Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:
Íbúar Grafarvogs hafa fengið fréttir úr ráðhúsinu. Þegar fréttir berast neðan úr ráðhúsi bera þær venjulega ekki með sér fagnaðarerindið til íbúa. Meirihlutinn sýnir Grafarvogi eingöngu áhuga þegar skera á niður og núna á að skera þjónustu sem sveitarfélögum ber lögbundin skylda til þess að veita. Það á að loka einum skóla og hringla með þrjá aðra þannig að yfir helmingur barna í norðanverðum Grafarvogi getur ekki gengið í sinn hverfisskóla. Raunar geta þau ekki heldur bókstaflega gengið í skóla því það mun taka þau um hálfa klukkustund að komast í sinn skóla. Á þeirri göngu munu þau fara fram hjá hverfisskólanum sínum og yfir umferðarþungar götur. Allt í nafni betri þjónustu við foreldra og börn í hverfunum.
Ef ekki væri verið að bruðla með skattfé okkar í gæluverkefni væri þessi staða ekki uppi. Reykjavíkurborg, sem á að vera leiðandi í því að veita góða þjónustu, er með þessu að marka ákveðin spor sem ekkert annað sveitarfélag hefur stigið. Að loka hverfisskóla í fullum rekstri. En við skulum samt öll muna að það er gert af því Reykjavíkurborg er að veita með þessu miklu betri þjónustu. Þvílík firra, að reyna að matreiða þetta ofan í íbúa, foreldra og börn með þessum hætti.
Íbúar við Kelduskóla – Korpu héldu fjölmennan fund. Töluverður fjöldi borgarfulltrúa var mættur og þar gátu íbúar sagt sína skoðun. Það var mikill hitafundur og öllum borgarfulltrúum sem þarna voru ætti að vera það ljóst að foreldrar vilja þetta alls ekki.
Íbúar afhentu á þessum fundi tvö þúsund undirskriftir þar sem foreldrar og íbúar mótmæltu þessum aðgerðum og óskuðu eftir því að ekki yrði farið í þessar breytingar. Fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn skýrðu þá frá því að stór samráðshópur hefði verið skipaður og hefði hann hafið sína vinnu. Í honum eru fulltrúar allra aðila, líka foreldra. Það sem meirihlutinn gerir sér samt ekki grein fyrir er að í þessum hópi eru tveir foreldrar úr þessum fjórum skólum og annar er jafnframt starfsmaður í einum af skólunum. Starfsmaður sem á allt sitt undir borginni. Þannig er samráðið við íbúa og foreldra í norðanverðum Grafarvogi og enginn trúir því að einhver önnur niðurstaða komi úr hópnum en sú sem borgin hefur þegar ákveðið. Því þannig vann síðasti meirihluti og enginn trúir því að eitthvað hafi breyst í vinnubrögðum borgarinnar. Vonandi hef ég rangt fyrir mér, vonandi verður hlustað, vonandi er samráðið af heilindum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. apríl 2019.