyrgð að sitja í ríkisstjórnarsamstarfi, þar þarf oft að mætast á miðri leið og gera málamiðlarnir. Sjálfstæðisflokkurinn mun samt ekki gefa eftir mikilvægu stefnu sína um öflugt atvinnulíf, frjálsara samfélag og framtaksmátt einstaklinganna. Það eru þessir þættir sem munu auka lífsgæði hér á landi, ekki vöxtur hins opinbera.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. júní 2019.