Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Stjórnmálamenn eiga að fara vel með það fé sem tekið er í skatt af launafólki og húseigendum. Í Reykjavík hefur verið lögð sérstök áhersla á að hækka þessa skatta og sker borgin sig úr öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Má segja að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi náð einstökum árangri í gjaldtöku á flestum sviðum. Tekjur er því ekki vandamálið. Kostnaður við rekstur borgarinnar ætti að vera hagkvæmari en hjá minni sveitarfélögum. Reyndin er önnur. Borgin er með miklu meiri kostnað á íbúa samkvæmt samanburðartölum hjá Sambandi sveitarfélaga. Borgin hefur greitt milljarða í innkaup án útboða, en miðað við úttekt innri endurskoðunar borgarinnar mætti spara allt að 22% í stórum málaflokkum með útboðum. Vöxtur stjórnkerfisins hefur farið fram úr öllum viðmiðunum og nýtt skipurit sem tók gildi í byrjun þessa mánaðar skilar engum sparnaði. Borgin hefur greitt fyrir byggingarrétt sem ekki er nýttur. Borgin hefur greitt fyrir aðstöðu einkaaðila í samkeppnisrekstri, jafnvel án fjárheimilda.
Ótrúlegast er þó að sjá þann sið að greiða starfslokagreiðslur, en það eru greiðslur umfram það sem skylda er að greiða samkvæmt samningum. Árið 2011 voru átta milljónir greiddar umfram skyldu, en 2018 var fjárhæðin komin upp í rúmar 38 milljónir. Samtals greiddi borgin yfir hundrað milljónir 2011-2018 umfram samninga. Þá eru ótaldar gríðarháar fjárhæðir í dótturfyrirtækjum borgarinnar en þar hefur verið farin sú leið ítrekað að greiða starfslokagreiðslur umfram samninga.
Allt er þetta á sömu bókina lært; borgin borgar. Það virðist vera að vinstri meirihlutinn fallni og viðreisti telji að þetta sé í góðu lagi. En borgin býr ekki til peninga, heldur tekur þá með sköttum og gjöldum af fólkinu í borginni. Borgurunum. Borgarbúar borga meira í launaskatt til borgarinnar en til ríkisins. Meira en þeir sem búa í nágrenni Reykjavíkur. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hækkuðu um 15% á þessu ári. Að óbreyttu mun fasteignamat hækka skatta á húsnæði í Reykjavík um 4,3% að jafnaði á næsta ári. Langt umfram viðmið kjarasamninga.
Akraneskaupstaður hefur ákveðið að bregðast við þessu og lækka álagninguna. Frá Reykjavík heyrist ekki neitt, enda stefnan sú að lækka ekki. Hér þarf að breyta um kúrs. Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn hefur ítrekað lagt til að álögur minnki frá því sem nú er. Þær tillögur hafa því miður verið felldar. Sá plagsiður að borgin borgi á að víkja fyrir því að vel sé farið með skattfé borgaranna.
Nú þegar hagvaxtarskeiðið er búið er enn mikilvægara en áður að stilla gjöldum og sköttum í hóf. Borgarbúar eiga það skilið.
Birtist Morgunblaðinu 24. júní 2019