Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Talið er að það kosti að jafnaði 4 krónur að fresta eðlilegu viðhaldi upp á 1 krónu. Það er því skammgóður vermir að fresta því að gera við. Vermir jafnvel enn skemur en þegar pissað er í skóinn sinn sér til hita. Vanrækt viðhald er ekkert annað en dýrt lán á vöxtum. Nú hefur komið fram að skólastarf í Fossvogsskóla hefur raskast og húsið verið rýmt. Rakaskemmdir og myglu er að finna í mörgum öðrum byggingum borgarinnar. Meðvituð ákvörðun um að fresta viðhaldi var tekin fyrir átta árum síðan. Þessi frestun sparaði borginni marga milljarða, en samkvæmt þekktri reiknireglu má segja að þetta sé eitt dýrasta lán sem hægt er að taka. Ef þakið lekur og ekki er gert við það fylgja rakaskemmdir, fúkki og mygla ásamt óskemmtilegum fylgifiskum með tilheyrandi vanlíðan. Á sama tíma og sparað var í viðhaldi í skólabyggingum var ákveðið að fjárfesta í bragganum í Nauthólsvík og öðrum ólögbundnum gæluverkefnum á borð við pálmatré í gleri.
Eftir höfðinu dansa limirnir
Sama á við um dótturfélög borgarinnar. Félagsbústaðir hafa vanmetið viðhaldsþörf íbúða í eigu félagsins. Nýlega leiddi úttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar í ljós að viðgerðir á íbúðum í Írabakka fóru 330 milljónum fram úr áætlun. Hætta er á að viðhaldsþörf annarra íbúða í eigu félagsins sé vanmetin. Frægasta dæmið er þó aðalstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur, hús sem talið er nær ónýtt. Enn er óljóst hvað olli þessu gríðarlega tjóni en viðhaldi kann að vera um að kenna. Við sjáum dæmi um vandamál með fráveitu, kalda vatnið og nú síðast skort á heitu vatni. Ljóst er að teflt er á tæpasta vað í endurnýjun innviða og viðhaldi. Það er akkúrat enginn sparnaður í því að fresta nauðsynlegu viðhaldi. Þvert á móti er ámælisvert að trassa það. Fossvogsskóli er skólabókardæmi um það. Við það bætist svo vandi foreldra, barna og kennara, þegar skólahúsið er ekki til staðar, og sá kostnaður sem fylgir atvinnutapi þeirra foreldra sem verða að vera heima með börnunum vegna þessa. Þörf er á heildarúttekt á viðhaldi borgarinnar og höfum við lagt til að hún fari fram. Fyrst þarf að kanna ástandið á skólahúsnæði borgarinnar og svo öllu húsnæði borgarinnar. Í ljós hefur komið að fyrirliggjandi úttektir hafa ekki verið í lagi. Heilbrigðiseftirlitið gaf húsnæði Fossvogsskóla næsthæstu einkunn í úttekt sinni í nóvember. Þremur mánuðum síðar er það talið óhæft til kennslu. Það kann víðar að vera mygla í mosanum hjá borginni.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. mars 2019.