Ísland tók þátt í stofnun mannréttindasjóðs Alþjóðabankans
'}}

„Það er okkur mikil og einlæg ánægja en jafnframt skylda að taka þátt í stofnun þessa nýja sjóðs. Við erum stolt af því að vera á meðal stofnenda hans,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í ávarpi sínu hjá Alþjóðabankanum í gærkvöldi, en vorfundir bankans standa nú yfir. Í ávarpi sínu ræddi Guðlaugur Þór einnig um stofnun nýs mannréttindasjóðs Alþjóðabankans sem Ísland er stofnaðili að ásamt Noregi, Finnlandi og Hollandi.

Ísland leggur áherslu á mannréttindamál í tvíhliða samstarfi sínu við Alþjóðabankann og nær það aftur til ársins 2006 þegar Ísland hóf að leggja fjárframlög til Norræna mannréttindasjóðsins. Á þessu ári var ákveðið að stofna nýjan mannréttindasjóð (e. Human Rights and Development Trust Fund, HRDTF).

Á vef utanríkisráðuneytisins segir: „Honum er ætlað að stuðla að öflun þekkingar, fræðslu og verkefnainnleiðingar á sviði mannréttinda þar sem áhersla er lögð á tengsl málaflokksins við starfsemi og rekstur bankans, meðal annars í óstöðugum ríkjum og á átakasvæðum. Sjóðurinn byggist á nýrri og metnaðarfullri mannréttindanálgun í takt við viðmið Sameinuðu þjóðanna.“

Utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægi mannréttinda í þróunarsamstarfi í ávarpi sínu í gærkvöldi. Hann fagnaði tilkomu sjóðsins í því samhengi og minntist einnig á setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Sagði hann Ísland halda áfram að vinna með alþjóðlegum stofnunum að framgangi mannréttinda.

Sjá nánar í frétt á vef utanríkisráðuneytisins hér.