Á réttri leið
'}}

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Á síðustu vikum höfum við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins ferðast vítt og breitt um landið, haldið fundi og heimsótt fyrirtæki. Fundaherferðin fékk nafnið #áréttrileið. Við höfum verið að  hitta fólk á heimavelli og ræða þau mál sem skiptir fólkið mestu.

Við erum langt komin í yfirferð okkar um landið og ferðin hefur tekist einstaklega vel. Alls munum við heimsækja yfir 50 staði á landinu. Þetta er einstakt tækifæri fyrir okkur þingmenn til að eiga í beinum og milliliðalausum samskiptum við kjósendur og vonandi líka gott tækifæri fyrir kjósendur að koma sínum hugðarefnum á framfæri við þingmenn og ráðherra. Hefð er fyrir því að þingmenn noti kjördæmaviku til að heimsækja fyrirtæki og halda fundi í sínu kjördæmi, en óþekkt er að þingflokkurinn allur fari saman í fundaferð eins og þessa.

Opið spjall þar sem allir fá notið sín

Á fundum okkar höfum við lagt áherslu á persónuleg samtöl þingmanna við fundargesti sem leiðir af sér fjölbreyttar og skemmtilegar umræður þar sem allir fá tækifæri til að koma sínum skoðunum, álitum og hugrenningum á framfæri. Heilt yfir myndi ég segja að fundargestir hafi verið jákvæðir og finni vel fyrir því hversu vel hefur gengið hjá íslensku þjóðinni á síðustu misserum. Það virðist nefnilega stundum gleymast í dægur umræðunni hversu ótrúlega gott við Íslendingar höfum það. En auðvitað er á nægu að taka þegar umræðan snýr að því hvað er hægt að gera enn betur.

Helstu málin – samgöngur alls staðar á dagskrá

Samgöngumál eru alls staðar á landinu til umræðu, á höfuðborgarsvæðinu eru íbúar orðnir langþreyttir á umferðaröngþveiti, svifryksmengun og skorti á öflugri almenningssamgöngum. Á landsbyggðinni snúa samgöngumálin frekar að öryggi, fækkun einbreiðra brúa, jarðgangna og malbikun vega. Atvinnumálin eru meira rædd á landsbyggðinni sérstaklega þar sem atvinnulífið er tiltölulega fábrotið. Ferðaþjónustan hefur svo sannalega breytt miklu og alveg ljóst að herferðin Ísland allt árið hefur svo skilað sínu. En kjaraviðræður og yfirvofandi verkföll hræða alla og óhætt að segja að hræðslan við afleiðingar harðra kjaradeilna er mikil. Raforku- og fjarskiptamál eru risa byggðamál og hreint út sagt ótrúlegt að raforkuöryggi er ekki alltaf  til staðar og skortur á raforku hamlar atvinnuuppbyggingu. Heilbrigðismál brenna heldur meira á landsbyggðinni og þá snýr það helst að aðgengi sem oft á tíðum er erfitt. En umræðan hefur farið vítt og breitt og einnig mikill áhugi á að ræða alþjóðamál, umhverfismál og efnahagsmál í stórum dráttum.

Það er allavega ljóst að við þingmenn höfum haft bæði gagn og gaman af þeim heimsóknum sem við höfum átt hingað til, enda hefur okkur alls staðar verið vel tekið. Takk fyrir okkur! Ég hlakka til að klára hringferðina en Vestfirðir og Vestmannaeyjar verða okkar síðasta stopp.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2019.