Heiladauðir landráðamenn og bófar
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Ég ber virðingu fyr­ir fólki sem berst fyr­ir sann­fær­ingu sinni með rök­um og styðst við staðreynd­ir. Hvort ég er sam­mála eða ekki, skipt­ir engu. Oft hef ég heill­ast af þeim sem eru harðir í horn að taka í bar­áttu fyr­ir djúp­stæðri sann­fær­ingu. Þeir sækja fram af rök­festu, þekk­ingu og staðreynd­um.

Opið og frjálst sam­fé­lag bygg­ist á rök­ræðunni, skoðana­skipt­um – oft hörðum mál­efna­leg­um átök­um. Ein­mitt vegna þessa eru níðskrif, dylgj­ur, aðdrótt­an­ir og róg­b­urður hættu­leg – grafið er und­an stoðum lýðræðis.

Því miður hef­ur tek­ist að eitra nauðsyn­lega umræðu um þriðja orkupakk­ann, svo­kallaða. Reynt er að drepa rök­ræðuna. Staðreynd­ir eru hundsaðar ef þær henta ekki „málstaðnum“. Gíf­ur­yrðin, blekk­ing­arn­ar og fals­frétt­irn­ar lita umræðuna.

Eðli­leg­ar efa­semd­ir

Þeir sem ef­ast um ágæti þess að inn­leiða þriðju orku­til­skip­un­ina í ís­lensk­an rétt hafa sum­ir þurft að sitja und­ir ásök­un­um um þjóðern­ispop­púl­isma. Þó hafa þeir lítið til sak­ar unnið annað en vilja gæta hags­muna Íslands. Merkimiða-pótilík af þessu tagi er vís­bend­ing um fá­tæk­lega hugs­un.

Eðli­legt er að marg­ir hafi áhyggj­ur þegar kem­ur að skipu­lagi raf­orku­mála. Þess vegna er nauðsyn­legt að spyrja gagn­rýnna spurn­inga áður en tek­in er ákvörðun um hvort inn­leiða eigi þriðju orku­til­skip­un­ina:

  • Erum við Íslend­ing­ar með ein­hverj­um hætti að af­sala okk­ur eign­ar­yf­ir­ráðum og nýt­ing­ar­yf­ir­ráðum yfir orku­auðlind­un­um?
  • Eru lík­ur á því að við inn­leiðingu þriðju orku­til­skip­un­ar­inn­ar skerðist sam­keppn­is­hæfni ís­lensks at­vinnu­lífs eða lífs­kjör al­menn­ings svo sem með hækk­un raf­orku­verðs?
  • Erum við Íslend­ing­ar, beint eða óbeint, að skuld­binda okk­ur til að samþykkja lagn­ingu sæ­strengs?

Svör við þess­um spurn­ing­um hafa vegið þyngst í mín­um huga. Við öll­um þess­um spurn­ing­um var svarið nei. Þegar við bæt­ist að sett­ur verður lög­form­leg­ur fyr­ir­vari um að ekki verði lagður sæ­streng­ur nema með samþykki meiri­hluta Alþing­is, hef ég ekki leng­ur þær áhyggj­ur sem ég hafði. Þetta þýðir hins veg­ar ekki í mín­um huga að rök­ræðunni sé lokið – langt í frá. Nú eru þau þing­mál, sem tengj­ast þriðja orkupakk­an­um í þing­legri meðferð og til um­fjöll­un­ar í nefnd­um þings­ins. Leitað verður um­sagn­ar fjölda aðila, sér­fræðinga, hags­muna­sam­taka og fyr­ir­tækja. All­ir geta sent sína um­sögn. Fjöldi manna verður boðaður á fundi nefnda til að tryggja vel ígrundaða meðferð á máli sem áður hef­ur komið til kasta þings­ins, verið af­greitt og tvenn­ar kosn­ing­ar haldn­ar eft­ir það.

Sam­vinna og sam­starf við aðrar þjóðir er okk­ur mik­il­væg en við get­um aldrei gengið þannig fram að við af­söl­um okk­ur full­um yf­ir­ráðum yfir auðlind­un­um, orku­auðlind­un­um, fall­vötn­un­um og jarðvarma. Í umræðum um í þingsal um orku­til­skip­un­ina benti ég á að nátt­úr­an væri okk­ur Íslend­ing­um gjöf­ul, „þó að hún geti stund­um verið harðneskju­leg. Við höf­um for­skot á ýms­um sviðum, aðgang­ur að hreinni og hlut­falls­lega ódýrri orku eyk­ur sam­keppn­is­hæfni at­vinnu­lífs­ins og styrk­ir ímynd lands­ins sem perlu nátt­úru og hrein­leika. Það er al­veg ljóst, og um það hljót­um við að vera öll sam­mála, að ein dýr­mæt­asta eign, auðlind okk­ar Íslend­inga er hrein orka.“

Róg­b­urður, staðleys­ur og spuni

Ef til vill hefði það ekki átt að koma á óvart hversu grimmd­in og virðing­ar­leysið fyr­ir skoðunum annarra er mikið þegar kem­ur að þriðja orkupakk­an­um. En það er merki­legt hve sum­ir, jafn­vel sæmi­lega máls­met­andi menn, eru gjarn­ir á að forðast mál­efni, brjóta þau til mergjar og tak­ast á með rök­ræðum við þá sem eru annarr­ar skoðunar. Þeim fell­ur bet­ur að nota klisj­ur og inn­an­tóma frasa.

Eitt skýr­asta merki rökþrots er þegar gripið er til hálfsann­leika og ósann­inda. Spuna­karl­ar hafa lengi trúað því að ef nægi­lega lengi sé hamrað á ein­hverju muni al­menn­ing­ur, hægt og bít­andi, líta á staðleys­ur sem staðföst sann­indi.

„Þið þing­menn sem ætlið að styðja þetta O3 mál, verðið tald­ir landráðamenn,“ skrif­ar and­stæðing­ur orkupakk­ans á fés­bók­arsíðu sam­herja sinna. „Hrein landráð að samþykkja þenn­an pakka,“ seg­ir ann­ar. Sá þriðji held­ur því fram að í öðrum lönd­um sé eft­ir­far­andi setn­ing notuð yfir slíka ein­stak­linga: „Enemies of the state.“

Ráðherra er sagður vit­leys­ing­ur og hugsi aðeins um „eig­in vasa og póli­tíska fé­laga“. Fals­frétt­um er komið í loftið um gríðarlega fjár­hags­lega hags­muni af því að inn­leiða orku­til­skip­un­ina. „Bófi eins og all­ir hinir póli­tík­us­arn­ir,“ er dóm­ur sem er felld­ur og því haldið fram að viðkom­andi sé „lyg­ari“.

Nafn­greind­ir ráðherr­ar eru „aðal-gangster­ar“ en þing­menn eru „heila­dauðir“. Einn er á því að á Alþingi sitji „glæpa­menn“.

Orðræðan er orðin að keppni um mestu gíf­ur­yrðin, dylgj­urn­ar og sví­v­irðing­arn­ar. Hæfi­leik­inn til að laða fólk við fylg­is við málstað er auka­atriði. Eng­in leið er að eiga orðastað, skipt­ast á skoðunum og rök­ræða við fólk sem dreg­ur aðra niður í svað með brigsl­um um landráð, svik­semi, blekk­ing­ar og glæpa­mennsku.

Við Íslend­ing­ar höf­um ákveðið að nýta full­veldi okk­ar til að eiga sam­vinnu við aðrar þjóðir – sam­vinnu sem er okk­ur lífs­nauðsyn­leg og er und­ir­staða góðra lífs­kjara. Alþjóðleg sam­vinna er ekki ein­stefna, þar sem við fáum allt fyr­ir ekk­ert. Það er hins veg­ar nauðsyn­legt að við séum gagn­rýn­in, gæt­um að hags­mun­um lands og þjóðar. Ekk­ert er yfir gagn­rýni hafið og allra síst EES-samn­ing­ur­inn með öll­um sín­um kost­um en einnig göll­um. En okk­ur verður ekk­ert ágengt og vinn­um eng­um gagn með meinyrðum, dylgj­um og falsi. Þá fest­umst við í vef öfganna og kom­umst ekk­ert áfram.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. apríl 2019.