Óli Björn Kárason alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Ég ber virðingu fyrir fólki sem berst fyrir sannfæringu sinni með rökum og styðst við staðreyndir. Hvort ég er sammála eða ekki, skiptir engu. Oft hef ég heillast af þeim sem eru harðir í horn að taka í baráttu fyrir djúpstæðri sannfæringu. Þeir sækja fram af rökfestu, þekkingu og staðreyndum.
Opið og frjálst samfélag byggist á rökræðunni, skoðanaskiptum – oft hörðum málefnalegum átökum. Einmitt vegna þessa eru níðskrif, dylgjur, aðdróttanir og rógburður hættuleg – grafið er undan stoðum lýðræðis.
Því miður hefur tekist að eitra nauðsynlega umræðu um þriðja orkupakkann, svokallaða. Reynt er að drepa rökræðuna. Staðreyndir eru hundsaðar ef þær henta ekki „málstaðnum“. Gífuryrðin, blekkingarnar og falsfréttirnar lita umræðuna.
Eðlilegar efasemdir
Þeir sem efast um ágæti þess að innleiða þriðju orkutilskipunina í íslenskan rétt hafa sumir þurft að sitja undir ásökunum um þjóðernispoppúlisma. Þó hafa þeir lítið til sakar unnið annað en vilja gæta hagsmuna Íslands. Merkimiða-pótilík af þessu tagi er vísbending um fátæklega hugsun.
Eðlilegt er að margir hafi áhyggjur þegar kemur að skipulagi raforkumála. Þess vegna er nauðsynlegt að spyrja gagnrýnna spurninga áður en tekin er ákvörðun um hvort innleiða eigi þriðju orkutilskipunina:
- Erum við Íslendingar með einhverjum hætti að afsala okkur eignaryfirráðum og nýtingaryfirráðum yfir orkuauðlindunum?
- Eru líkur á því að við innleiðingu þriðju orkutilskipunarinnar skerðist samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs eða lífskjör almennings svo sem með hækkun raforkuverðs?
- Erum við Íslendingar, beint eða óbeint, að skuldbinda okkur til að samþykkja lagningu sæstrengs?
Svör við þessum spurningum hafa vegið þyngst í mínum huga. Við öllum þessum spurningum var svarið nei. Þegar við bætist að settur verður lögformlegur fyrirvari um að ekki verði lagður sæstrengur nema með samþykki meirihluta Alþingis, hef ég ekki lengur þær áhyggjur sem ég hafði. Þetta þýðir hins vegar ekki í mínum huga að rökræðunni sé lokið – langt í frá. Nú eru þau þingmál, sem tengjast þriðja orkupakkanum í þinglegri meðferð og til umfjöllunar í nefndum þingsins. Leitað verður umsagnar fjölda aðila, sérfræðinga, hagsmunasamtaka og fyrirtækja. Allir geta sent sína umsögn. Fjöldi manna verður boðaður á fundi nefnda til að tryggja vel ígrundaða meðferð á máli sem áður hefur komið til kasta þingsins, verið afgreitt og tvennar kosningar haldnar eftir það.
Samvinna og samstarf við aðrar þjóðir er okkur mikilvæg en við getum aldrei gengið þannig fram að við afsölum okkur fullum yfirráðum yfir auðlindunum, orkuauðlindunum, fallvötnunum og jarðvarma. Í umræðum um í þingsal um orkutilskipunina benti ég á að náttúran væri okkur Íslendingum gjöful, „þó að hún geti stundum verið harðneskjuleg. Við höfum forskot á ýmsum sviðum, aðgangur að hreinni og hlutfallslega ódýrri orku eykur samkeppnishæfni atvinnulífsins og styrkir ímynd landsins sem perlu náttúru og hreinleika. Það er alveg ljóst, og um það hljótum við að vera öll sammála, að ein dýrmætasta eign, auðlind okkar Íslendinga er hrein orka.“
Rógburður, staðleysur og spuni
Ef til vill hefði það ekki átt að koma á óvart hversu grimmdin og virðingarleysið fyrir skoðunum annarra er mikið þegar kemur að þriðja orkupakkanum. En það er merkilegt hve sumir, jafnvel sæmilega málsmetandi menn, eru gjarnir á að forðast málefni, brjóta þau til mergjar og takast á með rökræðum við þá sem eru annarrar skoðunar. Þeim fellur betur að nota klisjur og innantóma frasa.
Eitt skýrasta merki rökþrots er þegar gripið er til hálfsannleika og ósanninda. Spunakarlar hafa lengi trúað því að ef nægilega lengi sé hamrað á einhverju muni almenningur, hægt og bítandi, líta á staðleysur sem staðföst sannindi.
„Þið þingmenn sem ætlið að styðja þetta O3 mál, verðið taldir landráðamenn,“ skrifar andstæðingur orkupakkans á fésbókarsíðu samherja sinna. „Hrein landráð að samþykkja þennan pakka,“ segir annar. Sá þriðji heldur því fram að í öðrum löndum sé eftirfarandi setning notuð yfir slíka einstaklinga: „Enemies of the state.“
Ráðherra er sagður vitleysingur og hugsi aðeins um „eigin vasa og pólitíska félaga“. Falsfréttum er komið í loftið um gríðarlega fjárhagslega hagsmuni af því að innleiða orkutilskipunina. „Bófi eins og allir hinir pólitíkusarnir,“ er dómur sem er felldur og því haldið fram að viðkomandi sé „lygari“.
Nafngreindir ráðherrar eru „aðal-gangsterar“ en þingmenn eru „heiladauðir“. Einn er á því að á Alþingi sitji „glæpamenn“.
Orðræðan er orðin að keppni um mestu gífuryrðin, dylgjurnar og svívirðingarnar. Hæfileikinn til að laða fólk við fylgis við málstað er aukaatriði. Engin leið er að eiga orðastað, skiptast á skoðunum og rökræða við fólk sem dregur aðra niður í svað með brigslum um landráð, sviksemi, blekkingar og glæpamennsku.
Við Íslendingar höfum ákveðið að nýta fullveldi okkar til að eiga samvinnu við aðrar þjóðir – samvinnu sem er okkur lífsnauðsynleg og er undirstaða góðra lífskjara. Alþjóðleg samvinna er ekki einstefna, þar sem við fáum allt fyrir ekkert. Það er hins vegar nauðsynlegt að við séum gagnrýnin, gætum að hagsmunum lands og þjóðar. Ekkert er yfir gagnrýni hafið og allra síst EES-samningurinn með öllum sínum kostum en einnig göllum. En okkur verður ekkert ágengt og vinnum engum gagn með meinyrðum, dylgjum og falsi. Þá festumst við í vef öfganna og komumst ekkert áfram.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. apríl 2019.