Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Fyrir bara nokkrum árum síðan voru málefni norðurslóða fyrst og fremst málefni vísindamanna og sérvitringa. Svo er ekki lengur. Mikilvægi norðurslóða hefur farið mjög vaxandi samfara hlýnun loftlags og bráðnun hafíss. Mannfjöldaþróun og alþjóðavæðing hefur og mun í auknum mæli valda sókn inn á svæðið, auknir möguleikar til flutningsleiða og auðlindanýtingar verða til. Málefni norðurskautsins hafa því fengið aukið vægi í alþjóðastjórnmálum. Ísland er norðurslóðaríki og við eigum gríðarlega ríkra hagsmuna að gæta á norðurslóðum.
Gæta þarf að viðkvæmu vistkerfi norðurslóða og mikilvægt að þróunin á svæðinu sé friðsæl og sjálfbær. Norðurslóðamál eru í senn utanríkismál en líka umhverfismál. Þjóð sem í aldanna rás hefur átt allt sitt undir fiskveiðum verður að leggja mikla áherslu á heilbrigði hafsins. Við höfum séð áhrif loftlagsbreytinga á fiskgengd og mikilvægt er að rannsaka enn meira, þekkja og vita hvaða er í vændum ásamt því að leita leiða til að draga úr fyrirsjáanlegum breytingum.
Öll helstu ríki heims hafa markað sér stefnu í norðurslóðamálum óháð því hvort ríkin séu norðurslóðaríki eða ekki, sem verður að teljast sérstakt en sýnir mikilvægi svæðisins. Þannig hafa Evrópusambandið, Kína og Japan mótað sér slíka stefnu en enginn þessara aðila á sæti í Norðurskautsráðinu þó sum eigi þar áheyrnaraðild. Hagsmunir stórframleiðenda í Asíu sem vilja koma vörum sínum á markað í Evrópu eru miklir við opnun siglingaleiða um norðurskautið en þannig verður flutningsleiðin allt að 40% styttri. Þannig kunna að skapast tækifæri á Íslandi t.d. með umskipunarhöfn eins og nú er verið að skoða í Finnafirði. En tækifærin liggja ekki síður á sviði rannsókna, vísinda og nýsköpunar.
Ísland ætti að mínu viti að verða mekka vísindarannsókna á málefnum norðurslóða og heimahöfn fyrir nýsköpun á sviði umhverfis- og norðurslóðamála. Utanríkisstefna Íslands tekur á þessum þáttum. Þar er ítrekað mikilvægi þess að auka þátttöku íslenskra vísinda- og fræðimanna í fjölbreyttu rannsóknastarfi á norðurslóðum með sérstakri rannsóknaráætlun í samstarfi við háskóla og rannsóknastofnanir.
Sjálfbærni í fyrirrúmi í formennskutíð Íslands
Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur ríkisstjórna þeirra landa sem liggja á eða að norðurslóðum. Þetta eru auk Íslands, Bandaríkin, Kanada, Rússland, Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland. Guðlaugur Þór utanríkisráðherra tók í síðustu viku við formennsku í ráðinu til ársins 2021. Í því fellst bæði ábyrgð en jafnframt tækifæri fyrir Ísland. Formennskuáætlun Íslands ber heitið „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“. Þar er lögð megináhersla á þrjú málefnasvið: málefni hafsins, loftslagsmál og grænar orkulausnir, og fólkið og samfélög á norðurslóðum.
Af einstökum verkefnum má nefna að Ísland hyggst beina sjónum sérstaklega að bláa lífhagkerfinu þar sem skoðað er hvernig nýta megi líftækni og nýsköpun til að stórauka verðmæti sjávarafurða og draga úr lífrænum úrgangi frá vinnslu sjávarfangs. Einnig verður lögð sérstök áhersla á baráttu gegn plastmengun í höfunum auk þess sem áfram verður unnið að bættu öryggi sjófarenda í samstarfi við Strandgæsluráð norðurslóða sem Landhelgisgæslan leiðir næstu tvö árin.
Ísland hyggst ennfremur halda áfram með verkefni sem miðar að því að leita grænna orkulausna fyrir einangruð norðurslóðasamfélög, auk þess að beita sér fyrir verðugum sessi jafnréttismála á vettvangi Norðurskautsráðsins og kynna íslenska aðferðafræði í forvörnum við áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna. Ísland mun einnig beita sér fyrir auknu samstarfi Norðurskautsráðsins við Efnahagsráð norðurslóða, en það mun einnig lúta íslenskri formennsku næstu tvö árin.
Þungamiðjan í starfi Norðurskautsráðsins er í gegnum sex vinnuhópa og hefur framlag þeirra til aukinnar þekkingar á umhverfi, lífríki og samfélögum á norðurslóðum verið mikilvægt. Fyrir okkur er einnig mikilvægt að skrifstofur tveggja þessara vinnuhópa, annarsvegar um verndun lífríkis og hins vegar um málefni hafsins, eru staðsettar hér á landi nánar tiltekið á Akureyri. Hægt er að tala um Akureyri sem höfuðborg okkar í Norðurslóðamálum, en Háskólinn á Akureyri hefur byggt upp nám og rannsóknir á þessu málefnasviði.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 13. maí 2019.