Þingsályktunartillaga um innleiðingu þriðja orkupakkans, sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mælti fyrir á Alþingi í dag, felur í sér að ekki verður lagður rafstrengur til Íslands nema með sérstöku samþykki Alþingis.
Guðlaugur Þór mælti í dag fyrr í dag fyrir tillögunni á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri séu fyrir hendi milli Íslands og orkumarkaðar Evrópusambandsins. Ákvæði þriðja orkupakkans um slík grunnvirki, sem felast m.a. í því að koma á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER), eiga því ekki við á Íslandi og hafa ekki þýðingu hér á landi.
„Þetta þýðir einfaldlega að hin umdeildu ákvæði þessarar reglugerðar hafa enga þýðingu og koma ekki til framkvæmda hér á landi fyrr en og ef Alþingi ákveður að Ísland tengist innri raforkumarkaði ESB,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni á Alþingi í dag.
Hann sagði margt hafa verið rætt og ritað á sl. ári um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn. „Ekki einungis var málið í samráðsferli við þingnefndir Alþingis, í samræmi við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála frá 2014-2016, heldur gerðu utanríkisráðherrar á hverjum tíma grein fyrir málinu og stöðu þess í árlegum skýrslum utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál,“ sagði Guðlaugur.
„Á síðustu mánuðum hefur komið fram gagnrýni á málið sem ég hef séð ástæðu til að taka alvarlega. Sú gagnrýni á reyndar ekkert skylt við þær linnulausu rangfærslur og útúrsnúninga sem því miður hafa einkennt almenna umræðu um málið,“ sagði hann.
„Sú málefnalega gagnrýni sem ég er að vísa til lýtur að því hvort upptaka þeirrar löggjafar sem felst í þriðja orkupakkanum fari í bága við stjórnarskrá. Þar hefur verið sérstaklega vísað til þess að ákvæði reglugerðar (EB) nr. 713/2009, um að komið verði á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER), feli í sér framsal á ríkisvaldi sem ekki standist stjórnarskrá,“ sagði Guðlaugur og bætti við að stjórnvöld hefðu tekið þessar áhyggjur og efasemdir alvarlega.
„Það er mín eindregna skoðun að við höfum unnið heimavinnu okkar vel, eins og tillagan til þingsályktunar og fylgiskjöl bera glöggt merki. Við höfum hlustað á þá gagnrýni sem á sér málefnalegar forsendur og niðurstaðan er sú að allir fræðimenn sem að málinu koma eru nú sammála um að innleiðing þriðja orkupakkans með þeim hætti sem hér er lagt til, stenst fyllilega íslenska stjórnskipan,“ sagði hann og bætti við að það væri honum til efs að nokkuð annað EES-mál hafi verið reifað jafn vel í þinginu og jafn vel undirbúið af hálfu framkvæmdavaldsins eins og þetta mál.
Sameiginlegur skilningur með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins
Í lok mars átti Guðlaugur Þór viðræður við framkvæmdastjóra orkumála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og í kjölfarið var gefin út sameiginleg fréttatilkynning Evrópusambandsins og íslenskra stjórnvalda um sameiginlegan skilning á þeirri sérstöðu sem Ísland njóti gagnvart sameiginlegum orkumarkaði.
Í tilkynninguynni kemur m.a. fram að raforkukerfi Íslands sé sem stendur einangrað kerfi og ekki tengt við raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis innri markaðar ESB. Í því ljósi hafi stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur sé til staðar.
„Það kemur skýrt fram í tilkynningunni að gildandi ákvæði þriðja orkupakka ESB hafi engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og ákvörðunarvald yfir nýtingu og stjórnun þeirra. Ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni.
Hér má horfa á Guðlaug Þór ræða 3. orkupakkann í Kastljósi á Ríkisútvarpinu.
Hér má finna svör við ýmsum spurningum um þriðja orkupakkann.