Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttur ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Íslendingum finnst alltaf áhugavert að tala um veðrið. Þegar ættingar eða vinir hringja á milli landsvæða er algengt að spurt sé um veðrið í upphafi eða um mitt símtal. Við deilum myndum á samfélagsmiðlum þegar fjallshlíðarnar verða gráar, þegar bílastæðin fyllast af snjó og þegar úfinn sjórinn æðir yfir brimgarðana í mesta rokinu – og svo auðvitað þegar sólin skín og hitinn nær tveggja stafa tölu. Þrátt fyrir að við þekkjum íslenska veðrið eins og lófann á okkur kemur það okkur stöðugt á óvart.
Við höfum flest fengið að njóta einstakrar blíðu síðustu vikur. Það lifnar yfir öllu. Náttúran skartar sínu og flestir verða glaðlegri og léttari á fæti. Við fyllumst jákvæðni og bjartsýni og njótum samveru hvert við annað.
Líkt og með veðrið skiptast á skin og skúrir í lífi þjóðar. Oftast er meðvindur en á stundum blæs á móti en alltaf komumst við í gegnum storminn.
Með baráttuanda, smá vott af kæruleysi í bland við ákveðna þrjósku höfum við sem þjóð náð miklum árangri á svo mörgum sviðum – og við höldum áfram að sækja fram. Þó svo að stjórnmálaumræðan endurspegli ekki alltaf þann árangur sem við höfum náð, þá er staðreyndin sú að efnahagur landsins hefur aldrei verið sterkari, skuldir heimilanna ekki verið lægri í 20 ár, lífsgæði hér á landi eru með þeim mestu í heimi og þannig mætti áfram telja. Og Ísland er friðsamasta land í heiminum.
Lífsins gæði verða ekki öll mæld í efnislegum þáttum. Það eru ómetanleg gæði sem felast í hamingju þjóðarinnar þegar við náum góðum árangri í íþróttum. Það er óhætt að segja að landsliðið okkar í knattspyrnu hafi fært okkur meiri gleði í þessari viku en stjórnmálin gerðu svo tekið sé dæmi.
Og það er fleira sem endurspeglar þau verðmæti sem við búum yfir sem þjóð. Nær öll kvöld ársins eru leikhúsin full af fólki þar sem okkar frábæru listamenn flytja hvert stórverkið á fætur öðru. Við eigum, að því er stundum virðist óþrjótandi uppsprettu tónlistarmanna sem glæða sálir með tónlist sinni, við eigum heimsklassa rithöfunda, færa vísindamenn og þannig mætti lengi áfram telja.
Við erum rík þjóð á efnislegan mælikvarða en hlutfallslega erum við líklega ríkust allra þjóða mælt í óefnislegum gæðum. Líkt og með góða veðrið er það eitthvað sem eigum að vera þakklát fyrir. Við vitum að veðrið breytist en listir og menning hjálpa okkur að komast í gegnum mestu stormana – og munu gera áfram. Íþróttir, listir og menning er ómissandi krydd í tilveru okkar Íslendinga.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. júní 2019.