Ísfirðingar fylltu hótelið
'}}

Húsfyllir var á Hótel Ísafirði á súpufundi í hádeginu í dag hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem boðað var til í tilefni af hringferð þingflokksins. Ísafjörður er 45. viðkomustaður þingflokksins í ferðinni.

Á fundinum ræddu menn um allt það sem skiptir máli á Vestfjörðum og voru öll þau mál sem fundarmenn vildu ræða undir. Vestfirðingar eru óhræddir við að tala hreint út um hlutina og óhætt er að segja að fiskeldismál, samgöngur og raforkuöryggi hafi verið mál málanna. Fjölmörg önnur mál voru þó einnig rædd s.s. velferðarmál, kjarasamningar, staða ferðaþjónustunnar, flugvallarmál o.fl.

Að fundinum loknum fór þingflokkurinn í heimsókn til Vesturverks og ræddi málefni Hvalárvirkjunar.

Næsti fundur þingflokksins er á Flateyri og síðan verður komið við á Suðureyri. Á morgun mun þingflokkurinn heimsækja fyrirtæki á Bíldudal og halda opna fundi á Tálknafirði og Patreksfirði.

Alls mun þingflokkurinn sækja heim rúmlega 50 staði á landinu, ýmist á opnum fundum eða með vinnustaðaheimsóknum.

Nánari dagskrá ferðarinnar má finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem einnig verða birtar fréttir úr hringferðinni sem og á samfélagsmiðlum.